Hertogaynjan af Sussex Meghan Markle opnar sig í viðtali hjá ITV sem verður birt næstkomandi sunnudag. Breska fréttaveitan ITV birti stutta stiklu úr viðtalinu þar sem hún tekur undir með blaðamanni um að það hafi verð erfitt að kljást við fjölmiðlafárið.

„Allar konur eru berskjaldaðar, sérstaklega í gegnum meðgöngu. Þetta hefur verið krefjandi tímabil. Svo er maður að reyna að sjá um nýbura. Þetta tekur á,“ segir Meghan í samtali við ITV. Hún þakkaði blaðamanninum fyrir að spyrja hana um líðan hennar.

„Fáir spyrja mig hvernig mér líður,“ bætti hún við.

Harry Bretaprins hefur sagt að ljósmyndasnápar séu að ganga jafn hart fram gagnvart eiginkonu sinni og móður sinni, Díönu prinsessu heitinni. Hjónin hafa höfðað mál gegn eigendum götublaðanna Sun, News of the World og Daily Mirror. Harry segist hafa verið þögult vitni þjáningar Meghan of lengi og að hann ætli ekki lengur að standa hjá.

„Sem par að þá trúum við á frelsi fjöl­miðla og hlut­lausa um­fjöllun sem byggist á sann­leika - við höfum aldrei þurft meira á á­byrgum fjöl­miðlum að halda,“ segir Harry.

„Því miður hefur konan mín orðið eitt af nýjustu fórnar­lömbum breskra götu­blaða sem herja á ein­stak­linga án þess að hugsa um af­leiðingarnar, í miskunnar­lausri her­ferð sem hefur farið stig­magnandi síðast­liðið ár, í gegnum með­göngu hennar og á meðan við höfum alið ný­fæddan son okkar.“