Guðný er glæsileg, hávaxin 22 ára einhleyp stelpa sem býr í foreldrahúsum og unir sér vel þar. Guðný ólst upp í Hafnarfirði og gekk þar í Setbergsskóla, tók 2 ár í Menntaskólanum við Sund og lauk skólagöngunni í Flensborg 2018 með stúdentsprófi. Síðan lærði Guðný förðunarfræðina, sem nýtist henni vel í starfi í dag og hefur hún mikla ástríðu fyrir starfi sínu.

Guðný vinnur hjá móður sinni sem á og rekur stofuna Heilsu og útlit. „Þar erum við að bjóða upp á alls konar meðferðir fyrir sogæðakerfið, innrauðar-meðferðir og andlitsmeðferðir, ásamt fjölda annarra meðferða sem eiga vel við menntun mína sem förðunarfræðingur. Ég nýt þess að dekra við viðskiptavini okkar og auka vellíðan þeirra,“ segir Guðný, sem er áhugasöm um starf sitt. „Ástríða mín í augnablikinu er vinnan mín á stofunni, en ég hef ávallt haft áhuga á húðinni og umhirðu hennar.“

Aðspurð segist Guðný nýlega vera byrjuð að geta tjáð sig með flíkum, þó áhuginn hafi verið til staðar frá bernsku. „Áhugi minn á fötum og tísku byrjar líklegast fyrst þegar ég sá Victoria’s Secret tískusýningu í fyrsta skipti mjög ung að árum, en ég varð alveg dolfallin yfir þessum heimi. Að fylgjast með frægum leikurum og tónlistarmönnum í tónlistarmyndböndum var líka stór partur af áhuganum. Ég byrjaði samt ekki fyrr en nýlega að getað tjáð mig með flíkum og gengið í þeim fötum sem ég geri í dag.“

Töffaralegar gallabuxur fra Guess klæða Guðnýju vel og bolinn keypti hún á netinu og cropped blazerinn frá Asos, skórnir eru frá Vagabond.

Klæðist því sem er þægilegt

Hefur þú ávallt haft skoðun á því í hvernig fötum þú vilt klæðast?

„Ekki beint, þar sem að tískan breytist svo ört og maður prófar sig þannig séð áfram með að fylgja henni. Ég myndi segja að ég væri komin á þá skoðun að klæðast því sem mér þykir þægilegast að vera í og lætur mér líða vel.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ég myndi lýsa honum eins og tónlistarsmekknum mínum. Ég fíla alla tónlist hvort sem það er rokk, country, hiphop og RnB. Ákveðinn stíll fylgir þessum tónlistargreinum og fer það svolítið eftir því í hvernig skapi ég er, hvað ég fíla hverju sinni.“

Þegar kemur að vali að sniðum, er eitthvað sem heillar þig frekar en annað?

Hér klæðist Guðný flottu glimmer-setti frá Yeoman og skórnir frá Vagabond setja punktinn yfir i-ið.

„Bootcut buxur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og munu mögulega alltaf vera það. Þær móta mann ekkert smá vel.“

Áttu þér uppáhaldsflíkur?

„One shoulder-bolurinn minn frá Yeoman og pelsinn minn.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Alexander Wang hefur alltaf verið í uppáhaldi ásamt Coco Chanel.“ Guðný segir að Chanel sé eitt af fyrstu stóru tískuvörumerkjunum sem hún tók eftir. „Eftir að ég sá myndina Coco before Chanel (2009) heillaðist ég algjörlega. En það sem heillar mig mest í dag og kostar ekki heilan handlegg er Zara, Asos netverslunin, Guess og Ganni.“

Ein af uppáhaldsflíkum Guðnýjar er pelsinn hennar frá Feldi og klæðir hann hana mjög vel. Hér er hún í pilsi frá New Yorker við pelsinn.Serbl_Myndatexti:FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Stílhreint og tímalaust

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum hverju sinni eða áttu þér þína uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég hef alltaf klæðst svörtu í miklum mæli og svarti liturinn klikkar aldrei, stílhreinn og tímalaus. Undanfarið hefur græni og brúni liturinn verið mikið í tísku og eru þeir orðnir að mínum uppáhaldslitum, mér finnst þeir klæða mig vel og mér líður vel í þeim.“

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Ég er frekar hávaxin og mér hefur alltaf fundist erfitt að finna flotta skó til þess að ganga í vegna þessa. Ég elska hælaskó eins og Louboutin eða Jimmy Choo, en ég hef ávallt gengið í strigaskóm með öllum flíkum. Upp á síðkastið hef ég verið að nota svarta boots. Óöryggi fylgir mér þegar kemur að því að vera í hælum sem eru hærri en 3-4 sentimetrar. Ég er alltaf að reyna að finna flotta skó með litlum hæl, en úrvalið hefur verið af skornum skammti.“

Þegar þú velur þér fylgihluti hvað finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Ef ég er að drífa mig út þá á ég það til að gleyma að setja á mig fylgihluti eins og hringi sem mér finnst vera mest heillandi, en ég er alltaf með eyrnalokka. Þeir finnst mér vera ómissandi og eru nokkuð sem ég gæti ekki verið án.“

Guðnýju finnst mikilvægt að þora að klæða sig eins og hverjum og einum líður best með. „Ekki vera hrædd/ur við að tjá sig gegnum flíkur og klæðast því sem manni líður vel í og gera það fyrir sjálfan sig.“