Ragna var á unglingsaldri þegar hún stóð fyrst á sviði og rappaði í félagsmiðstöð í Kópavogi. Það átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar og hún er löngu orðin þekkt sem rapparinn Cell7, bæði hér innanlands og utan. „Um leið og ég byrjaði að rappa fann ég að þar var ég á réttri hillu. Rapp er tónlist sem ég vildi helst alltaf hlusta á og búa til sjálf og þá varð ekki aftur snúið. Á æskuárunum var tónlist mikið spiluð á heimilinu. Ég tók örstutta rispu á gítarinn, en unglingurinn í mér nennti ekki að læra tónfræði svo ég hætti, en ég hef alltaf séð eftir því. Ég lít svo á að það sé ómögulegt að vita fyrir fram hvað nákvæmlega kveikir hjá manni áhuga eða fyrir hverju maður brennur. Hver og einn þarf að prófa sig áfram og finna út úr því. Ég fann mig algjörlega í rappinu og þótt bransinn geti verið erfiður er tónlistin svo gefandi að ég leita alltaf aftur í hana. Það er fátt sem gefur mér eins mikið og tónlist,“ segir Ragna.

Ragna er með nýja plötu í smíðum og þar fá hlustendur að heyra alveg nýja hlið á henni.Serbl_Myndatexti: FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Borgarbarn inn við beinið

Þessa dagana er Ragna áberandi í nýrri markaðsherferð Íslandsstofu þar sem fólk víða um veröld er hvatt til að skipta jogginggallanum út fyrir gönguskóna og koma til Íslands. „Ég fékk bara símhringingu þar sem mér var sagt að það vantaði rappara fyrir þetta verkefni. Ég ákvað að slá til og vera með. Þetta er alþjóðlegt samstarf og það vinnur klárlega með mér að ég rappa á ensku. Að verkefninu koma þrjár auglýsingastofur, auk Íslandsstofu. Ein þeirra er í Los Angeles, önnur í London og sú þriðja á Íslandi. Við Ásgeir Orri Ásgeirsson frumsömdum lagið en það var að ýmsu að huga þegar svona margir koma að einu verkefni, en það voru allir sáttir og mjög glaðir með lokaniðurstöðuna,“ segir Ragna.

Hún segir það vissulega áskorun að vinna með stórum hópi fólks sem kemur sitt úr hverri áttinni en það hafi heppnast mjög vel. „Ég er líka alltaf til í eitthvað flipp ef það er mér að skapi,“ segir Ragna.

Hún viðurkennir að hún sjálf sé mikið borgarbarn og hafi ekki enn tileinkað sér útivistarlífsstíl. „Ég fer sjaldan í ferðalög um landið en af og til í sumarbústað. Ég er alltaf á kafi í vinnu og finnst gott að vera í bænum og í kringum bæjarlífið,“ segir Ragna.

Ragna og Hildur Kristín Stefánsdóttir mynda saman hljómsveitina Red Riot.Serbl_Myndatexti:FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Nýtt lag og ný plata

Á dögunum sendi Ragna frá sér nýtt lag, It‘s Complicated, sem er fyrsta lagið á plötu sem hún vinnur nú að. Stefnan er að sú plata komi út fyrir árslok. Síðasta platan hennar, Is Anybody Listening, kom út árið 2019 og fékk glimrandi góða dóma. Breiðskífan hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem besta hiphop og rappplata ársins og var einnig tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. „Ég náði ekki að fylgja þeirri plötu eftir að neinu ráði út af kórónuveirufaraldrinum. Ég og mitt fólk var bókað á tónleika víða um heim út árið 2020 en það fór allt í vaskinn. Við náðum að fara í stuttan túr til Sviss í ársbyrjun 2020 og vorum komin til Berlínar þar sem stóð til að koma fram á tónlistarhátíðinni Ja Ja Ja, þegar hún var blásin af og allir sendir heim í sóttkví,“ segir Ragna, sem vonast til þess að geta fylgt nýrri plötu eftir á næsta ári af fullum krafti.

Platan mun sýna alveg nýja hlið á Rögnu. „Tónlistin mín er síbreytileg, sem mér finnst gott, því ég vil alls ekki ekki staðna heldur þróast sem listamaður. Tónlistin sem ég er að semja núna er gjörólík því sem ég hef nokkurn tímann áður gert. Undanfarið hef ég gengið í gegnum breytingar í mínu persónulega lífi sem hefur óneitanlega áhrif á tónlistina,“ segir Ragna.

Hún er líka í hljómsveitinni Red Riot með Hildi Kristínu Stefánsdóttur söngkonu. „Við stefnum á að senda frá okkur plötu síðar í sumar. Við semjum allt okkar efni sjálfar, útsetjum og tökum upp. Red Riot er allt annað dæmi en Cell7 og dúndrar út danstónlist, rappi, poppi og teknói með kraftmikilli bassalínu,“ segir Ragna.

Samstarf þeirra Hildar hófst fyrir nokkrum árum þegar Ragna hafði samband við Hildi varðandi að syngja „live“ með Cell7. „Við komum úr mjög ólíkum áttum en náum að vinna ótrúlega vel saman,“ bætir Ragna við, en þær sendu frá sér sumarsmellinn One More Dance ft David 44 fyrir stuttu.

Ragna hefur látið til sín taka í þeim tilgangi að vekja athygli á stöðu tónlistarkvenna innan tónlistarheimsins, sem ekki er vanþörf á. „Ég tek til dæmis þátt í evrópsku verkefni sem kallast Keychange og felst í að peppa konur í tónlist og jafna hlutfall kvenna þegar kemur að tónlistarhátíðum. Ég kem fram á Iceland Airwaves í október sem fulltrúi Keychange og á tveimur erlendum tónlistarhátíðum síðar á árinu,“ segir hún.

Hannar áhrifshljóð

Þegar Ragna er ekki að rappa eða semja tónlist vinnur hún við hljóðhönnun. „Það er níu til fimm vinnan mín,“ segir hún og hlær. „Ég lærði fagið í New York, þar sem ég bjó í fjögur ár. Ég útskrifaðist úr hljóðvinnslu fyrir sautján árum og hef unnið við hljóðhönnun meira og minna síðan þá. Hljóðhönnun Kötluþáttanna var í mínum höndum, þar sem ég bjó til hljóðin fyrir eldgosið, jarðskjálftana, hellana og veðrið, auk áhersluhljóða fyrir vélsleða, bíla og árekstra, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er mjög skapandi og skemmtilegt starf og núna vinn ég að hljóðhönnun fyrir Ófærð 3. Ég skal alveg viðurkenna að það er dálítið undarlegt að búa til hljóð fyrir hríðarvind og snjóbyl um hásumar. Mér verður hálfkalt við það,“ segir hún.

Að hennar mati hentar vel að vinna við hljóðhönnun samhliða því að vera músíkant. „Þegar minna er að gera get ég tekið góðar rispur í tónlistinni. Ég þarf að minnsta kosti aldrei að láta mér leiðast,“ segir Ragna að lokum.