Jón Gnarr
Frá því að ég var sextán ára gamall hef ég óskað eftir því að fá að heita Jón Gnarr en ekki Jón Gunnar Kristinsson. Það hefur tekið mig hálfa ævina að fá það í gegn og tókst loks þegar ég bjó í Bandaríkjunum um tíma. Þar sótti ég um nafnabreytingu, sem var ekkert mál og fékk hana í gegn. Þetta var fyrir fjórum árum og það var ekkert sem íslensk stjórnvöld gátu gert.
Ég fór fram hjá þessu kerfi, sem er það sem sífellt fleiri kjósa að gera. Þú getur til dæmis með einföldum hætti farið til Danmerkur, skráð þig inn í landið. Farið í kirkju í nágrenninu og þar getur þú sótt um nafnabreytingu eða nefnt barn þitt nafni sem hefur verið hafnað af mannanafnanefnd hér á landi. Þetta ferli tekur þrjá til fjóra virka daga og íslensk yfirvöld neyðast til að viðurkenna nafnið við heimkomuna.
Við búum í fjölmenningarsamfélagi og það er á engan hátt merkilegra að heita Sigríður eða Guðmundur en José eða Ljúblíana. Ég hef verið mótfallinn þessum lögum alla tíð, árið 1996 voru þau þannig að erlendum ríkisborgurum sem fluttu til Íslands var skylt að fella niður nafnið sitt. Ég man eftir frægu máli manns frá Kólumbíu, sem tók sér nafnið Eilífur Friður til að hæðast að þessum lögum. Þegar fyrstu Víetnamarnir komu hingað til lands þá fengu þeir afhent ný vegabréf með nöfnum sem höfðu verið valin fyrir þau. Hvað ætli fólk hugsi um okkur sem þjóð þegar það veit þessa staðreynd? Þetta er svo heimskulegt og rasískt.
En svo féll dómur hjá alþjóðadómstólum um að Íslendingar mættu ekki neyða fólk til að breyta nöfnum sínum. Fólk fékk því að halda ættarnöfnum sínum.
Grundvallarskoðun mín er sú að þessi lög séu ekki mikilvæg. Þau tryggja ekki öryggi okkar eða barnanna heldur eru fyrst og fremst starfstækifæri fyrir þröngan en fámennan hóp fólks sem vinnur við þetta. Lögin þjóna aðallega þeirra hagsmunum en ekki okkar almennra borgara.
Ég hef sagt það oft, mér finnst þetta algjörlega fáránleg ólög. Þau hafa valdið svo miklu ónæði og skaða í lífi fólks. Ég veit um fólk, innflytjendur sem vildu ekki sækja um íslenskan ríkisborgararétt bara vegna þess að þá þyrftu þeir að hætta að nota nafnið sitt. Þetta er fólk sem hefur lifað alla ævi á Íslandi, en ekki sem Íslendingar. Síðan þegar þetta fólk verður gamalt, þá nýtur það ekki sömu réttinda eins og það væri Íslendingar. Það er svo ljótt að finnast þetta mikilvægt og sniðugt þegar lögin valda slíkum skaða
Ríkisvaldið skipti sér ekki af einkalífi fólks
Sigríður Hlynur Snæbjörnsson, bóndi á Öndólfsstöðum
Ég vildi fá að taka upp nafn ömmu minnar sem ég hafði átt að heita eftir. Það er sterk hefð fyrir slíku í fjölskyldunni en bræður mínir heita eftir öfum okkar og systir mín var skírð í höfuðið á fóstru mömmu.
Ég hef almennt fengið mjög góð viðbrögð, fjölskyldan stendur algerlega með mér og það hefur alveg gerst að ókunnugt fólk víki sér að mér til að lýsa stuðningi sínum. Það kemur fyrir að virkir í athugasemdum telja nauðsynlegt að tjá sig um þetta með neikvæðum formerkjum en ég get ekki séð að þess háttar skoðanir hafi mikinn hljómgrunn.

Mér finnst allt frelsi til einkalífs mjög mikilvægt og mér finnst að ríkisvaldið eigi ekki að skipta sér af einkalífi okkar svo fremi sem við virðum rétt annarra til jafns við okkar eigin.
Ég held að mannanafnanefnd samanstandi af samviskusömu fólki sem hefur fengið það ömurlega hlutverk að kveða upp dóma eftir lögum sem hafa eftir því sem ég fæ best séð aldrei verið nauðsynleg eða viðeigandi.
Ég hef verið kallaður Hlynur í 50 ár og mér finnst líklegt að svo verði áfram þó svo að ýmsir hafi vissulega tekið upp á að kalla mig Siggu undanfarin misseri og ekki ætla ég að setja mig á upp á móti því, mér finnst það bara skemmtilegt og reikna með að það venjist vel.
Auðveldur sigur
Kolbeinn Hringur Bambus Einarsson
Ég bætti við Bambus sem þriðja nafni einfaldlega vegna þess að það hefur fylgt mér frá unga aldri og verið í raun óformlega partur af nafninu mínu. Ekkert flóknara eða úthugsaðra en það.

Í mínu tilfelli var þetta auðveldur sigur fyrir Bambus. Mannanafnanefnd samþykkti það án nokkurra vandræða. Það er mín persónulega reynsla og því hef ég bara gott af henni að segja. Það breytir því þó ekki að það á að vera sjálfsagt mál fyrir alla að vera þú sjálfur með nafn sem tilheyrir þér sjálfum.
Getum við ekki treyst foreldrum?
Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikkona
Mér þykir mjög vænt um nafnið mitt. Mér finnst mannanafnanefnd eiginlega alveg óþörf. Getum við ekki treyst foreldrum fyrir því að geta tekið ábyrgð á að skíra sín eigin börn, eins og í öllu öðru sem viðkemur börnunum þeirra?
