Hulda Vigdísardóttir, fegurðardrottning, doktorsnemi í málvísindum og starfsmaður hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra deildi skemmtilegri sögu á Instagram af bestu afmælisgjöf fyrr og síðar. Hún og kærastinn hennar, Birgir Örn Sigurjónsson eignuðust lítinn dreng á aðfaranótt mánudags og sagði hún frá gleðifréttunum með ótrúlegri fæðingarsögu.
„Fullkominn lítill drengur sem lét sko ekki bíða eftir sér en beið þó þangað til allir afmælisgestir voru farnir og mamman búin að opna síðustu gjafirnar þar sem hann vildi jú vera aðalpakkinn. Við fórum að sofa um klukkan tvö og nokkrum tímum síðar vaknaði ég til að fara á salernið. Áður en við vissum af vorum við þó komin upp á fæðingardeild. Ég þvertók reyndar fyrir að fara því ég var handviss um að ekkert væri að gerast en sem betur fer hafði Birgir vit fyrir mér og ég samþykkti það loks með tregðum,“ segir Hulda, en þá tóku við ótrúlegir atburðir.
„Hann tók mig í fangið og hélt á mér niður stigann (4 hæðir) en á leiðinni niður birtist fótur döðlu, enn í belgnum, undir fínu Minions-náttbuxunum og því var ekki um annað að ræða en að fá bláar sírenur út Bergstaðastræti. Mamma mín sem ætlaði að keyra okkur fylgdi fast á eftir sjúkrabílnum en ég bað sjúkraflutningamanninn vinsamlegast að keyra hægar því með hverri hraðahindruninni, fannst mér litli kútur vera kominn lengra út og það mátti hann alls ekki,“ segir Hulda.
Í sjúkrabílnum bað hún Birgi um að syngja gamla Nóa hástöfum, sem hann söng alla leið inn í fæðingarstofu. Hulda fékk loks leyfi til að rembast og með einum rembingi skaust lítill prins í heiminn.
„Ég fékk strákinn okkar í fangið og mér fannst mig hljóta að vera að dreyma. Hvernig hafði ég bara vaknað rétt áðan heima til að fara á salernið en verið hér núna með þennan gullfallega mola í fanginu?,“ segir Hulda.
Að sögn Huldu tók ferlið það stutta stund að hún gat ekki einu sinni fengið hláturgas eða mænurótardeyfingu, enda gafst enginn tími til að hugsa út í það.
„Þetta gerðist allt svo ótrúlega hratt en á svo lygilega fullkominn máta að ég trúi því varla enn. Litli kútur passaði líka upp á að pabbi væri heima en það munaði einum sólarhring að Birgir hefði þurft að hoppa út í vinnu í örfáa daga áður en fæðingarorlofið hans byrjaði. Ég fékk bókstaflega allar mínar óskir uppfylltar þessa afmælisnótt og hjarta mitt er fullt af þakklæti,“ segir Hulda.
Hægt er að lesa þessa ótrúlegu fæðingarsögu hér.