LEIKHÚS

Sunnefa

★★★

Árni Friðriksson og Leikhópurinn Svipir

Tjarnarbíó

Leikstjórn: Þór Tulinius

Leikarar: Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir

Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson

Búningar: Beate Stormo

Teikningar: Móeiður Helgadóttir

Tónlist og hljóðmynd: Margrét Kristín Sigurðardóttir

Blóðskammarþululag: Kristín Hrönn Waage, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Tinna Sverrisdóttir

Sviðshreyfingar: Aðalheiður Halldórsdóttir og Elín Signý Ragnarsdóttir

Upphaflega var Sunn­efa frumsýnd á Egilsstöðum þann 19. september og frumsýna átti seinna um haustið í Reykjavík. Einhver örlagahendi virðist vera yfir leikhópnum Svipum, þannig að sýningardagar leikverks um ævi, dauða og áhrif kvenskörungsins Sunnefu Jónsdóttur lentu í byrjun mars á þessu ári, en 8. þessa mánaðar var Alþjóðlegur baráttudagur kvenna.

Árni Friðriksson semur leikritið með aðstoð frá leikhópnum og Þór Tulinius leikstýrir, en alltof langt er síðan við fengum að sjá hinn síðarnefnda á leiksviðinu. Saga Sunnefu er ansi merkileg og eitt af mýmörgum dæmum um meðferð kvenna, ekki einungis í samfélaginu og réttarkerfinu heldur einnig í sagnfræðinni. Þeir nýta sér tækni frásagnar- og söguleikhússins þar sem aðalpersónan segir sína sögu sjálf, sem er römmuð inn með einfaldri sviðsmynd. Til að gera langa sögu stutta þá var Sunnefa dæmd til dauða ekki einu sinni heldur tvisvar fyrir að eignast barn með bróður sínum þegar þau voru einungis unglingar. En ekki er allt sem sýnist.

Leikkonurnar Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir standa sig vel í leikverki Árna, sem ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Tinna leikur hina bláfátæku Sunnefu frá unglingsaldri til dauðadags. Hún kemur ágætlega til skila hvernig Sunnefa þroskast og breytist við þetta ómannúðlega mótlæti. Vald hennar á textanum er líka gott, ekki auðvelt verk miðað við magnið sem hún þarf að koma til skila. Margrét Kristín leikur nánast allar aðrar persónur verksins og semur hljóðmynd og tónlist, sem hún flytur að stórum hluta meðan á sýningunni stendur. Kristín, vinnukonan á Skriðuklaustri, er þó eftirminnilegust úr persónugalleríinu sem hún sinnir. Þó er raddbeitingu þeirra beggja stundum ábótavant þá sérstaklega þegar þær eiga að vera að leika konur um þrítugt, en gera þær töluvert eldri. Samvinna þeirra þegar þær bregða sér úr hlutverkunum til að ræða málin sín á milli og setja söguna í samhengi er ansi góð, þannig draga þær áhorfendur nær sögunni.

Saga Sunnefu hefur innistæðu fyrir töluvert dýpri og yfirgripsmeiri umræðu um stöðu kvenna í íslensku samfélagi heldur en höfundur ber hér á borð. Þær voru keyptar og seldar, nauðgað og misþyrmt, þrælað út og barnsburður leiddi þúsundir til dauða. Þessi örlög kvenna einskorðast ekki við sautjándu og átjándu öldina heldur frá því að land var numið. Árni snertir á þessum málefnum en gleymir sér of oft í málalengingum, svo sem að tíunda hinar og þessar persónur frekar en að rýna rækilega í samfélagið sem þær spretta upp úr. Af þessum sökum verða margir karakterar tvívíðir og tækifæri týnast.

Hvað leikstjórnina varðar gerir Þór ýmislegt laglega þá helst hvernig atriðin flæða áfram, en vankantar eru á heildarmyndinni. Í fyrri hluta sýningarinnar stöðva leikkonurnar reglulega framvinduna til að ræða málin, greina gögnin og gera létt grín. En þegar líða tekur á seinni hlutann hverfur þessi áhersla eiginlega alveg og hefði mátt þræða betur inn í verkið. Þrátt fyrir að blóðskammarþulan sé vel með farin í flutningi Tinnu, þá er tónlistar­atriðið óþarfa stílbrot og hefði leikstjóri átt að færa atriðið í annan farveg.

Leikmynd og lýsing Egils Ingibergssonar þjónar frásagnarformi sýningarinnar vel þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum. Leikmunir og hljóðfæri umkringja leikkonurnar sem grípa til þeirra hluta sem þær þurfa til að undirstrika mál sitt. Þó standa upp úr forláta skjáir tveir sem er stillt upp sem bakgrunni. Á þeim kvikna eftirminnilegar teikningar Móeiðar Helgadóttur sem gæða sýninguna óvæntu lífi, sjón er sögu ríkari. Búningar Beate Stormo þjóna verkinu sömuleiðis vel, enda fjölnota, þar sem einfaldur klútur getur fært persónurnar til og frá í tíma.

Sunnefa Jónsdóttir lifði og dó á milli 1722/1723 og 1757/1758. Eins og margar hennar kynsystur lifði hún ekki lengi, en ekki tókst karlfauskunum að aflífa hana. Hennar sögu á að deila, ræða og rannsaka. Allar kvennasögur reyndar. Af nægu er að taka. Leikhúsið er hinn prýðilegasti vettvangur fyrir slíka söguskoðun og sýningin Sunnefa skilar hennar sögu þokkalega en hefði þolað bæði styttingu og meiri dýpt.

Niðurstaða: Áhrifamikil saga sem hefði þurft dýpri skoðun og djarfari umgjörð.