Hjólreiðar taka yfir sumarið hjá Elínu Auði Ólafsdóttur sem nýtir frekar veturinn fyrir gönguskíði, snjóbretti og almenna líkamsrækt innandyra. „Ég hef alltaf haft áhuga á hjólreiðum og hjólaði mikið sem barn. Helsta markmiðið þá var að ná að hjóla sem lengst án þess að halda í stýrið. Þar sem ég átti heima í sveit þá fór ég mikið um á hjólinu og við vinirnir stofnuðum meira að segja hjólagengi sem við kölluðum vegamótagengið. Þá hittumst við á gatnamótum og lékum okkur að skransa og fá misgáfulegar hugmyndir eins og að setja Bleikt og blátt blað í póstkassann hjá prestinum og fyrrverandi skólastjóranum.“

Í dag býr Elín á Akureyri ásamt eiginmanni og þremur börnum og starfar sem umsjónarkennari í 7. bekk í Brekkuskóla.

Elín Auður Ólafsdóttir heillaðist snemma að hjólreiðum. AÐSEND/ÁRMANN HINRIK

Þarf hjól við hvert tækifæri

Elín er yngst í systkinahópnum og segir foreldra sína fljótlega hafa hætt að tíma að kaupa ný hjól og hvað þá handa örverpinu. „Því fékk ég alltaf hjólin frá eldri bræðrum mínum þegar þeir fengu ný og það var ekki fyrr en ég varð tvítug sem ég fékk fyrsta nýja hjólið. Maðurinn minn hefur einnig mikinn áhuga á hjólreiðum og það var í raun þegar hann fékk fyrsta fulldempaða hjólið sitt árið 2013 sem áhugi minn á fjallahjólreiðum kviknaði fyrir alvöru og þá var ekki aftur snúið. Í bílskúrnum okkar má finna 18 hjól enda þarf hjól við hvert tækifæri.“

Það er endalaust hægt að ögra sér í hjólreiðum. MYND/ÁRMANN HINRIK

Frábær félagsskapur

Elín er einn stofnenda hópsins KvEnduro en í honum eru konur sem elska að hjóla utan malbiks í góðra vina hópi. „Við stofnuðum KvEnduro sumarið 2016 en þá höfðum við hjólað með strákunum en langaði að hjóla meira með öðrum stelpum. Þriðjudagskvöldin urðu fyrir valinu og við hófum að bera út fagnaðarerindið og hjóla reglulega. Frá stofnun hefur hópurinn stækkað hratt og örugglega.“

Eitt helsta markmið í upphafi var að fá fleiri stelpur til að hjóla utan malbiks, efla sjálfstraust til að fást við hinar ýmsu hindranir og láta reyna á mörkin. „Þetta verkefni blómstraði svo sannarlega og alltaf fjölgar í hópnum hjá okkur. Það hafa verið kvöld þar sem við höfum verið 35 að hjóla saman. Það hefur verið frábært að fá að fylgjast með fjölgun kvenna í sportinu og fá að hjálpa öðrum konum að gera hluti sem þeim hefði aldrei dottið í hug að þær gætu gert. Þetta er fyrst og fremst frábær félagsskapur af ólíkum konum á mismunandi aldri sem allar hafa þennan brennandi áhuga á að hjóla saman og hafa gaman.“

Hjólreiðar eru góð líkamsrækt en líka fjölbreytt leið til að fá útrás og hreinsa hugann af amstri hversdagsins, að sögn Elínar. MYND/KAREN SVEINSDÓTTIR

Fjölbreytt líkamsrækt

Fram undan er skemmtilegt hjóla­sumar að hennar sögn. „KvEnduro heldur áfram að hittast á sínum þriðjudagskvöldum þar sem planaðar eru hjólaferðir hér í kringum Akureyri, ferðir til nágrannasveitarfélaga og svo er á planinu að fara í eina lengri ferð á nýjar slóðir innanlands.

Við stefnum svo á að taka þátt í enduro- og fjallabrunkeppnum sem verða haldnar í sumar og vonandi ná að fá með okkur fleiri stelpur sem ekki hafa prófað að taka þátt í svoleiðis. Það er fátt skemmtilegra en að skora aðeins á sjálfa sig og fara út fyrir þægindarammann.“

Hún hvetur sem flesta, konur og karla, til að prófa þessa skemmtilegu líkamsrækt. „Hjólreiðar eru góð líkamsrækt en líka svo fjölbreytt og góð leið til að fá útrás og hreinsa hugann af amstri hversdagsins. Svo er bara svo dásamlega skemmtilegt að fara út að hjóla í góðra vina hópi, uppgötva nýjar leiðir og ögra sjálfum sér.“

Hægt er að fylgjast með KvEnduro á Facebook og Instagram (@kvenduro),