Sigrún, sem er 27 ára, er fædd og uppalin í Reykjavík en fluttist nýverið búferlum til Siglufjarðar. Hún á von á sínu fyrsta barni í haust og segir síðustu vikur hafa einkennst af rólegheitum. „Undanfarnar vikur hef ég lifað í algjöru rútínuleysi. Ég kenni stundum jógatíma á netinu fyrir Soul Ascension Healing Arts og næsta námskeið hefst um mánaðamót. Þess utan hef ég mikið verið í fríi og tekið því rólega heima. Ég sef og borða þegar ég þarf, les mikið, horfi á sjónvarpið og hugleiði stundum. Á hverjum degi reyni ég að fara í göngutúr eða í jógastúdíóið að hreyfa mig, en stundum tekur letin völd.“

Sigrún segir jógakennaranámið hafa veitt sér dýpri innsýn í andlega þátt iðkunarinnar. MYND/VIKTORÍA ÖSP JÓHANNESD.

Áskoranir og lærdómur

Óhætt er að fullyrða að Sigrún sé margfróð en hún býr meðal annars að viðamikilli reynslu úr fimleikum. „Grunnurinn að allri minni þjálfun var lagður þegar ég var mjög ung og æfði fimleika í átta ár. Það felur í sér stranga alhliða þjálfun og sá styrkur, liðleiki, æfingatækni og keppnisskap sem ég öðlaðist þar hefur komið sér vel alla tíð síðan. Frá því ég hætti tólf ára gömul í fimleikum hef ég stundað mjög fjölbreytta líkamsrækt og meðal annars prófað dans í ótal formum, súlufimi, brasilískt jiu-jitsu, parkour, lyftingar og jóga. Ég hef alltaf viljað halda mér við, bæði hvað varðar líkamlegt form og færni en líka hvað varðar aðlögunarhæfni og viðbragð taugakerfisins. Það skiptir svo miklu máli að skora stöðugt á sjálfan sig að læra eitthvað nýtt, og líkamleg þjálfun er frábær leið til þess.“

Eitt af því sem Sigrún hefur bæði lagt stund á og kennt er súlufimi þar sem iðkendur leika listir sína á súlu. „Ég byrjaði í súlufimi árið 2009 þegar íþróttin var enn frekar ný hér á landi. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróuninni, bæði á íþróttinni sjálfri og á ímynd hennar út á við.“

Í hugum margra er súlufimi erótísk en Sigrún segir nálgun iðkenda einstaklingsbundna. Þetta sé bæði listform sem fólk tjái sig í gegnum á ólíka vegu og íþrótt sem krefst mikillar fimi og styrks. „Margir tengja súlufimina eingöngu við strippstaði, enda notum við sambærilegar súlur og oft sömu hreyfingar. Þetta er svo eins og hvert annað listform; hver einstaklingur tjáir sig í gegn um hreyfingar sem henta viðkomandi og súludans er ótrúlega fjölbreyttur. Sumir dansa kynferðislega, aðrir segja ljóðræna sögu með hreyfingum og fyrir enn öðrum eru þetta beinlínis fimleikar. Íþróttin er ofboðslega krefjandi og frábær leið til að byggja upp mikinn styrk og liðleika,“ útskýrir Sigrún.

„Það er líka áhugavert að fólk æfir gjarnan í mjög léttum fatnaði, en það er vegna þess að ber húð nær betra gripi á súlunni. Þetta er frábært tækifæri til að finna dýpri sátt við eigin líkama, enda æfum við oftast í hópum þar sem allir eru í sömu stöðu og umburðarlyndið algjört. Það er orðið of langt síðan ég hef stundað súluæfingar reglulega, en ég hlakka til að byrja aftur við tækifæri.“

Sigrún Hrönn Ólafsdóttir leggur áherslu á að rækta bæði líkama og sál, enda sé það nátengt og háð hvort öðru.MYND/VIKTORÍA ÖSP JÓHANNESDÓTTIR

