Reglan hennar Kaju er einföld þegar kemur að vöruúrvali. „Allar vörur eru lífrænar, umhverfisvænar og gæðin í hámarki,“ segir Kaja og trúir því staðfastlega að við séum það sem við borðum og með þann boðskap að leiðarljósi stofnaði hún Matarbúr Kaju og Café Kaju sem blómstrar á Skaganum og gleður líkama og sál. Nýjasta afurð Kaju sem komin er í framreiðslu eru falafelbuff með chilibrauðsraspi sem hafa slegið í gegn. „Við erum búin að vera með falafelvefjur á kaffihúsinu okkar síðastliðin tvö ár við góðar undirtektir svo því var ekkert annað að gera en að koma því í framleiðslu. Í upphafi var það afgangsbrauð sem var alltaf að þvælast fyrir mér á kaffihúsinu. Mér fannst algjör dauðasynd að fleygja gamla brauðinu og því upphófst pæling um hvað skyldi nú gera við brauðið, úr varð brauðraspur sem við prufuðum að krydda. Þar sem spæsí chili, er mitt uppáhald þá byrjuðum við á því og það smellpassaði við falafelið okkar. Úr varð falafelbuff með chilibrauðraspi sem passa í pakkningarnar okkar.“ Brauðraspurinn er unninn í samstarfi við Brauðhúsið. „Þar fáum við afgangsbrauð sem verða þurrkuð, möluð og síðan krydduð eftir kúnstarinnar reglum. En við framleiðum og seljum einnig falafelbollur.“

Frækexin seljast eins og heitar lummur

Framleiðslan eykst dag frá degi og gaman er að segja frá því að Matarbúr Kaju var á dögunum að framleiða sína fyrsti pöntun fyrir stóreldhús, Hjá Höllu í Grindavík. „Halla var að taka inn falafelbollurnar okkar sem verða á matseðlinum hjá þeim von bráðar. Vonandi náum við svo að framleiða falafelbuffin okkar fyrir stóreldhús líka.“

Hvað myndir þú segja að væru vinsælustu vörurnar þínar í framreiðsluvörulínunni þinni?

„Söluhæstu vörurnar okkar eru frækexin, þau hafa rækilega slegið í gegn, enda virkilega góð á bragðið og henta að auki vegan, ketó og glútenlausu mataræði.“

Lífrænt mataræði fyrir heilsuna í forgrunni

Kaja leggur áherslu á lífrænt mataræði og það er hennar lífsstíll. „Lífrænt skiptir miklu máli því þar er ákveðið regluverk sem ég aðhyllist og er heilsusamlegra en ella. Ég er frekar fyrir léttan mat, ekkert sérstaklega hrifin af kjöti og aðhyllist paskaterian, það er fisk, dýraafurðir og annað lífrænt gúmmulaði.“

Er ekki erfitt að nálgast lífrænar afurðir eins og ávexti og grænmeti?

„Jú, það hefur verið erfitt í gegnum tíðina en sem betur fer er það að breytast, nú er hægt að fá ýmislegt lífrænt vottað bæði í ávöxtum og svo grænmeti. En við eigum langt í land og ég verð ekki ánægð fyrr en eitrið verður lokað inni og lífrænt verður selt í lausu í matvöruverslunum.“ Við fengum Kaju til að ljóstra upp uppskriftinni af sínum uppáhalds rétti þessa dagana ásamt meðlæti og það var auðsótt. „Mitt uppáhalds þessa dagana er falafelvefjan gómsæta, en hún getur líka verið vegan og hægt er að leika sér með meðlæti eftir smekk hvers og eins.“ Þessa vefju eiga allir sælkerar eftir að elska.

Falafelvefja með hnetusmjörssósu og jógúrtsósu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Falafelvefja með hnetusmjörssósu

Fyrir tvo

2 stk. að eigin vali

2 stk. falafelbuff með chili brauðraspi

Hnetusmjörssósa - heimalöguð

Jógúrtsósa - heimalöguð

Lambhagasalat, eftir smekk

Klettasalat, eftir smekk

1 stk. rauð paprika, smátt skorin

½ stk. agúrka, smátt skorin

½ stk. rauðlaukur, smátt skorin

½ avókadó, niðurskorið

Tamari ristaðar möndlur, eftir smekk

Svört sesamfræ til skrauts

Hnetusmjörssósa

2 dl kókosmjólk

2 tsk. Tamarisósa (má vera meira)

4 msk. hnetusmjör

Blandið saman kókosmjólk, tamarisósu og hnetusmjöri og hrærið vel.

Jógúrtsósa

1 grísk jógúrt frá Biobú (verður að vera lífræn jógúrt þar sem lífræna jógúrtin er ófitusprengd og það eitt kemur fram í áferð og bragði)

½ msk. möluð kóríanderfræ

2 msk. agavesíróp

Blandið öllu hráefninu vel saman, gríska jógúrtinu, möluðu kóríanderfræjunum og sírópinu og hrærið vel.

Vefjan útbúin

Byrjið á því að steikja falafelbuffin á pönnu og skerið þau síðan í tvennt. Vefjurnar eru hitaðar á pönnunni, hnetusósa sett á aðra hliðina og jógúrtsósan á hina á vefjunum. Síðan er salatið og grænmetið, eftir smekk, sett á vefjurnar ásamt avókadóinu, dass af ristuðum möndlum og sesamfræjum. Fyrir þá sem eru vegan þá er algjör snilld að nota sítrónuolíu í staðinn fyrir jógúrtsósuna eða bara ólífuolíu.