Raftónlistarhátíðin Extreme Chill hófst í gær og stendur yfir helgina. Þetta er ellefta eða tólfta árið sem hátíðin er haldin, eftir því hvernig er talið, en markmið hennar er sem fyrr að kynna íslenskt og erlent raftónlistarfólk og tengja ólík listform.

„Það er fáránlega góð stemning og mér finnst hún eiginlega bara betri en fyrir Covid. Það eru einhvern veginn bara allir orðnir þyrstir að gera eitthvað skemmtilegt og líka bara að fara á svona viðburð á Íslandi er náttúrlega bara mjög sjaldgæft,“ segir Pan Thorarensen sem hefur haldið utan um hátíðina frá upphafi.

„Þetta er náttúrlega bara fjölskyldufyrirtæki. Bara ég og pabbi,“ segir Pan og hlær. Hann á ekki langt að sækja raftaugina en Óskar Thorarensen var í hópi raftónlistarfrumkvöðla á Íslandi, sem einn stofnenda Inferno 5, á níunda áratugnum. „Ég smitast svolítið af honum og við búnir að brasa mikið í tónlist saman.“

Fjöldi listamanna kemur fram á hátíðinni í ár. Meðal annarra Roger Eno, Mixmaster Morris, Bjarki, Mathilde Caeyers & Arrtu Niemenen, Ingibjörg Elsa Turchi, Kjartan Hólm, Hekla, Hermigervill, Borgar Magnason, Harp & Arp, Skurken, Tonik Ensemble, Good Moon Deer, Brynjar Daðason & Hafdís Bjarnadóttir, MSEA og Soddill, svo eitthvað sé nefnt.

„Hátíðin endar svo á Plague sem er frekar stórt nafn á bresku rafsenunni,“ segir Pan og telur óhætt að tala um happafeng í þessu sambandi.

Hátíðin fer fram á nokkrum stöðum í miðborginni; Hörpu, Húrra, Kex & Space Odyssey og allar upplýsingar eru á extremechill.org.■