Tækifærin eru alls staðar

Sigrún hefur stundað jóga um árabil en fyrir sex árum fór hún að kafa enn dýpra í fræðin. „Ég byrjaði fyrst að stunda jóga fyrir um þrettán árum síðan. Þá sá ég þetta fyrst og fremst sem líkamsrækt, en fannst stundum ýjað að því í tímum að það væri meira á bak við hreyfinguna. Með árunum varð ég forvitin um slökun, hugleiðslu og möntrusöng. Það var þó ekki fyrr en árið 2014, þegar ég fór frekar óvænt í fyrsta jógakennaranámið mitt, sem ég skildi loksins hvað hafði verið að kalla á mig. Þá kynntist ég ávinningi þess að gera jóga að lífsstíl, og eftir því sem ég þjálfaði mig meira varð ég næmari fyrir sjálfri mér og umhverfinu.“

Kynni Sigrúnar af jóga gerðu það að verkum að hún gekk í gegnum ákveðna hugarfarsbreytingu. „Ég fór að sjá venjur mínar og samskipti við umheiminn í nýju ljósi og kynntist fólki, dýrum og náttúrunni á nýjan hátt. Þessi aukna næmni og skilningur varð meðal annars til þess að ég breytti mataræðinu mínu mikið, til að sýna lífi annarra og mínu eigin virðingu.“

Sigrún hefur verið óhrædd við að leita inn á við og í náttúruna í leit að aukinni meðvitund og þekkingu. „Út frá jógaiðkuninni hef ég svo kynnst ýmsu á sviði orkuheilunar og náttúrulækninga. Ég hef setið hugleiðsluathafnir, kynnst hugbreytandi og heilandi plöntum og fundið á eigin skinni þann mikla kraft sem býr í ásetningi og skýrri, opinni meðvitund. Það skiptir öllu að vanda sig og hvort sem það er jóga, listsköpun, te eða sveppir, fjallgöngur eða kraftlyftingar – tækifærin til að læra og þroskast eru alls staðar.“

Sigrún hefur stundað jóga um árabil en fyrir sex árum fór hún að kafa enn dýpra í fræðin. MYND/VIKTORÍA ÖSP JÓHANNESDÓTTIR

Allt eins og það á að vera

Fyrir forvitni sakir spyr blaðamaður hvort Sigrún trúi á æðri mátt af einhverju tagi. „Æðri máttur er áhugavert hugtak, enda er ég ekki sannfærð um að neitt í þessum alheimi sé í raun æðra en nokkuð annað. Hins vegar veit ég ekki um neitt dýrðlegra en þá staðreynd að við séum öll á lífi, og að heimurinn sé í stöðugri þróun alveg á eigin spýtur. Á bak við þetta allt liggur einhvers konar kraftur. Fyrir mér er þetta hinn sami kraftur og fólk hefur í gegn um aldirnar kallað ýmsum nöfnum og skrifað um það bækur og reglur hvernig best sé að lifa í sátt við þennan kraft. Mér finnst ekki skipta máli hvernig fólk velur að lofsyngja þessa dýrð sem er lífið sjálft, en ég vona að sem flestir hljóti af söngnum innblástur til að sýna umburðarlyndi og ást en ekki útilokun og ótta,“ segir Sigrún íhugul.

„Það er eitthvað frelsandi við það að sjá sjálfan sig sem örsmáan hluta af risastórri heild, og vita að í hinu allra stærsta samhengi er fátt sem skiptir sköpum. Á sama tíma verða stórar breytingar yfirleitt til vegna fjölmargra minni sem á undan komu, og því skiptir alltaf máli að vanda hvert skref sem tekið er. Ég trúi á örlög og karma og finn mikla huggun í þeirri staðfestu sem ég hef um að allt sé eins og það á að vera. Það þýðir samt ekkert að firra sig ábyrgð á eigin hegðun – að sjálfsögðu skiptir máli að gera sitt besta – en svo er gott að treysta því að hvaða ákvörðun sem tekin er muni skila heiminum á hárréttan stað.“

