Heiðrún er eigandi Grænu stofunnar sem er fyrsta umhverfisvottaða hársnyrtistofa landsins sem var opnuð nýverið í stærra húsnæði í Austurveri. „Það að vera umhverfisvottuð hárstofa þýðir einfaldlega að við notum eins skaðlaus efni fyrir okkur og umhverfið og kostur er á. Umhverfisvottunin hamlar okkur ekki á nokkurn hátt heldur gefur hún okkur meira frelsi fyrir sköpun í öruggu og skaðlausu umhverfi.“

Tilvalið að dekra og snyrta

Á þessum tíma árs fara fermingarbörnin að tínast inn á hárgreiðslustofurnar. „Þegar líða fer að fermingum koma börnin gjarnan í klippingu og fríska jafnvel upp á hárið með djúpnæringu eða glansskoli. Að lita hárið fyrir fermingu er ekkert sérlega algengt en hefur þó aukist aðeins undanfarin ár, þá eru það helst fínlegar strípur eða eitthvað slíkt.“

Heiðrún Birna Rúnarsdóttir, eigandi Grænu stofunnar segir liðina alltaf vinsæla. SIGTRYGGUR/ARI

Enn er nokkuð um að börn safni hári fyrir stóra daginn. Heiðrún segir að það sé alltaf skynsamlegt að snyrta hárið. „Sum börnin hafa jafnvel safnað hári í talsverðan tíma fyrir ferminguna, þá er sniðugt að koma og láta klippa aðeins af því rétt fyrir fermingu svo endarnir séu heilbrigðir, greiðslur verða til dæmis alltaf fallegri ef búið er að klippa slitið í burtu.“

Heiðrún segist verða vör við einfaldari greiðslur. „Það hefur færst talsvert í aukana að stelpur greiði sér sjálfar heima á fermingardaginn þar sem greiðslurnar hafa orðið einfaldari með tímanum, sumar vilja jafnvel bara hafa hárið slegið og slétta það þá kannski með sléttujárni. Það er um að gera að leyfa náttúrulegum krullum að njóta sín, enda er náttúrulegt alltaf fallegt.“

Stór dagur í lífi barnanna

Það sé heilmikil stemning og tilvalið að láta nostra við sig í tilefni tímamótanna. „Það er alltaf skemmtilegt að byrja fermingardaginn á að koma á hársnyrtistofu og fá smá dekur og greiðslu, hvort sem það eru einfaldir liðir eða flóknari greiðsla, enda er þetta oft stór dagur í lífi barnanna.“

Vissar áherslur njóta alltaf vinsælda. „Fléttur og snúningar hafa verið áberandi í fermingargreiðslum undanfarin ár og nú er engin undantekning þar á. Fallegir liðir eru alltaf klassískir og gera greiðslurnar sérlega hátíðlegar,“ segir Heiðrún.

Falleg greiðsla þar sem liðir og einfalt hárskraut fá að njóta sín í botn.

„Nú eru snyrtilegar línur vinsælar í styttra hárinu. Stuttar hliðar, „fade“ og meiri lengd að ofan hefur verið mjög vinsælt og áberandi síðustu mánuði en örlítið meiri lengd í hliðum og vel snyrtar útlínur er líka alltaf klassískt. Liðaða hárið fær líka að njóta sín í stuttu klippingunum þegar meiri lengd er að ofan, það kemur alltaf ótrúlega vel út.“

Áður fyrr var mikið um hárskaut og segir Heiðrún nú allan gang á því hvort og þá hvernig skraut verður fyrir valinu. „Hér áður fannst flestum stelpum hárskraut vera algjör nauðsyn á fermingardaginn en með tímanum hefur það farið aðeins minnkandi. Það er þó allt í gangi núna, steinar, lifandi blóm eða jafnvel ekkert hárskraut, það gengur allt og er allt fallegt, það fer bara eftir smekk.“

Þá sé meira um að krakkar fylgi einfaldlega eigin hjarta, sem sé mikið ánægjuefni. „Síðustu ár hefur tískan og tíðarandinn þróast í þá áttina að við veljum bara að vera eins og okkur líður best, hvort sem það er með sítt hár, stutt, slétt eða liðað. Við erum alls konar og loksins er það viðurkenndara að stelpur klippi hárið stutt fyrir fermingu, að strákar safni hári og láti flétta sig eða eitthvað slíkt á fermingardaginn og allt þar á milli, enda erum við alls konar og eigum öll að fá að vera eins og okkur líður best óháð kyni og tískustraumum.“

Hátíð- og einfaldleikinn mætast hér í fallegri en afslappaðri greiðslu.
Liðir eru einstaklega fallegir og alltaf vinsælir á fermingardaginn.