Eyjamaðurinn Leifur Geir Hafsteinsson og sonur hans, Kristján Steinn, ákváðu að leggja sitt af mörkum til þess að gleðja landann á þeim erfiðu tímum sem heimurinn er að upplifa þessa stundina með því að birta upplífgandi lag á facebook-síðu Leifs Geirs.

Leifur Geir sem er fyrrverandi knattspyrnuðmaður sem lék lengst af með ÍBV og einnig með Stjörnunni er einnig flinkur tónlistarmaður. Hann samdi meðal annars ódauðlegt stuðningsmannalag Eyjamanna, Komum fagnandi.

Fram kemur í facebook-færslunni með laginu að það sé stuðnigsmannasöngur við framvarðasveit Íslands í baráttunni við COVID-19 veiruna þau Þórólf Guðnason, Víði Reynisson og Ölmu D. Möller.

Boðskapur lagsins er að grípa þau tækifæri sem felast í samkomubanni í að ferðast innanhúss. Leifur Geir spilar á gítar og Kristján Steinn listilega á trompet. Saman syngja þeir jákvæðan og skemmtilegan texta lagsins.

Leifur lumar á innherjaupplýsingum um Þórólf, Víði og Ölmu og leynda tónlistarhæfileika þeirra. Hann vonast til þess að þau muni flytja lagið með þeim feðgum þegar það róast hjá þeim.

Þórólfur sóttvarnalæknir er frábær söngvari

„Við erum að upplifa erfiða tíma þar sem fólk verður að sýna ábyrgð og halda sig heima. Okkur fannst við þurfa að gera eitthvað til þess að sýna samstöðu og eitt leiddi af öðru. Pjakkurinn byrjað að æfa á trompet í haust og fékk lítinn tíma til að æfa lagið. Ég er mjög ánægður með hversu vel tókst til hjá honum," segir Leifur Geir í samtali við Fréttablaðið um lag þeirra feðga.

„Mér fannst mjög fyndið að í ljósi þess að ekki væri mögulegt að fara út úr húsi þá myndu mál þróast þannig að við myndum óska hvort öðru góðrar ferðar með dramatískum hætti þegar ferðast er á milli herbergja eða út í bílskúr," segir hann enn fremur.

„Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sem stendur svo sannarlega í ströngu þessa dagana er svo í fjölskyldunni okkar. Við erum mjög stolt af honum og vildum sýna þakklæti okkar í verki með þessu lagi. Þess má geta að Þórólfur er hörku söngvari og mikið mun betri i söngum en ég.

Þegar svo ber við brestur hann í söng og það er unun að fylgjast með því. Ég mun skora á honum þegar þessu ástandi linnir að syngja þetta lag með okkur. Það er svo mikið að gera hjá honum núna að ég held að það verður líklega að bíða betri tíma," segir Eyjamaðurinn um frænda sinn.

„Svo vill Heimir Hallgrímsson eigna Vestmannaeyjum Víði Reynis. Ég þekki Víði því miður ekkert en ef þetta er rétt hjá Heimi að Víðir sé Eyjamaður tekur hann örugglega lagið með okkur Þórólfi. Svo veit ég að Alma er mikil tónlistaráhugakona þannig að kannski endar þetta í eins konar COVID-Þrjú á palli," segir Leifur léttur.

FERÐUMST INNANHÚSS
1.
Þú veist það eru viðsjárverðir tímar,
Með landamæri lokuð víðast hvar
En sútum ekki örlög, heldur húkkum okkur far
Í ferðalag og freistum gæfunnar

Góða ferð, góða ferð, góða ferð,
Þetta‘er tækifæri‘af allra bestu gerð
Já tínum til vort trúss,
Og ferðumst innanhúss,
Góða ferð, verum sæl með góða ferð
2.
Í tveggja metra fjarlægð kæra vina,
Og ekki fleiri‘ en nítján á sama stað
Í takmörkunum lífsins, þá líst mér best á það,
Að bregða mér í ilmolíu-bað

Góða ferð, góða ferð, góða ferð,
Þetta‘er heima-SPA af allra bestu gerð
Oh við elskum svona stúss,
Að dúllast innanhúss,
Góða ferð, verum sæl með góða ferð
3.
Í leit að góðu matarævintýri,
Er um að gera‘að reyna lítinn klæk,
Í eldhúsinu tökum við höndum saman spræk
Nei, við sækjum ekki vatnið yfir læk

Góða ferð, góða ferð, góða ferð,
Garanterað að við fáum hagstætt verð
Förum í fínasta púss,
Og eldum innanhúss,
Góða ferð, verum sæl með góða ferð

4.
Ef langar þig að hjóla út í buskann,
En veðrið tekur úr þér alla drift
Þá skelltu vatni‘í brúsann,
og stingd‘í samband vift-
-unni og taktu trainertúr á Zwift

Góða ferð, góða ferð, hjólaferð,
Þú átt Carbonhjóls af allra bestu gerð
Já, ekki þetta fúss,
Við hjólum innanhúss,
Góða ferð, hjólaferð já góða ferð

5.
Ef leiðigjörn er orðin blessuð stofan,
Og eldhúsið svo hversdagslegt og grátt
Þá ævintýrin bíða, það toppar enda fátt,
Góða bílskúrsútilegu, yfir nátt

Góða ferð, góða ferð, góða ferð,
Þetta‘er útilega‘af allra bestu gerð
Já tínum til vort trúss,
Og kúrum innanhúss,
Góða ferð, verum sæl með góða ferð

6.
Nú þurfa allir þétt að standa saman
Og koma COVID-stríðinu á skrið,
Ef efla viljum lýðheilsu og finna sálarfrið
Við hlýðum Víði‘og ferðumst heima við

Góða ferð, góða ferð, góða ferð,
Þetta‘er upplifun af sérstökustu gerð
Já, fáum úr því rúss,
Að ferðast innanhúss,
Góða ferð, verum sæl með góða innanhúsferð