Eftir að hafa lent í kulnun þóttist Brynja Dögg Heiðudóttir hafa himin höndum tekið þegar hún kynntist skipulagsvörunum frá iDesign þegar hún endurskipulagði allt heimilislífið.

Hún opnaði síðan í kjölfarið vefverslunina pompogprakt.is ásamt móður sinni, Heiðu B. Heiðars, eftir að þær mæðgur tryggðu sér umboðið fyrir iDesign á Íslandi af nokkru harðfylgi.

„Sko, dóttir mín er skipulagsfrík og þegar hún var að vinna sig út úr kulnuninni þá reif hún allt út úr öllum skápum og herbergjum og fór að skipuleggja allt upp á nýtt,“ segir Heiða.

„Hún óð svo af stað að kaupa vörur til þess að geta gert þetta vel,“ heldur Heiða áfram og lætur fljóta með að Brynja Dögg hafi þá rekið sig á að úrvalið væri takmarkað og dreift á margar búðir.

600 kílóa byrjun

„Þannig að við ákváðum bara að gera þetta sjálfar en vildum ekki flytja bara eitthvað inn af AliBaba eða einhverju þannig. Við vildum fá einhver gæði og byrjuðum að vinna í þeim hjá iDesign sem hanna allt fyrir skvísurnar þarna í Netflix-þáttunum Get Organized with The Home Edit.“

Heiða segir hafa verið á brattann að sækja þar sem smæð íslenska markaðarins heilli ekki slíkt risafyrirtæki. „Og við hömuðumst í þeim þangað til þau urðu svo þreytt á okkur að þau létu okkur bara fá umboðið. Við erum bara svona mæðgnateymi og það þótti svolítið krúttlegt. Þannig að þau bara gáfu sig og sögðu: Já, ókei, takið þetta þá.“

Sem þær og gerðu, Brynja Dögg dreif í að hanna vefsíðuna og pantanir byrjuðu að berast um leið og verslunin fór í loftið síðasta föstudag. „Við erum rosa ánægðar með móttökurnar. Fyrsta pöntunin okkar var sko tæp 600 kíló af vörum. Næsta pöntun er væntanleg núna á mánudaginn og við erum byrjaðar að leggja drög að þriðju pöntun, enda eru ýmsar vörur þarna hjá okkur sem eru algjörlega uppseldar.“

Týndi pabbinn fundinn

Heiða og Brynja höfðu ætlað sér að opna Pomp og prakt hálfum mánuði fyrr, en þá gripu örlögin óvænt í taumana. „Í sömu viku og við ætluðum að opna fyrirtækið fann ég pabba minn eftir 37 ára leit og ég var svo geðveik þegar það var allt að gerast að ég gat ekki hugsað um Pomp og prakt og hann á sama tíma. Það er búið að vera svolítið um að vera í hausnum á mér.“

Heiða segist, aðspurð, að sjálfsögðu ekki vera söm eftir föðurfundinn. „Ég geng bara um bæinn brosandi út að eyrum. Ég veit hver ég er. Ég veit hvaðan ég kem og ég veit hver ég er.“

Heiða hlær þegar hún bendir á að hún hafi allt sitt líf búið við það að fólk gangi að því sem gefnu, jafnvel áður en hún er spurð til nafns, að hún sé ekki íslensk.

„Og ég hef aldrei getað svarað þessu. En núna veit ég að ég er ítölsk. Þetta er geggjað. Við erum í sambandi á hverjum degi. Þetta er bara búið að vera algjörlega magnað ævintýri.“

Allt í drasli

Ítalskættaða vefverslunarkonan snýr sér síðan aftur að vöruúrvalinu hjá þeim mæðgum sem hún treystir sér til að mæla eindregið með, þótt hún hafi litla þörf fyrir að hólfa heimili sitt niður.

„Nei, hjá mér er allt í drasli. Nei, nei,“ segir hún og hlær. Ég hef verið svona frekar mínímalísk í mörg ár. Ég hef ekki svona gríðarlegan áhuga á þessari hlið heimilisins því ég er ekki með stóra fjölskyldu. Ég er bara ein. Þannig að ég er með allt þar sem ég vil hafa það.

Þetta er fyrir þá sem ekki vilja eyða miklum tíma í að leita að dóti og taka til og raða upp. Þá er þetta bara snilld. Eins og fyrir Brynju Dögg sem er að reka heimili, vinna fulla vinnu og skutla börnum á æfingar og Guð má vita hvað. Þá skiptir máli að hafa hlutina svolítið aðgengilega. Gamla góða ruslskúffan í eldhúsinu er ekkert endilega málið lengur.“