Minjar um valdabaráttuna sem aldrei varð verða afhjúpaðar á sýningu Hrefnu Harnar Leifsdóttur í galleríinu OPEN á Grandagarði 27 á Menningarnótt. „Saga íslenskra kvenna verður endurskoðuð og áður duldum möguleikum velt upp,“ segir Hrefna í samtali við Fréttablaðið. Hrefna hefur haldið sýningar um allann heim nú síðast í Buenos Aires í Argentínu og því kjörið að nýta tækifærið og sjá sýninguna áður en hún heldur til Shanghai.

„Ég vil ekki gefa upp of mikið um sýninguna en ég efast um að gestir muni sjá það sem þau bjuggust við.“ Hrefna leggur áherslu á mikilvægi minja við sögulegar staðreyndir og bendir á að munnlegar minjar erfist ekki nema hjá þeim sem eru við stjórnvölinn.

Endurskrifar dulda sögu kvenna

„Sagan er í raun einhliða upplifun þeirra sem fara með valdið.“ Íslenskar konur hafi í því samhengi misst mikið af sínum áhrifum við kristnitöku á Íslandi. „Það hafa ekki varðveist mikið af minjum um það hvernig konur brugðust við þessu valdatapi.“ Líklegt sé að konur hafi reynt að afla sér valda eða viðhalda þeim að sögn Hrefnu. Þá munu þær hafa nýtt sér leiðir sem ekki hefur verið hægt að skrá í sögubækur fyrr en nú.

Hrefna býst við að sýningin muni koma áhorfendum á óvart.
Mynd/Barbara Wire

Bölvanir heimsóttar

Dúóið Barbara Wire mun síðan glæða sýningunni ákveðin sannfæringartón og halda uppi hátíðlegri stemmning. Barbara Wire samanstendur af myndlistarmönnunum Höllu Einarsdóttur og Smára Rúnar Róbertssonar en þau stíga á stokk í fyrsta sinn á Íslandi á laugardaginn.

Hrefna hvetur alla til að leggja leið sína niður á Granda og upplifa söguna á eigin skinni. „Uppgreftrun bölvana og sannfæringar þarfnast vitna.“