Magnús M. Norð­dahl, lög­fræðingur ASÍ og fyrr­verandi al­þingis­maður, og sonur hans, Magnús D. Norð­dahl, lög­maður, eru báðir í fram­boði fyrir komandi al­þingis­kosningar, en þó fyrir sitt­hvorn flokkinn. Þar sem þeir heita báðir Magnús og eru báðir lög­fræðingar er þeim frekar oft ruglað saman og hefur verið gert í mörg ár.

„Ég hef oft þurft að stöðva sím­töl þar sem fólk byrjar að ræða við mig og telur sig vera að tala við pabba,“ segir Magnús yngri. Hann segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fleiri en einn úr fjöl­skyldunni eru í fram­boði en árið 2017 voru bæði pabbi hans og systir í fram­boði fyrir Sam­fylkinguna og hann sjálfur fyrir Pírata í Norð­vestur­kjör­dæmi.

Vit­leysan hafi þó al­ger­lega undið upp á sig núna og margir haldið að hann, sá yngri, hafi verið að sækjast eftir sætum hjá báðum flokkum í að­draganda næstu al­þingis­kosninga.

„Sumir Píratar héldu rang­lega að ég hefði sóst eftir sæti á lista Sam­fylkingarinnar en það kemur til vegna ruglings á milli mín og föður míns sem berum sama nafn,“ segir Magnús hinn yngri, sem vill gjarnan leið­rétta þennan mis­skilning.

Gerist mjög oft

„Þetta gerist mjög oft. Ég er farinn að þekkja raddirnar í vinum hans,“ segir sá eldri, Magnús M. Í sam­tali við Frétta­blaðið og hlær.

Hann segir að þeir sem þekki til viti þó betur. Ef að fólk hringi og leiti að syni hans þá vísi hann þeim þó í rétta átt.

„Við höfum rök­rætt um stjórn­mál alveg frá því að hann var pínu­lítill þannig ég er ekkert hissa á því að hann sé Pírati,“ segir Magnús hinn eldri.

Enn á eftir að á­kveða lista fyrir Pírata í Norð­vestur­kjör­dæmi þar sem Magnús hinn yngri býður sig fram öðru sinni. Þótt þeir séu ekki í sama flokki segir sá eldri að hann sé á­nægður með val hans. Hann segir að sumu leyti skarist stefna flokkana en alls ekki að öllu leyti.

„Það er gott að leið­rétta mis­skilninginn, það halda margir að ég sé Pírati líka,“ segir hann þó og hlær.

Sá yngri til vinstri og sá eldri til hægri.
Mynd/Samsett

Aldrei reynt að blekkja

Spurður hvort að hann hafi ein­hvern tímann reynt að nýta sér það til góðs segir hann að hann hafi hingað til staðist þá freistingu.

„Við höfum aldrei leikið okkur með þetta og blekkt fólk. Þetta hefur allt verið ó­vart,“ segir Magnús, hinn eldri.

Þú hefur ekkert reynt að fiska upp­lýsingar upp úr vinum hans?

„Nei, ég hef al­ger­lega staðist það. Segi bara bíddu að­eins, þetta er sá eldri. Það verður að vera þannig, annars er trúnaðurinn farinn,“ segir hann að lokum.