Hulda Vig­­dísar­dóttir, fegurðar­drottning, doktors­­nemi í mál­­vísindum og starfs­­maður hjá al­manna­varna­­deild ríkis­lög­­reglu­­stjóra deildi skemmti­legri sögu á Insta­gram af bestu af­mælis­gjöf fyrr og síðar. Hún og kærastinn hennar, Birgir Örn Sigur­jóns­son eignuðust lítinn dreng á að­fara­nótt mánu­dags og sagði hún frá gleði­fréttunum með ó­trú­legri fæðingar­sögu.

„Full­kominn lítill drengur sem lét sko ekki bíða eftir sér en beið þó þangað til allir af­mælis­gestir voru farnir og mamman búin að opna síðustu gjafirnar þar sem hann vildi jú vera aðal­pakkinn. Við fórum að sofa um klukkan tvö og nokkrum tímum síðar vaknaði ég til að fara á salernið. Áður en við vissum af vorum við þó komin upp á fæðingar­deild. Ég þver­tók reyndar fyrir að fara því ég var hand­viss um að ekkert væri að gerast en sem betur fer hafði Birgir vit fyrir mér og ég sam­þykkti það loks með tregðum,“ segir Hulda, en þá tóku við ó­trú­legir at­burðir.

„Hann tók mig í fangið og hélt á mér niður stigann (4 hæðir) en á leiðinni niður birtist fótur döðlu, enn í belgnum, undir fínu Minions-nátt­buxunum og því var ekki um annað að ræða en að fá bláar sí­renur út Berg­staða­stræti. Mamma mín sem ætlaði að keyra okkur fylgdi fast á eftir sjúkra­bílnum en ég bað sjúkra­flutninga­manninn vin­sam­legast að keyra hægar því með hverri hraða­hindruninni, fannst mér litli kútur vera kominn lengra út og það mátti hann alls ekki,“ segir Hulda.

Í sjúkra­bílnum bað hún Birgi um að syngja gamla Nóa há­stöfum, sem hann söng alla leið inn í fæðingar­stofu. Hulda fékk loks leyfi til að rembast og með einum rembingi skaust lítill prins í heiminn.

„Ég fékk strákinn okkar í fangið og mér fannst mig hljóta að vera að dreyma. Hvernig hafði ég bara vaknað rétt áðan heima til að fara á salernið en verið hér núna með þennan gull­fal­lega mola í fanginu?,“ segir Hulda.

Að sögn Huldu tók ferlið það stutta stund að hún gat ekki einu sinni fengið hlátur­gas eða mænu­rótar­deyfingu, enda gafst enginn tími til að hugsa út í það.

„Þetta gerðist allt svo ó­trú­lega hratt en á svo lygi­lega full­kominn máta að ég trúi því varla enn. Litli kútur passaði líka upp á að pabbi væri heima en það munaði einum sólar­hring að Birgir hefði þurft að hoppa út í vinnu í ör­fáa daga áður en fæðingar­or­lofið hans byrjaði. Ég fékk bók­staf­lega allar mínar óskir upp­fylltar þessa af­mælis­nótt og hjarta mitt er fullt af þakk­læti,“ segir Hulda.

Hægt er að lesa þessa ó­trú­legu fæðingar­sögu hér.