„Ég elska að fræðast meira um lög sem ég fíla. Hlusta á demó og fá upplýsingar um hvernig lagið varð til,“ segir Bjarni Lárus Hall sem skilaði meistararitgerð í fimm hlaðvarpsþáttum um söguna á bak við lagið, sem hann kallaði Nú er lag.

Bjarni var að klára nám í hagnýtri menningarmiðlun og er útskriftin 17. febrúar. Hann tók viðtöl við fimm tónlistarmenn sem fræddu hann um hvernig lög verða til, hvernig þau þróast og fékk að hlusta á gömul demó.

Verkefnið var tvískipt. Annars vegar fimm hlaðvarpsþættir með einn viðmælanda í hverjum þætti og svo greinargerð þar sem verkefnið var tekið saman.

Hann ræddi við þau Krumma, Frank Hall, Hildi, Lay Low og Hauk Heiðar úr Diktu fyrir ritgerðina.

„Þau segja mér almennt frá hvernig þau búa til lög svo að maður fái betri innsýn í þeirra heim. Svo fékk ég þau til að spila demó af einhverju þekktu lagi. Ég leyfði viðmælendunum að ráða miklu því þau auðvitað þekkja sín lög, vita hvað er á bak við þau og hvaða demó eru skemmtilegri en önnur,“ segir Bjarni.

Haukur Heiðar úr Diktu og Hildur fengu að koma með tvö lög á meðan hinir mættu með eitt.

Í þættinum með Hauki ómar sagan á bak við lagið stórkostlega Thank you.

„Hann var með tvö mismunandi demó af hvernig lögin hjá Diktu urðu til og annað er Thank you. Dikta var þá að taka upp eitthvað allt annað og byrja bara að glamra í stúdíóinu.

Einhver byrjar á gítar og Haukur byrjar að syngja yfir, alveg rammfalskt, en maður heyrir lagið vera að fæðast,“ segir hann.

Frumskógur hlaðvarpa er mikill en þar sem fjallað er um ákveðið efni er það yfirleitt líklegra til vinsælda. Bjarni hefur íhugað næstu skref, hvort hann gefi hlaðvarpið út eða haldi jafnvel áfram.

„Þetta var verkefni í einum kúrs og María Ásdís Stefánsdóttir Berndsen, leiðbeinandi minn, sagði mér að hafa þetta sem lokaverkefni sem ég og gerði. Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt verkefni, en hvað verður næst, ég veit það ekki alveg. Ég hef svo sem lítið velt því fyrir mér. Þetta gæti samt orðið eitthvað því viðmælendurnir voru svo skemmtilegir og opnir,“ segir Bjarni.