Gabriela Fuente er búsett hér á landi og með vinnustofu í Kópavoginum. Ferillinn hófst í fatahönnunarbransanum þar sem hún vann við vöruþróun hjá skrifstofum Adidas sem sáu um framleiðslu í Mið- og Suður-Ameríku og Mexíkó. „Ég fann að ég naut þessa kima tískunnar ekki jafnmikið og ég hélt að ég myndi gera. Og eftir tvær annir af sömu hönnunarflokkunum: líkamsrækt, körfubolta, rúgbý og fótbolta, sá ég að starfið var ekki jafnskapandi og ég hefði viljað. Þegar ég horfði á mynstrin í flíkunum ímyndaði ég mér að það gæti verið spennandi að vera manneskjan á bak við mynstrin,“ segir Gabriela.

„Ég flutti því til London, tók nokkra kúrsa í Central Saint Martins og uppgötvaði ástríðu mína fyrir mynsturgerð,“ segir hún. Eftir það tók hún að sér starfsnemastöður hjá mynsturhönnunarhúsum í London, Frakklandi og Danmörku. „Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því að þetta yrði minn starfsferill þegar ég var í BA í fatahönnun,“ segir hún. „Mér fannst alltaf gaman að mála þegar ég var krakki en sá aldrei fyrir mér að ég gæti starfað við að mála og teikna.“

Þetta flotta mynstur hannaði Gabriela fyrir ástralska tískufatamerkið Husk.
Fréttablaðið/Aðsend

Flutti til Íslands fyrir ástina

Gabriela kemur frá São Pau­lo í Brasilíu og hefur búið í Fukui í Japan, London, Belgíu, Kaup­manna­höfn, San Francisco og Barcelona. Nú hefur hún búið á Ís­landi í átta ár og segist hafa flutt hingað fyrir ástina. „Ég kynntist þessum náunga, Finni, á netinu og okkur kom svona líka vel saman. Satt að segja bjóst ég aldrei við að finna ástina á þennan hátt en viti menn. Hér er ég og gæti ekki verið hamingju­samari. Við Finnur höfum verið saman í tíu ár og ég er þakk­lát fyrir hvern dag sem ég fæ að búa í þessu fal­lega landi með ástina mér við hlið.“ Hún segir veruna hér á landi hafa haft mikil á­hrif á sig. „Ein­stakt lands­lagið, birtan og veðrið hefur haft ó­út­reiknan­leg á­hrif á sköpun mína.“

Gabriela hefur alltaf málað og teiknað og getur svalað þeim þorsta í mynstursköpuninni.
Fréttablaðið/Aðsend

Stærðin skiptir máli

„Ég fæ inn­blástur úr ýmsum áttum, náttúrunni, mynd­list og menningunni. Ég hef unun af því að ferðast og fá hug­myndir frá ó­líkum stöðum sem ég heim­sæki. Ég skoða líka hvað er vin­sælt og vil hafa puttann á púlsinum á því sem er að gerast í bransanum. Ég nýt þess að vinna með ólík mótíf og sér­stak­lega blóm og af­strakt form. Þessi mótíf eru gefa mikið svig­rúm og má nota í alls konar vörur, allt frá flíkum til hús­gagna, vegg­fóðurs, inn­pökkunar­pappírs og fleira.

Þegar ég hanna mynstur byrja ég á því að skoða við­miðunar­efni og hvað er vin­sælt. Þannig fæ ég lita­pallettuna og formin fyrir hönnunina. Næst fer ég að mála og teikna. Svo skanna ég myndirnar og bý til endur­tekið mynstur úr þeim í mynstur­hönnunar­for­riti.

Þegar kemur að því að hanna fyrir líkama þarf mynstrið að gera hönnunina á­hrifa­ríkari og fara líkamanum vel. Skali og form skipta lykil­máli svo að þú endir ekki með ó­lesan­lega mynd á á­kveðnum hlutum líkamans. Það er sér­lega vanda­samt á klof­svæðinu. Sund­fötin eru sér­stak­lega var­huga­verð og maður þarf að vita að það er enginn annar en þú að hugsa út í þetta á fram­leiðslu­ferlinu. Oftast er þá öruggast að hafa mynstrið í mjög stórum skala eða mjög litlum,“ segir hún.

