Alla fimmtudaga á aðventunni mun Þjóðleikhúsið vera með beinar útsendingar í nýstofnuðu Hljóðleikhúsi og flytja landsmönnum þekktar perlur leiklistarsögunnar í bland við verk sem lítið hafa verið leikin. Útsendingarnar verða í anda hins klassíska útvarpsleikhúss. Alls verða fimm verk leikin.

Fyrsta útsendingin verður næstkomandi fimmtudag, 19. nóvember, þegar flutt verða valin brot úr Skugga-Sveini í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Viku seinna 26. nóvember verður flutningur á Rung lækni eftir Jóhann Sigurjónsson. Fimmtudaginn 3. desember er komið að Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson sem verður flutt í leikstjórn Hörpu Arnardóttur. Nýársnóttin var fyrst frumsýnd á annan í jólum árið 1907 hjá Leikfélagi Reykjavíkur og var síðar opnunarsýning Þjóðleikhússins árið 1950. Þar segir frá baráttu manna og álfa.

Ástar- og þroskasaga

„Indriði Einarsson skrifaði Nýársnóttina 18 ára gamall þegar hann var nemandi í Latínuskólanum en endurskrifaði verkið síðar á ævinni. Það var síðan opnunarverk Þjóðleikhússins 1950 sem var alveg frábært, því Indriði átti sér þann draum heitastan að Íslendingar eignuðust þjóðleikhús,” segir Harpa. „Það er margt fallegt við verkið sem er tímamótaverk í orðsins fyllstu merkingu, sem sagt gerist á Nýársnótt þegar álfar flytja búferlum og verða sýnilegir mönnum, draumur og veruleiki mætast, álfarnir tala í bundnu máli en í mannheimum er hversdagslegra hjal. Það eru greinileg áhrif frá Shakespeare bæði varðandi innihald og formgerð, Draumur á Jónsmessunótt og Macbeth koma upp í hugann” segir Harpa. “ Þetta er ástarsaga og þar með þroskasaga í fimm þáttum með þekktum áramótasöngvum.”

Um söguþráðinn segir Harpa: „Jón og Gunna eru ung og elskast en þurfa að ganga í gegnum manndómsvígslu áður en þau geta gefist hvort öðru. Guðrún stendur á tvítugu og vakir yfir fóstru sinni látinni á nýársnótt til að mæta örlögum sínum. Móðir hennar missti vitið tvítug og amma hennar sömuleiðis á sama aldri, en hún hafði neitað álfakonungi um að hjálpa konunni hans í barnsnauð. Álfakóngurinn fylltist hefndarhug og lét þá bölvun ganga yfir kvenlegginn að missa vitið á nýársnótt sama árið og þær verða tvítugar. Álfadrottningin Áslaug kemur til bjargar og átök verða milli þeirra. Það kemur í ljós að Jón er af álfakyni og hann kemur einnig til hjálpar og reynist nú betri en enginn. Í stuttu máli vinnur Áslaug og þar má merkja kvenréttindatón. Í lokin flytur Áslaug fallegan bálk til áhorfenda þar sem hún hvetur til hugrekkis og þess að virkja ímyndunaraflið. Þarna er Indriði að kjarna inntak verksins. Þótt þjóðernisandi og frelsisandi sjálfstæðisbaráttunnar svífi yfir vötnum, þá er óðurinn til frelsis ímyndunaraflsins kannski sterkastur. Þar er hver og einn konungur og drottning í ríki sínu og skáldið áréttar mikilvægi þess að vera ferðafær á innri sviðum, og kanna af hugrekki og ástríðu ókunnar slóðir.“

Töfrandi blámi

Harpa segist hafa sterkar taugar til verksins enda á hún bernskuminningar um það. „Amma og afi voru miklir leikhúsunnendur og ég fékk oft að fara með þeim í Þjóðleikhúsið. „Ein af mínum fyrstu leikhúsminningum er frá árinu 1971, þá var ég sjö ára. Ég man eftir töfrandi bláma vinstra megin á sviðinu og rámar í bláklædda konu. Ég varð svo tendruð við þessa sjón, gjörsamlega bergnumin. Þetta snerti mig mjög djúpt.

Töfrasprotinn hennar Áslaugar hefur sannarlega virkað og hver veit nema þarna hafi örlög mín verið ráðin og ég ákveðið að gera leiklistina að mínu ævistarfi. Þetta var sem sagt Nýársnóttin, sem hefur átt sess í hjarta mínu alla tíð síðan. Það er gaman að taka þátt í að færa hlustendum leikritið heim í stofu. Verkið verður lesið frá upphafi til enda, engu verður sleppt. Það er mjög ánægjulegt að vinna við þetta verkefni og við verðum í hátíðarskapi fyrir framan hljóðnemann.“