Verkið segir Narfi vera afleiðingu af rannsóknarvinnu í hönnunarnámi í LHÍ. „Ég er myndlistarmaður og grafískur hönnuður að mennt. Ég tók svo eitt ár í meistaranámi LHÍ í hönnun þar sem markmiðið var að rannsaka og túlka eitthvert viðfangsefni. Ég valdi mér steypu og gerði yfirborðsrannsókn á henni sem hráefni, skoðaði innihaldsefni og rannsakaði sement og framleiðslu á sementi. Ég komst að því að sement er mest framleidda efni í heiminum og er steinsteypa valdur að 6-8 prósentum af kolefnisútblæstri mannsins. Þetta er stærsta kolefnissporið af öllum byggingarefnunum á Íslandi. Út frá þessari rannsókn fiktaði ég meira með steypu og komst að því að ég vildi skoða múrbrot sérstaklega,“ segir Narfi.

Bakgrunnur Narfa er í götulist og graffiti. „Sem slíkur leitar maður uppi yfirgefnar byggingar eftir veggjum til að spreyja á. Hrá fagurfræði iðnaðarins hefur því alltaf heillað mig. Ég sé fegurð í haug af múrbroti, eitthvað sem flestum þykir ljótt. Mig langaði að finna leið til að benda á að það væri líka fagurfræði í rústunum.“

Steypa er ekki bara steypa

Rúststeinar eru bæði konseptverk og upphafið að nýsköpunarverkefni. „Í konseptverkinu Rúststeinum, en sjá má prótótýpu af verkinu á sýningu að Hólmaslóð 6, er hugmyndin að taka múrbrot úr hverju húsi sem er rifið á komandi árum, útbúa einn rúststein úr hverju og hlaða þeim saman.

Á myndinni sjást Rúststeinar, frumgerð af stærra verki.
Ernir

Ég hóf að safna múrbrotum þegar var verið að rífa Loftkastalahúsið og Víði. Svo lét ég skera þau niður. Þegar þú tekur þverskurð af steypu sést að steypa er ekki bara steypa. Í hverju húsi er sandur og möl, ólík að lit og áferð. Sement er líka margs konar á litinn því hús eru byggð á ólíkum tímum og sement kemur frá mismunandi framleiðsluaðilum sem framleiða úr ólíkum efnum . Með því að stilla rúststeinum saman myndast þverskurður af horfnum húsum.

Við þekkjum þetta, á gangi niður Hverfisgötuna, við sjáum nýtt hús eða auða lóð og vitum að þarna stóð annað hús áður. En maður man ekki eftir þeim. Rúststeinar yrðu minnisvarði um borgina sem er ekki til lengur. Á fimm eða tíu ára tímabili væru þeir kannski búnir að mynda vegg, hús eða jafnvel strúktúr.“

Efnið er takmörkuð auðlind

„Með Rúststeinum vil ég líka benda á að efnið er takmörkuð auðlind. Í dag er framleiddur einn rúmfermetri af steypu á ári fyrir hvert mannsbarn. Það þýðir sjö milljarðar rúmmetra! Þó svo kolefnissporið af steypu sé stórt er lausnin ekki endilega að fara aftur í timbrið. Steypa er í eðli sínu endingargóð. Gamli Iðnaðarbankinn við Lækjargötu var rifinn eftir 60 ár. En húsið var byggt og járnabundið til að endast að eilífu. Ef vandað er til verka, hönnun og arkitektúr er góður og hráefnin líka, ætti bygging sem eitt sinn var banki, að geta nýst í nýja starfsemi til ókominna ára. Það fellur gríðarlegt magn af steypuúrgangi til á Íslandi, eða um 36.000 tonn. Magn af múrbrotum sem urðuð eru á Íslandi eru því um 15.000 rúmmetrar. Til samanburðar er áætlað að það magn steypu sem þarf til að byggja nýju spítalabygginguna samsvari um 60.000 rúmmetrum. Stefnt er að því að byggja spítalann á þremur til fjórum árum. Það magn múrbrots sem er urðað árlega á Íslandi mun því á fjórum árum vera sambærilegt magn og steypan sem verður notuð í spítalann.

Í dag höfum við fengið nýtt samhengi með stríðinu og eyðileggingunni í Úkraínu. Þetta land var í uppbyggingu, en nú er verið að sprengja allt upp og eftir standa rústir. Þegar þar að kemur verða þær urðaðar.

Vitundarvakning hefur gert okkur kleift að sjá alla þá sóun sem verður í öllum geirum og á öllum framleiðslustigum. Matarsóun og efnissóun í fataiðnaðinum. Byggingariðnaðurinn er engin undantekning. Þetta gengur ekki lengur og það þarf að finna lausnir og bera meiri virðingu fyrir hráefninu.“

Nýsköpun og tækifæri

Rúststeinar eru líka nýsköpunarverkefni. „Þegar hús er rifið verður til mikið magn af múrbroti, sem fer beinustu leið í urðun. Konseptverkið hefur vakið athygli arkitekta og fasteignaþróunarfélaga sem liður í að leysa urðunarvandann. Þegar búið er að framleiða steypu og koma henni á þann stað sem hún á að vera, þá er hún orðin kolefnishlutlaust efni. Ómáluð og óklædd bindur hún bindur hún enn fremur ákveðið magn af kolefni, sem kemur mörgum á óvart. Í Noregi eru menn til dæmis að setja múrbrot í hljóðmanir meðfram þjóðvegum í stað nýrrar malar.

Ég er kominn í samstarf við einn besta vin minn, Adrian, sem er vélaverkfræðingur og Arnhildi Pálmadóttur arkitekt. Við erum að skoða hvort megi útbúa klæðningu úr múrbroti, eða jafnvel endurvinna heila veggi án þess að brjóta steypuna niður, búa til eins konar einingahús. Þá væri líka möguleiki á að búa til sófaborð eða aðra vörulínu úr hráefninu. Fókusinn núna er á klæðningarefnið og verkefnið hefur fengið styrk úr hönnunarsjóði, borgarsjóði og Aski mannvirkjarannsóknarsjóði. Við viljum gera frekari prófanir á efninu, kanna hvort hægt sé að saga múrbrotið á hagkvæmari hátt, hanna festingar sem lekur ekki í og ekki koma frostskemmdir út frá og fleira. Við vorum svo að skila inn annarri styrktarumsókn þar sem við erum með samstarfsyfirlýsingar við Klasa fasteignaþróunarfélag og Abltak sem er að brjóta niður og byggja á Höfða, um að safna múrbroti úr hverju húsi sem er rifið niður. Þetta er því orðið mjög spennandi verkefni,“ segir Narfi.

Fleiri verk eftir Narfa má sjá á vefsíðu hans narfi.is.