Hannar fyrir stór tísku­hús

„Ég á stórt safn af ó­líkum mynstrum sem mínir kúnnar geta mátað við sína hönnun en ég vinn líka með við­skipta­vinum við að hanna mynstur sem henta þeirra hönnun full­kom­lega. Ef ég er að hanna mynstur sér­stak­lega fyrir kúnna þá gerum við það í sam­starfi því ég vil skilja þeirra sýn og mark­mið svo ég geti skapað við­eig­andi mynstur. Góð sam­skipti og sam­vinna eru lykillinn að vel heppnaðri hönnun.“

Gabriela hefur hannað fyrir nokkra af stærstu hönnuðum heims. „Ég var verk­taki hjá FUSIONCPH í Dan­mörku í níu ár og þegar ég byrjaði ferilinn tók ég að mér reynslu­störf fyrir Amanda Kel­ly, Patt­erns og önnur mynstur­stúdíó. Enn hef ég ekki unnið fyrir nein ís­lensk merki,“ segir hún.

Gabriela er hrifin af afstrakt mynstri í íþróttafatnaði. Hér er mynstrið hennar notað á topp frá Panache.
Fréttablaðið/Aðsend

Hvernig mynstur eru í tísku?

„Tísku­mynstrin sem ég hanna ráðast út frá því fyrir hvaða markað þau eru en ég vinn ýmist með lúxus-, í­þrótta- og hrað­tísku­merkjum í Bret­landi, Ástralíu, Banda­ríkjunum, Þýska­landi, Sví­þjóð, Hollandi og víðar. Hjá skandinavíska markaðnum í hrað­tískunni verða blóma­mynstur, af­strakt og dýra­mynstur með vatns­lita- og tie-dye út­liti mjög vin­sæl sem og klassísk blóma­mynstur. Sjálf elska ég sumar­kjóla með blóma­mynstri og af­strakt mynstur fyrir ræktina.“

Eitt fyrsta skrefið í mynsturhönnun Gabrielu er að gera rannsóknir á mótífinu.
Fréttablaðið/Aðsend

Mögu­leikar staf­ræns veru­leika

Upp á síð­kastið hefur Gabriela verið að kanna mögu­leika sýndar­veru­leika í mynstur­hönnun. „Ég hef leitað leiða til að leyfa við­skipta­vinum mínum að upp­lifa mynstrin mín á sinni eigin hönnun á netinu. Tækni­legi parturinn er enn í vinnslu en hug­myndin er að bjóða upp á leið fyrir neyt­endur til að hanna staf­rænar flíkur með notkun filtera. Núna er þetta bara í boði fyrir mína við­skipta­vini.“

Meta­ver­se er staf­rænn veru­leiki þar sem fólk getur átt sam­skipti hvert við annað í raun­tíma. „Þetta svæði býður upp á ein­stakt tæki­færi til að sýna og upp­lifa tísku á alveg nýjan hátt. Með því að hanna fyrir staf­rænar flíkur get ég boðið upp á nýja leið fyrir við­skipta­vini til að upp­lifa sköpun mína. Það er hægt að klæðast hönnuninni, sýna hana og eiga við hana í sýndar­veru­leikanum á allt annan hátt en er mögu­legt í raun­veru­leikanum.

Meta­ver­se býður líka upp á mun sjálf­bærari mögu­leika en tísku­iðnaðurinn. Í stað þess að búa til flíkur úr hrá­efnum sem hafa tölu­verð um­hverfis­á­hrif í för með sér, get ég skapað staf­ræna hönnun sem hver sem er getur nálgast, hvaðan sem er í heiminum. Ég er mjög spennt fyrir þeim mögu­leikum sem sýndar­veru­leikinn býður upp á fyrir fram­tíð tísku­iðnaðarins og er spennt að sjá hvert þessar til­raunir leiða mig,“ segir Gabriela að lokum.

Fyrir þau sem vilja fylgjast með verkum Gabrielu þá heldur hún úti Instagramsíðu: @gabrielafuentestudio og vefsíðu: exclusivedesignstudio.com.