KVIKMYNDIR

The Suicide Squad

★★★★

Leikstjórn: James Gunn

Leikarar: Idris Elba, Margot Robbie, John Cena

Það var mikið fjaðrafok þegar Disney lét James Gunn taka pokann sinn árið 2018. Þrátt fyrir að Gunn hafi malað gull fyrir Marvel með Guardians of the Galaxy-myndunum, þá þóttu vafasamar Twitterfærslur sem grafnar höfðu verið upp stangast á við fjölskylduvæn gildi músarinnar og hann var látinn fara.

Keppinautarnir í DC, sem voru ekki með tærnar þar sem Marvel var með hælana á þeim tíma, sáu sér þess vegna leik á borði og buðu Gunn að búa til mynd fyrir sig þar sem hann hefði frjálsar hendur til að gera það sem honum sýndist. Verkefnið var framhaldsmynd af Suicide Squad sem hafði komið út árið 2016 og þótti heldur bagaleg, meðal annars vegna meintra inngripa frá stúdíóinu sem virtist nú hafa lært sína lexíu.

Tryllt tukthús

Líkt og í forveranum hefst myndin í Belle Reve-fangelsinu þar sem harðsvíraðir ofurskúrkar eru bak við lás og slá. Við og við býðst þeim að stytta vist sína um áratug með því að samþykkja að taka þátt í aðgerðum á vegum ríkisstjórnarinnar, sem eru svo hættulegar að þær jaðra við sjálfsmorð.

Í þetta skipti er förinni heitið til suður-amerísku eyjunnar Corto Maltese, þar sem framið hefur verið valdarán og þarf hin svokallaða Sjálfsvígasveit að ráðast á eyjuna og eyðileggja rannsóknarstofu þar sem hið dularfulla Krossfisksverkefni er hýst. Þar sem hópurinn samanstendur af forhertum ribböldum eru hlutirnir þó ekki lengi að fara úr böndunum og við tekur litríkur hasar

Einföld en vel útfærð

Þrátt fyrir að um framhaldsmynd sé að ræða þá stendur hún vel fyrir sínu. Atburðarásin er hröð og ólíkt mörgum öðrum ofurhetjumyndum er litlum tíma eytt í uppbyggingu. Sá stíll sem margir áhorfendur féllu fyrir í Guardians of the Galaxymyndunum er hér til staðar, þótt hann sé mun groddalegri. Eitt það skemmtilegasta við stíl Gunn er að þótt ýmsar persónur myndarinnar séu fáránlegar á blaði, þá eru þær teknar nægilega alvarlega til að áhorfendur geti myndað persónuleg tengsl við þær.

Talandi um persónurnar þá er nánast hver einasta persóna stórskemmtileg, og þar sem snemma er sett fram að hver og ein þeirra gæti skyndilega látist á hrottafenginn hátt, þá tekst vel að viðhalda spennunni. Idris Elba stendur sig vel sem leiðtogi hópsins og er ekki of góður til að hylja á sér andlitið. Glímukappinn John Cena er drepfyndinn og sýnir bersýnilega að hann er mun betri í hlutverki skúrks en góðmennis og Stallone fer á kostum í talsetningu sinni á King Shark. Þá er þetta líka vel heppnuð frumraun hinnar efnilegu Daniellu Melchior sem veitir  myndinni þann hjartnæma blæ sem bindur hana  svo vel saman. Margot Robbie og Joel Kinnaman snúa aftur í hlutverkum sínum en falla aðeins í skuggann af nýliðunum.

Rétt eins og leikaravalið þá er tónlistarval Gunn bæði gott og viðeigandi og má þar finna bæði klassíska slagara og frumsamda tónlist eftir John Murphy. Eftir stendur einföld en vel útfærð skemmtun, sem er klárlega bíósmellur sumarsins. Þótt myndina megi nálgast á streymisveitum þá er ráðlagt að sjá þessa á hvíta tjaldinu

Niðurstaða:

Groddaleg skemmtun sem tekur sig mátulega alvarlega.