Ninna Pálmadóttir er leikstjóri og kvikmyndatökukona sem hefur vakið mikla athygli á stuttum ferli. Þrátt fyrir að hún hafi aðeins gert tvær stuttmyndir til þessa, hafa verk hennar unnið til fjölda virtra verðlauna og hlotið mikið lof, svo þessi ungi og upprennandi leikstjóri á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í kvikmyndabransanum.

„Ég ólst aðallega upp á Akureyri og flutti svo suður til að læra kvikmyndafræði í Háskóla Íslands þegar ég var 19 ára. Ástæðuna fyrir því að ég ákvað að leggja kvikmyndagerð fyrir mig má rekja til þess að þegar ég var yngri bjuggum við við hliðina á vídeóleigu og það var alltaf mikil hefð hjá fjölskyldunni minni að horfa á eitthvað saman um helgar,“ segir Ninna. „Mér þótti líka alltaf ótrúlega gaman að fara í bíó og stíga inn í þennan heim.

Þegar ég varð unglingur byrjaði ég svo að kynna mér alls konar kvikmyndir. Ég var alltaf mikið fyrir góðar sögur og með mjög virkt ímyndunarafl, en ég byrjaði að átta mig á því hvernig kvikmyndir hreyfðu við mér á ólíkan hátt með kvikmyndatöku, leik og fagurfræði og þá fór ég að hugsa um hvað þetta væri ótrúlega sterkur miðill til að segja sögur,“ útskýrir Ninna. „Ég áttaði mig á því að þarna væri hlutverk fyrir mig og ég var búin að ákveða að ég þyrfti að leggja kvikmyndagerð fyrir mig þegar ég var bara 17 ára.“

Innblásin af hversdagslífinu

„Þegar ég var búin með BA-námið fór ég að skoða kvikmyndaskóla í Bandaríkjunum því mig langaði að fara þangað, og endaði með því að sækja um hjá Tisch School of the Arts,“ segir Ninna. „Þar fann ég nám í leikstjórn og kvikmyndatöku sem var akkúrat fyrir mig.

Kvikmyndagerðarkonan Ninna Pálmadóttir hefur náð undraverðum árangri á stuttum ferli og nú er kvikmynd í fullri lengd næst á dagskrá. Í bili nýtur hún þess að búa í Vesturbænum og spóka sig í kápunni sem hún fann í París í sumar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Ég fæ innblástur aðallega frá hversdagslegum augnablikum. Mér finnst oft gleymast hvað það er mikið af mögnuðum augnablikum allt í kring. Maður veit aldrei hvað fólkið sem maður mætir er að ganga í gegnum og maður getur séð áhugaverða hluti og hluti sem hreyfa við manni ef maður reynir að hafa auga fyrir því,“ segir Ninna. „Ég er líka mikið náttúrubarn, það er mikill kraftur í náttúrunni og umhverfinu og hvernig við speglum okkur í því. Svo finnst mér líka mikil þerapía fólgin í að skrifa um eitthvað persónulegt sem ég hef upplifað og umbreyta því í eitthvað fallegt sem hreyfir við fólki.“

Fyrsta myndin fór á flug

Stuttmyndin Blaðberinn var verkefni Ninnu á öðru ári í náminu. Hún komst inn á kvikmynda­hátíðir víðs vegar um heiminn, meðal annars á Seattle International Film Festival, þar sem hún var frumsýnd, og Share Her Journey – sérstakan viðburð TIFF Short Cuts í Toronto. Ninna vann líka verðlaun á Reykjavík International Film Festival, Stockfish, Euroshorts Young Filmmakers í Póllandi og vann svo Edduna 2020 fyrir stuttmynd ársins. Hún hlaut einnig Sólveig Anspach-verðlaunin fyrir myndina.

„Blaðberinn er fyrsta myndin sem ég gerði eitthvað með, en okkur er kennt í náminu að senda stuttmyndirnar okkar á kvikmynda­hátíðir til að þær verði sýndar áhorfendum í kvikmyndasal, sem er í raun eini vettvangurinn þar sem þær fá að njóta sín. Það er ómetanlegt að fá að sýna afraksturinn af vinnu sinni á stóru tjaldi,“ segir Ninna. „Um leið fær maður að ferðast með myndunum, kynnast fólki og vekja athygli á sér.

Mig óraði ekki fyrir viðbrögðunum og mér þótti sérstaklega vænt um að hún fékk góð viðbrögð hérna heima. Ég var að flytja heim eftir að hafa verið erlendis í þrjú ár og þetta voru góðar móttökur,“ segir Ninna. „Það er líka gaman fyrir þá sem unnu með mér og hjálpuðu mér, að þetta hafi gengið svona vel.

