Ég er með áráttu, ef ég sé flottan kjól verð ég að kaupa hann,“ segir Edda. „Þessir kjólar hafa verið í geymslu hér á landi en nú er kominn tími til að losa sig við þá. Þetta eru ofsalega flottir kjólar og þeir mega ekki fara í rusl.“

Edda rekur kjólaáhugann til bernskunnar.„Ég ólst upp á Ísafirði, yngst af átta systkinum, og systir mín, Lóa Konn, var ofsalega klár að gera kjóla. Hún bjó í Noregi á stríðsárunum og þegar hún kom var ekkert til hérna, engin efni og engir kjólar. Hún var listakona en hafði ekki réttindi til að sauma svo hún flutti með sér klæðskera til Ísafjarðar til að stjórna saumastofu. En hún sneið allt og fékk alls kyns hugmyndir og kjólarnir hennar voru á heimsmælikvarða. Ég vildi að ég ætti eitthvað af kjólunum eftir hana því þeir voru svo fallegir. Lóa rak seinna búð á Skólavörðustíg 31 sem hét Lóubúð og hún var alltaf rosalega flott fram á síðasta dag en hún dó þegar hún var áttatíu og átta ára. Okkur fannst alltaf gaman að vera í fínum kjólum og að klæða okkur fallega og mér finnst vænt um að geta haldið markaðinn núna í gamla húsinu hennar.“

Edda hefur búið í Bandaríkjunum og á Íslandi til skiptis frá 1969. „Maðurinn missti vinnuna á ósanngjarnan hátt svo við fjölskyldan, ég og hann og börnin okkar sex, pökkuðum bara saman og fórum í siglingu um heimshöfin,“ segir Edda. „Við komum svo til Miami árið 1971 og settumst að í Pennsylvaníu í tíu ár þar sem börnin fóru í skóla. Þegar þau voru flogin úr hreiðrinu flutti ég til Flórída í tíu ár og hugsaði svo með mér að það skipti engu hvar ég væri fyrst þau væru komin út um allar trissur svo ég flutti bara heim.“

Edda opnaði búðina Líf í tuskunum og rak hana í sjö ár. „Ég seldi litla íbúð sem ég átti á Ránargötunni og keypti litla búð í miðbænum. Þar seldi ég kjóla fyrir vini mína og svo verslaði ég líka í Ameríku og kom með hingað heim og ég hef bara alltaf verið inni í þessu.“

Alvarlegt slys varð til þess að Edda flutti aftur til Bandaríkjanna og lokaði búðinni tímabundið. „Fimm barnanna minna lentu í bílslysi og ég varð að fara aftur út og hjálpa til. Svo flutti ég aftur heim þegar versti hjallinn var yfirstiginn en þá var ekki meira fyrir mig að sækja hingað svo ég bý áfram í Bandaríkjunum en kem hingað öðru hvoru.“

Þegar verslunin hætti losaði Edda sig við mest af kjólunum sem þar voru en ekki allt. „Ég seldi ég marga kjólana til Sagafilm af því ég þekkti manninn sem átti fyrirtækið, en sumum hélt ég. Og gegnum árin, þó ég sé löngu hætt að selja kjóla, þá stenst ég ekki fallegan kjól. Ef ég sé einhverja lekkera kjóla þá kaupi ég þá. Ég er litaglöð en kjólar fyrir mér eru klassískir fallegir, og vel sniðnir og saumaðir. Mér finnst fallegustu kjólarnir vera frá sjötta áratugnum en svo eru margir kjólar frá öðrum tímum fallegir líka.“

Flestir kjólarnir eru notaðir og þeir koma víða að. „Ég man ekkert hvar ég fékk alla þessa kjóla en voða marga hef ég keypt í búðum með notuð föt og á mörkuðum. Tengdamamma sonar míns hefur verið að finna kjóla fyrir mig í Maryland þar sem býr mikið af ríku fólki og svo var þar líka góðgerðaverslun með notuð föt og þar var fallegum kjólum safnað saman fyrir mig og ég fékk svo að bjóða í þá áður en þeir voru settir fram í búðina.“

Edda segist ekkert vera að eltast við merkjavöru. „Ég er ekkert að eltast við ákveðna hönnuði. Auðvitað slæðast þeir með, en ég er ekkert að spekúlera í nöfnum og er ekki snobbuð fyrir því. Það eina sem skiptir mig máli er hvort kjóllinn er fallegur.“ Edda segist ekki hafa notað neitt sjálf af kjólunum sem verða til sölu á kjólamarkaðinum á sunnudaginn. „Mínir kjólar seldust allir þegar ég var með búðina og þessir passa heldur ekkert allir á mig heldur. En þeir eru allir fallegir og sérstakir og mér finnst mikilvægt að þeir rati til þeirra sem kunna að meta þá.“

Eins og áður sagði fagnar Edda áttatíu og fimm ára afmæli sínu í dag. „Fjölskyldan fagnar með mér í dag en á sunnudaginn verð ég með kjólamarkað og vonast til að sjá kjólaáhugafólk sem er tilbúið til að taka kjólana mína að sér.“

Kjólamarkaður Eddu Konn stendur frá 11 til 18 á sunnudag á Skólavörðustíg 31 en nánari upplýsingar og myndir af broti af úrvalinu má sjá á Facebook undir Kjólamarkaður Eddu Konn á Skólavörðustíg 31.