Félagarnir Haraldur Egilsson og Ásmundur Páll Hjaltason lögðu af stað í heldur óvenjulega hringferð kringum landið í vikunni. Þeir eru á litlum 50 cc kínverskum vespum sem ná ekki meiri hraða en 45-50 kílómetrum á klukkustund. Með í för er steinn frá Suður-Afríku handmálaður af systur manns sem lést úr krabbameini langt fyrir aldur fram. Hans helsti draumur var að ferðast um heiminn.

„Við ákváðum að fara þessa hringferð til að sýna fólk að það væri alveg hægt að hafa gaman af lífinu og leika sér og fíflast aðeins. Þrátt fyrir að eiga að heita fullorðnir menn þá er allt í lagi að vera smá vitleysingur annað slagið. Nokkrum dögum áður en við leggjum af stað þá fæ ég þennan stein í hendurnar,“ segir Haraldur.

Steinninn gengur undir nafninu Robrocks. Saga hans er sú að ungur maður í Suður-Afríku sem hét Robert McEwan lést úr hvítblæði aðeins 26 ára gamall eftir nokkurra ára baráttu. „Hann var mikill húmoristi og góður strákur,“ segir Haraldur. „Til að heiðra minningu hans og leyfa honum að flakka um heiminn, sem hann fékk aldrei tækifæri til, þá ákvað systir hans að mála nokkra steina. Ég held að það séu svona 15-20 steinar í umferð en hún gerði 10 steina til að byrja með.“

Robrocks í Reynisfjöru.

Steinninn er alltaf á ferðalagi

Steinarnir eru lakkaðir og aftan á þeim eru skilaboð sem eru eitthvað á þá leið að ef steinninn finnst skal finnandi taka mynd af sér með honum og setja á Instagram með myllumerkinu #robrocks. „Þú getur svo ferðast með steininn og tekið nokkrar myndir og skilið hann eftir og sá næsti sem finnur hann gerir það sama. Þannig er steinninn alltaf á ferðalagi,“ útskýrir Haraldur.

Haraldur fékk steininn sendan til sín frá Suður-Afríku. Konan hans er þaðan og frænka hennar fann steininn og vildi senda hann til Íslands. „Þannig endaði hann hjá mér. Ég póstaði mynd af mér með steininum og fjölskylda Roberts var mjög ánægð með það. Þetta er fyrsti steinninn sem ratar til Íslands.“

Haraldur og Ásmundur ákváðu að nýta hringferðina og vekja athygli á krabbameini. „Við komum þess vegna við á öllum helstu ferðamannastöðum landsins og tökum mynd af Robrocks,“ segir Haraldur.

Haraldur segir það alls ekki auðvelt að keyra hringinn á vespunum. Hugmyndin kom fyrst upp í gríni og fólki fannst hún algjör vitleysa. „En svo fórum við að hugsa hvort við gætum gert þetta í alvöru. Við erum sem betur fer með dygga stuðningsmenn heima sem hvöttu okkur áfram. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sagði að ef einhver gæti farið hringinn á 50 cc vespum þá værum það við. Þannig að við bara létum vaða og lögðum af stað,“ segir Haraldur hlæjandi og bætir við að þeir félagar séu Jóni Birni mjög þakklátir fyrir stuðninginn.

Robrocks við fossinn Gljúfrabúa.

Fara upp brekkur á 30 kílómetra hraða

Haraldur og Ásmundur reikna með að klára hringinn á einni viku. „Við reynum að keyra ekki nema svona 4-5 tíma á sólarhring. Þá helst á nóttunni þegar umferð er lítil. Vespurnar fara hægt áfram. Í sumum brekkum ná þær varla upp í 30 kílómetra hraða. Ef það er mótvindur þá liggur við að við þurfum að labba,“ segir Haraldur. Þeir útbjuggu vespurnar með hliðartöskum og verkfærakistum með ýmsum varahlutum. Þeir ferðast bara með það allra nauðsynlegasta. Lítið tjald. Litla svefnpoka og lítinn prímus. Planið er að vera komin aftur til Neskaupstaðar fyrir rokkhátíðina Eistnaflug.

„Við erum með Eistnaflugsfánana á hjólunum. Við erum svona að minna fólk á eina stærstu og bestu rokkhátíð á Íslandi. Þeir létu okkur hafa gul vesti svo við myndum sjást almennilega og það er alveg að skila sér. Þannig að við erum að þykjast vera rokkarar líka, ekki bara vitleysingar,“ segir Haraldur hlæjandi.

Þegar heim er komið mun leiðir þeirra Haraldar, Ásmundar og Robrocks skilja. „Hann fær að vera með okkur á Eistnaflugi en þar ætla ég að finna einhvern sem vill taka við honum og halda ferðalaginu áfram. En hver veit, kannski hittir maður hann seinna á flakki og tekur hann með sér. Mér finnst þetta alveg æðisleg hugmynd. Við þekkjum öll einhvern sem hefur glímt við krabbamein. Það er mjög mikilvægt að vekja athygli á þessum sjúkdómi,“ segir Haraldur að lokum.

Hægt er að fylgjast með ferð þeirra félaga í Facebook-hópnum Hringurinn.