Therese er vön því að taka heimildarljósmyndir af fólki. Á meðan hún var í námi í Reykjavík tók hún myndir af fjölskyldum og vinum í Danmörku í hvert sinn sem hún fór heim í frí, oftast úr fjarlægð bak við gler, silki eða annað efni. Hugmyndin af því að taka myndir af fólki í sóttkví lá því frekar beint við.

„Ég á ítalska vinkonu sem er í sóttkví, en fyrir nokkrum árum tók ég mynd af henni bak við gler. Þessi mynd rifjaðist upp fyrir mér þegar ég talaði við hana um daginn. Mér fannst myndin hafa svo sterka tenginu við kórónavírusinn sem við erum að berjast við í dag. Mér fannst þetta áhugaverð tenging svo ég byrjaði því á að hafa samband við fólk sem ég þekki sem er í sóttkví og tók myndir af því,“ segir Therese um það hvernig hugmyndin fæddist.

Therese sagði svo frá því á Facebook að hún væri að taka ljósmyndir af fólki í sóttkví og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Hún fékk fljótt yfir 300 skilaboð frá fólki hér og þar í Danmörku sem vildi taka þátt í verkefninu.

„Ég held ég hafi tekið um 70 myndir á tveimur til þremur dögum. Mest í Árósum en líka á svæðinu í kring. Ef það verður ekki algjört útgöngubann sett á í Danmörku langar mig að fara á fleiri staði og taka myndir,“ segir hún.

Horfa á hvort annað í smástund gegnum gluggann

Therese kemur aldrei nálægt viðfangsefni myndanna. Hún sér þau bara í gegnum gluggann. „Það er engin líkamleg nánd og við deilum ekki sama andrúmsloftinu. Þetta augnablik sem ég fanga er mjög dramatískt og tilfinningaþrungið. Sumir hafa ekki hitt aðra manneskju augliti til auglitis í meira en viku þegar ég kem að glugganum þeirra. Ég stend þar bara í smástund og við horfum aðeins á hvort annað og svo fer ég í burtu, mína leið,“ útskýrir Therese.

„Þegar ég tek myndirnar reyni ég að hafa það í huga að við séum saman í þessu. Þó við getum ekki verið á sama stað þá getum við séð hvort annað og við getum haft samskipti. Við getum komist í gegnum þetta tímabil. Þó við komust ekki út úr aðstæðunum þá getum við gert þær betri saman.“

Þegar þessum óvenjulegu tímum lýkur segir Therese að myndirnar geti vonandi nýst sem góð heimild um sögulegt tímabil.

Therese fangar einstakt augnablik sem er oft tilfinningaþrungið enda fólkið oft mjög eingangrað.
Therese og viðfangsefnið horfa á hvort annað í smástund og svo er hún farin en augnablikið er geymt.
Therese deilir augnabliki með fólkinu en ekki andrúmslofti.
Myndirnar geta seinna meir orðið söguleg heimild.
Þegar Therese tekur myndirnar hefur hún í huga að þó við ráðum ekki við þessar sérstöku aðstæður þá er hægt að gera þær betri saman.