Elísa­bet Brynjars­dóttir, hjúkrunarfræðingur, lenti í á­huga­verðri upp­á­komu í gær þegar vin­kona hennar sá mynda­albúm til sölu í Góða hirðinum sem reyndist inni­halda myndir frá æsku Elísa­betar. Vin­konan keypti albúmið á 400 krónur og kom því til skila til Elísa­betar.

Elísa­bet var í vinnunni þegar hún opnaði Snapchat mynd­band frá æsku­vin­konu sinni. Vin­konan var stödd í Góða hirðinum og í mynd­bandinu mátti sjá hana fletta í gegnum mynda­albúm þar til sölu. „Svo fer hún að mynda­albúminu og flettir í því og flettir bara handa­hófs­kennt á myndir af barni sem hún kannaðist eitt­hvað við,“ segir Elísa­bet í sam­tali við Frétta­blaðið.

Grunar að albúminu hafi ó­vart verið hent úr dánar­búi afa síns

Fyrir ofan myndirnar stóð texti og ekki leið á löngu þar til aug­ljóst var að myndirnar væru frá æsku Elísa­betar. „Ég opna þetta með kaffi­bollann minn og ég náttúru­lega bara tapa mér því þetta eru myndir sem ég hef bara aldrei séð áður,“ segir Elísa­bet hlæjandi.

Eftir að hafa skoðað myndirnar og textann nánar tók hún eftir því að skriftin var alveg eins og skrift afa hennar sem dó fyrir nokkrum árum síðan. Í kjöl­farið hringdi hún í pabba sinn sem vissi ekkert um málið. „Við vitum bara í rauninni ekkert hvað gerðist en ég vona bara að þetta hafi verið ó­vart,“ segir Elísa­bet sem grunar að mynda­albúminu hafi ó­vart verið hent þegar gengið var frá dánar­búi afa síns.

„Það sem er sturlaðast í þessu er í fyrsta lagi að þessu hafi verið hent, í öðru lagi að Góði hirðirinn hafi bara á­kveðið að taka þetta og setja þetta í sölu og í þriðja lagi að æsku­vin­kona mín hafi keypt þetta,“ segir Elísa­bet sem finnst þetta allt vera mjög fyndið.