Sigrún hefur iðkað og kennt jóga um árabil. MYND/VIKTORÍA ÖSP JÓHANNESDÓTTIR

Innri friður ekki sjálfgefinn

Sigrún nýtur þess að kanna nýjar slóðir, bæði í huganum og úti í heimi, en hún hefur bæði setið og leitt námskeið utan landsteinanna og segir þá reynslu afar dýrmæta. „Kosta Ríka er sá staður sem ég hef eytt mestum tíma á án þess að beinlínis búa þar. Á síðustu þremur árum hef ég farið fjórum sinnum þangað, í nokkrar vikur í senn. Í fyrsta og síðasta skiptið sótti ég námskeið um jóga og orkuheilun, en í hin tvö skiptin kenndi ég jógakennaranám. Það er alltaf heiður að fá að leiða jógatíma og fræðslustundir, og sérstaklega kraftmikið þegar nemendahópurinn er tilbúinn til að kafa djúpt.“

Jógaiðkun sé bæði margþætt og persónubundin. „Jógafræðin kenna svo margt áhugavert um sjálfið og heiminn, og til að kynnast raunverulegri þýðingu þessarar vitneskju þarf hver og einn iðkandi að taka ábyrgð á eigin ferli. Það er sjaldgæft að innri friður komi til upp úr þurru, og flestir þurfa til dæmis að þjálfa einbeitinguna lengi áður en hún verður að hugleiðslu. Það er svo í gegn um hugleiðsluástandið sem við getum öðlast innsýn inn í hvað það er sem raunverulega skiptir máli, og hvað fellur undir óþarfa áhyggjur hugans. Heilbrigður lífsstíll, öndunaræfingar og líkamleg þjálfun eru hluti af iðkuninni, en jógastöður voru upphaflega hannaðar með það eitt að leiðarljósi að auðvelda fólki að sitja í hugleiðslu.“

Það styttist í að Sigrún takist á við nýtt hlutverk í lífinu en hún á von á sínu fyrsta barni í september. „Ég geng núna með fyrsta barnið mitt og meðgangan hefur verið áhugaverð reynsla hingað til. Ég er að takast á við fleiri stór verkefni í lífinu samhliða því og það er stundum erfitt að greina hvaða viðbrögð ég hefði annars sýnt og hvenær hormónarnir ýkja upplifunina. Mér þykir góð regla að gera mér almennt ekki upp væntingar heldur leyfa hverri upplifun að koma á óvart, og í gegn um meðgönguna hef ég reglulega minnt mig á að þetta er í fyrsta sinn sem ég geri þetta og það var engin leið að vita út í hvað ég væri að fara.“

Sigrún flutti nýverið til Siglufjarðar og tekur ástandinu sem nú ríkir með ró á meðan hún bíður eftir sínu fyrsta barni sem er væntanlegt í heiminn í september. MYND/VIKTORÍA ÖSP JÓHANNESDÓTTIR

Þegar Sigrún er spurð að því hvort eitthvað hafi komið á óvart nefnir hún nokkur atriði. „Það sem þó hefur helst komið á óvart er hversu spennt ég er að vita kyn barnsins, en áður gerði ég allt eins ráð fyrir að sleppa því enda finnst mér óþarft að skilgreina fólk of mikið út frá kyni. Annað sem ég er hissa á er hversu mikið mig langar í sætindi, en það er mjög óvenjulegt fyrir mig. Svo hef ég aðeins verið að sækjast í ýmsar dýraafurðir sem ég hafði annars sniðgengið að mestu síðustu fimm árin eða svo. Það er skrýtið að finna löngun í það aftur enda staðreyndirnar um velferð dýra, umhverfisvernd og eigin vellíðan óbreyttar frá því ég tók ákvörðun um að hætta neyslu dýraafurða á sínum tíma. En fyrst löngunin er til staðar þegar ég er að búa til nýja manneskju þá treysti ég því að þetta sé hollt í svona litlu magni, og samviskan lagar sig að því.“

Hún lítur björtum augum til framtíðar. „Ég er nýflutt í lítið bæjarfélag og það er skrýtið að aðlagast smábæjarlífinu á tímum þegar hlutir eins og ræktin, sund, jógatímar og vinahittingar, sem ég myndi annars taka ríkan þátt í, eru ekki í boði. Ég er mjög róleg yfir ástandinu og nýt þess að vera í fríi, en hlakka þó til að byrja að vinna aftur og taka virkari þátt í samfélaginu hér þegar það fer aftur af stað.“

Hægt er að fylgjast með og hafa samband við Sigrúnu á Facebook undir „Sigrún Hrönn - Jógakennari“ og á Instagram undir „SimranYoga“.