Sjálfur James Bond er einn þeirra sem eru löngu orðnir alltof seinir í eigin frumsýningarpartí, í hans tilfelli Bond-myndarinnar No Time To Die, þótt hann sé annars vel dressaður og ekkert að vanbúnaði.

Eins og í fyrri myndum, sem skartað hafa Daniel Craig í hlutverki hins eitursvala njósnara hennar hátignar, sér enginn annar en tískurisinn Tom Ford, ásamt Suttirat Anne Larlarb, um að klæða Bond í No Time To Die enda löng hefð fyrir því að frægustu fatahönnuðir heims séu kallaðir til þegar þarf að færa persónur kvikmynda og sjónvarpsþátta í réttu búningana.

Hér er rykið dustað af nokkrum klassískum í meistaraflokki á meðan beðið er eftir að frumsýningagleðin hefjist og stíliseraðar stjörnurnar byrji að skína á ný.

Barbarella (1968)

Paco Rabanne er hvað þekktastur fyrir framúrstefnulega hönnun sína og var því fullkominn til að hanna búninga Jane Fonda í vísindaskáldsögumyndinni Barbarella.

Last Year in Marienbad (1961) og Stage Fright (1950)

Engin önnur en Coco Chanel hannaði íburðarmikla búninga fyrir leikkonunna Delphine Seyrig í Last Year in Marienbad eftir Alain Resnais.

Hermt er að Marlene Dietrich, aðalleikkona Stage Fright, hafi heimtað að leikstjórinn Alfred Hitchcock myndi ráða góðvin sinn Christian Dior til að hanna búninga hennar.

The Great Gatsby (2013)

Yngsta barnabarn Mario Prada, stofnanda ítalska tískuhússins Prada, á heiðurinn af búningahönnun í The Great Gatsby. Búningarnir voru að sjálfsögðu í anda djassbylgjunnar sem skók þriðja áratug síðustu aldar þegar ekkert var til sparað.

Marie Antoinette (2006)

Mynd Sofiu Coppola um Marie Antoinette var sett í fremur nýtískulegan búning, allt frá vali á tónlist í myndinni til hönnunar skósafns Antoinette. Ef Marie Antoinette væri uppi í dag ætti hún eflaust nokkur pör af hágæða Manolo Blahnik-skóm.

The Fifth Element (1997)

Franski flippkisinn Jean Paul Gaultier sá um að hanna vísindaskáldskaparlega búningana fyrir fútúrísku spennumyndina The Fifth Element fyrir landa sinn, leikstjórann Luc Besson.

Áherslan á bert hold og kynþokka var gegnumgangandi í geimfagurfræði Gaultiers sem splæsti meðal annars í heldur gisinn bandabúning Millu Jovovich sem þrátt fyrir hvíta litinn var býsna BDSM-skotinn að ógleymdum þröngum og efnislitlum flugfreyjubúningum sem eru sjálfsagt mörgum eftirminnilegri en söguþráður myndarinnar.

American Gigolo (1980)

Richard Gere er reffilegasti fylgdarsveinn og glaumgosi í heiminum í þessari mynd sem festi hann rækilega í sessi sem eitt helsta kyntákn níunda áratugarins.

Kannski ekki furða þar sem sjálfur Giorgio Armani stíliseraði strákinn trúr þeirri hugmynd að klæðskerasniðið væri alveg málið til þess að keyra upp kynþokka leikarans.