Steinunn Ósk Valsdóttir og kærasti hennar keyptu sér íbúð þegar þau áttu von á Jónínu, litlu stelpunni sinni, fyrir ári. Fyrir eiga þau tvo níu ára stráka svo það hefur verið mikil strákastemming á heimilinu, en loksins er von á stelpu, öllum til mikillar ánægju.

„Ég var svo spennt þegar ég vissi að ég ætti von á stelpu og vissi strax að mig langaði að gera herbergið hennar fallegt. Við tókum alla íbúðina í gegn þegar við keyptum hana en við vorum að gera slíkt í fyrsta skiptið svo við höfðum í raun mjög litla reynslu af öllu svona innanhússstússi. Einnig erum við foreldrarnir í námi og því reyndum við að finna ódýrar lausnir fyrir allt heimilið, það sama á við um herbergið hennar Jónínu okkar,“ segir Steinunn Ósk sem naut þessa tíma í undirbúningnum.

Steinunn er ánægð með blandaða litasamsetningu í herberginu.

Öðruvísi litir, svört vagga

Steinunn Ósk valdi aðeins öðruvísi liti heldur en hefð er fyrir og fékk innblásturinn að utan. „Mig langaði til þess að búa til ungbarnaherbergi sem væri skemmtilegt, ódýrt og stílhreint. Það sem ég hafði einnig hugfast var að útbúa herbergi sem gæti vaxið með henni, ekki bara fyrir ungbarn. Mér finnst það hafa tekist mjög vel. Ég vildi hafa herbergið í neutral/náttúrulegum lit en ég valdi Sand Shade 3 frá Flugger í Dekso 1 málningunni sem höndlar allt sem fylgir börnum. Ég hef séð erlendis að fólk er með svört barnarúm, það heillaði mig mikið og mér finnst það einstaklega fallegt þó allir í fjölskyldunni hafi haldið að ég væri djöfladýrkandi að setja barnið í svart rúm og vöggu,“ segir Steinunn Ósk og hlær.

Allt í röð og reglu. Í efstu hillunni er skemmtileg minningabók.

Gömlum hlutum gefið nýtt líf

Parið þurfti ekki að kaupa allt nýtt í herbergið fyrir fæðingu Jónínu litlu. „Í raun var ekki mikið í herberginu sem var keypt nýtt, heldur var gömlum hlutum gefið nýtt líf. Ég er mjög hrifin af því að nota það sem maður hefur og bæta hluti sem voru þegar til. Það var allt tilbúið í herberginu þegar Jónína kom í heiminn. Við höfum þó skipt út skiptiborðinu fyrir kommóðu síðan hún fæddist.“

Húsgögn í anda eldri tíma

Hvað hafðir þú í huga þegar þú varst að velja liti, hirslur og hluti inn í herbergið?

„Ég vildi passa að velja stærri einingar í annað hvort svörtu eða hvítu og svo minni hluti sem auðveldara er að skipta út í litum og þemum. Við ákváðum svo eftir að Jónína fæddist að bæta inn bleikum húsgögnum því mér fannst vanta eitthvert skemmtilegt popp inn í herbergið. Mér finnst þau húsgögn gefa ótrúlega skemmtilegt 60’s vibe inn í herbergið. Mér finnst oft barnaherbergi á Íslandi líta eins út, ég vildi velja hluti inn í herbergið sem ekki allir voru með og einnig sýna fram á að það sé hægt að finna ódýrar lausnir þar sem startpakki fyrir eitt barn getur verið rosalega dýr.“

Steinunn hefur yndi af því að gefa gömlum hlutum nýtt líf.

Eru einhverjir hlutir mikilvægari en aðrir í herberginu?

„Í rauninni ekki, það eru þessir litlu hlutir eins og skartið sem hún á sem manni þykir rosalega vænt um og svo er nafnskýringin hennar frá Lind hönnun fallegur og persónulegur hlutur. Annars finnst mér allir hlutirnir smella saman og mynda fallega heild.“

Hlutir með notagildi

Steinunn Ósk er á því að besta ráðið sem hægt er að gefa verðandi foreldrum þegar kemur að því að útbúa herbergi fyrir nýja barnið sé að nýta eldri húsgögn og eltast ekki við tískubylgjur.

„Það þarf ekki alltaf að velja það sem er í tísku, það er hægt að fá mikið af ódýrum eða gefins húsgögnum sem hægt er að mála og gera upp. Það gerir herbergið oft persónulegra og fallegra. Passa að velja hluti sem hafa gott notagildi því mikið af hlutum sem maður kaupir fyrir börnin nýtist stutt og illa. Mér finnst gott að hafa í huga að taka ákvarðanir út frá því sem eldist vel með barninu svo maður þurfi ekki sífellt að vera að breyta og mála. Einnig að hafa það í huga að maður á enn eftir að kynnast barninu sínu og það mun mynda sér skoðanir fljótlega á hlutunum og því er gott að búa til rými sem býður upp á að barnið geti fengið inn hluti sem því þykir vænt um og hefur áhuga á.“ ■

Nafnskýringin frá Lind hönnun er fallegur og persónulegur hlutur.
Ballerínukjóll setur svip á herbergið og auðvitað kórónan líka.
Það þarf ekki að vera flókið að koma fötunum snyrtilega fyrir.
Bangsar og tuskudúkkur eru nauðsynlegur hlutur í barnaherbergi.