Það gerðu kínverskir brúðarkjólahönnuðir á tískuvikunni í Kína daginn sem Íslendingar gerðu tilslakanir á samkomubanninu, 4. maí. Þá voru haldnar íburðarmiklar tískusýningar án áhorfenda í fyrsta sinn í 22 ára sögu kínversku tískuvikunnar, vegna bráðrar smithættu COVID-19 sjúkdómsins.

Tískusýningin var haldin í stórri og glæstri höll sem geymir bókabúðina PageOne sem opin er allan sólarhringinn í höfuðborginni Peking. Engir áhorfendur voru viðstaddir vegna takmarkana á áhorfendafjölda, en sýningunni var streymt á netinu. Einu gestirnir voru fámennur hópur ljósmyndara sem unnu verk sín með andlitsgrímur og hanska.

Fyrirsæturnar liðu um galtóm salarkynnin í glæsilegum síðkjólum og víðáttumiklum brúðarkjólum og meðal annars var sýnd ný hönnun frá kínversku hönnuðunum Peng Jing og Zhou Li.

Tískuvikan í Kína gefur tóninn fyrir stafrænar útfærslur á tískusýningum heims í framtíðinni og kemur í kjölfar tískuvikunnar í Sjanghæ sem fór einnig fram á netinu í mars. Verði samkomu- og ferðabanni í löndum veraldar ekki aflétt á næstu mánuðum má búast við að fleiri tískuvikur verði eins og hjá Kínverjum og þeim streymt stafrænt um heiminn.

Gamaldags rómantík með bróderuðum blómum og slóðinn eins og kápa.
Púffermar í gegnsæju við blúndum skrýddan kjól. MYNDIR/GETTY
Blómum prýddur dragsíður slóði.
Kínverska brúðarskartið var margt flegið með viðamiklum blúndupilsum.