Þau Sólborg og Þorsteinn hafa í sitthvoru lagi heimsótt fjölda skóla og félagsmiðstöðva um allt land en leiða nú saman hesta sína og bjóða upp á sameiginlegan fyrirlestur um mörk, samskipti og karlmennsku. Markmiðið segja þau vera að stuðla að uppbyggilegra jafnréttissamfélagi með því að hrista upp í viðteknum samfélagslegum normum og hugmyndum.

Ákall eftir aukinni kynfræðslu

Sólborg segir að ákall um aukna kynfræðslu hafi staðið yfir lengi og mikilvægt sé að efla hana strax: ,,Þegar ég var í grunnskóla fyrir tæpum áratug síðan voru jafnaldrar mínir að óska eftir meiri kynfræðslu. Í dag hefur það ekki breyst. Í stað þess að gera ráð fyrir því að börn og unglingar hafi ekki áhuga á þessum hlutum né þroska til skilja þá, hvernig væri að við spyrðum þau? Eftir að hafa rætt við þúsundir ungmenna síðastliðna mánuði er ég fullviss um það að aukin kynfræðsla í skólum, sem snýr að samskiptum, mörkum, kynlífi, fjölbreytileika og samþykki, geti komið í veg fyrir ofbeldi. Við megum ekki leyfa enn einum áratugnum að líða. Við þurfum að byrja í dag.” segir Sólborg.

„Það er mikilvægt að tala um feðraveldið, varpa ljósi á valdatengslin og hrista upp í viðteknum karlmennskuhugmyndum. Ég tel að karlmennskuhugmyndir séu að að buga karlmenn, eins og sást í #karlmennskan, og ég tel að þær stuðli að kynbundnu ofbeldi og mismunun. Þar sem við erum bæði að fjalla um sama jafnréttismálefnið út frá tveimur ólíkum sjónarhornum finnst okkur styrkur í að bjóða líka upp á sameiginlega fræðslu“ segir Þorsteinn og að hugmyndin hafi kviknað eftir að þau voru bókuð saman í Menntaskólann að Laugarvatni.

Bara væl eða öfgafemínista áróður

Fávitar er Instagram síða sem Sólborg stofnaði fyrir þremur árum og hefur það að markmiði að vekja athygli á algengi kynferðisofbeldis einkum á stafrænum vettvangi. Fávitar hefur laðað að sér tæplega 23 þúsund fylgjendum en ekki eru allir hrifnir. „Sumum finnst Fávita instagrammið bara vera væl eða öfgafemínista áróður. Staðreyndin er samt sú að fólk verður fyrir ofbeldi, fólk veður yfir mörk og það eru allskonar fólk sem eru fávitar. Ekki bara ljótir pervertar, heldur líka konur og menn sem eru oft góðir menn. Við verðum að tala um þessa hluti“ segir Sólborg og bætir við að karlar verði líka fyrir ofbeldi þótt oft sé gert lítið úr því.

Vill frelsa karlmenn undan álögum karlmennskunnar

Karlmennskan er samfélagsmiðill sem Þorsteinn heldur utan um bæði á Facebook og Instagram. Yfirlýst markmið Karlmennskunnar er að frelsa karlmenn undan álögum karlmennskunnar. Álögin að mega ekki tala um tilfinningar sínar, þurfa að vera stórir og sterkir og leika karlmennskuhlutverkið. Þorsteinn segir að hann geti ekki talið fjölda neikvæðra skilaboða sem honum hefur borist eða athugasemdir sem beint hefur verið að því sem hann hefur gert, sérstaklega í tengslum við #karlmennskan herferðina. „Ef ég skrifa pistil eða kem fram í viðtali og gagnrýni karlmennskuhugmyndir þá er það nánast eins og lögmál að einhverjir muni bregðast illa við“ Dæmi um athugasemdir og skilaboð sem Þorsteinn hefur fengið eru: “Heilaþvottur kynjafræðideildar Háskóla Íslands á sér engin takmörk“, „Kellingar eiga ekki að tjá sig um karlmennsku“ og „Er þá ekki næsta skref að setja á sig dömubindi?“.

Sterkari saman

„Við erum að gagnrýna viðteknar hugmyndir og viðmið sem bitna á okkur sem einstaklingum og samfélagi“ segir Þorsteinn. Þótt sumir upplifi boðskap þeirra Sólborgar og Þorsteins vera árásir á karlmenn þá vilji þau ekki taka undir það „Alls ekki. Við erum að gagnrýna feðraveldið sem gegnsýrir allt og bendum á afleiðingar þess í okkar samfélagi. Karlar verða líka fyrir barðinu á feðraveldinu og í erindum okkar förum við líka yfir það. Væri ekki steikt af mér að ráðast á karlmenn, verandi karlmaður?“ spyr Þorsteinn.

Þau segja það hag okkar allra að taka höndum saman um að útrýma kynferðisofbeldi og einn liður í því sé að skoða og hafa áhrif á viðtekin samskiptamynstur og karlmennskuhugmyndir. „Við erum allavega tilbúin að koma hvert sem er og hrista upp í fólki sem er tilbúið að hlusta.“ segir Sólborg og hvetur áhugasama um að hafa samband við hana eða Þorstein í gegnum samfélagsmiðlana Karlmennskan eða Fávitar fyrir nánari upplýsingar um erindin þeirra.