Ninna segist ekki geta svarað því hvers vegna viðbrögðin við Blaðberanum voru svona góð, en hún telur að einlæg frammistaða Trausta Hrafns í aðalhlutverkinu hafi átt stóran þátt í því og hreyft við mörgum.

Ég er enn að spyrja mig af hverju viðbrögðin voru svona ótrúlega góð, en ég held að það sé sagan, sem fjallar um tengsl á milli fólks sem þekkist ekki,“ segir Ninna. „Svo held ég líka að hann dásamlegi Trausti Hrafn, sem lék aðalhlutverkið, hafi hreyft mikið við fólki með sinni einlægni.

Þessi verðlaun eru afskaplega mikil hvatning til að halda áfram og vísbending um að maður sé að gera eitthvað rétt,“ segir Ninna. „En mér finnst ég búin að vinna ef ég fæ að sýna verkin mín á hátíð, það er svo dýrmætt. Verðlaunin eru svo bara plús og þau gefa tilefni til að fagna góðum árangri með samstarfsfólki og gerir það vonandi líka stolt.“

Stuðningur frá Spike Lee

Hinn virti kvikmyndaleikstjóri Spike Lee er einn af kennurunum í Tisch og stendur fyrir sjóði sem heitir The Spike Lee Film Pro­duction Fund. Ninna sótti um styrk þaðan og fékk í kjölfarið fund með leikstjóranum.

„Lee er alveg frábær. Ég hitti hann og sýndi honum Blaðberann og einhverra hluta vegna hafði hann trú á þessu og veitti mér styrk, sem ég er enn að klípa mig yfir að hafa fengið,“ segir Ninna. „Ég notaði þennan styrk til að gera myndina Allir hundar deyja, sem var útskriftarmyndin mín. Hún var sýnd á RIFF í fyrra og líka á kvikmyndahátíð í Zagreb, en eftirvinnslan fór fram í Króatíu. Hún var svo sýnd á Nordisk Panorama í Svíþjóð í haust og á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi, þar sem ég var í hópi tíu ungra og efnilegra leikstjóra sem fengu athygli.“

Mynd í fullri lengd næst

„Núna er ég að þróa kvikmynd í fullri lengd, en ég get ekki sagt mikið um hana annað en að þróunin er komin vel á veg og vonandi verður hún tekin upp á næstu tveimur árum, en ég er líka að skrifa og þróa fleiri verkefni,“ segir Ninna. „Mér finnst ég rosalega heppin að fá að gera það sem ég elska, að segja sögur, vinna með skemmtilegu fólki og búa til list og langar bara að halda því áfram.

Ninna fékk styrk frá hinum virta og áhrifamikla leikstjóra Spike Lee til að gera útskriftarmyndina sína, Allir hundar deyja.

Annars reyni ég líka að rækta áhugamálin og persónulega lífið og taka einn dag í einu. Einu sinni hugsaði ég tíu ár fram í tímann, en svo áttaði ég mig á því að það væri ekki raunsætt því lífið tekur mann í ýmsar óvæntar áttir,“ segir Ninna. „Það er ágætt að vera bara með plan sirka næsta árið.

Draumurinn minn er að myndirnar sem mig langar að gera verði að veruleika en svo held ég líka að það gæti verið gaman að gera einhvern tímann vísindaskáldsögu­mynd, mér finnst það áhugaverður miðill,“ segir Ninna.

Fagurkeri í eilífri fjársjóðsleit

Það er fátt sem Ninna gerir sem tengist ekki kvikmyndagerð.

„Lífið snýst að miklu leyti um vinnuna. Ég bý í gamla Vesturbænum með kærastanum mínum, kenni leikstjórn í Kvikmyndaskólanum og er að þróa verkefnin mín,“ segir hún. „Fyrir utan kvikmyndagerðina hef ég reyndar líka alltaf verið mikill tónlistarunnandi og ég var alltaf í hljómsveitum þegar ég var yngri, en ég syng og spila á píanó. Einhvern tímann fer ég örugglega aftur í tónlistina.

Mér finnst líka rosa gaman að fara í fjársjóðsleit í búðum sem selja notaðar vörur, hvort sem það eru hlutir fyrir heimilið eða föt. Mér finnst gaman að finna fallega muni fyrir heimilið, en ég er mikill fagurkeri, og megnið af fötunum sem ég kaupi er notað. Það er gott fyrir umhverfið, en mér finnst líka bara gaman að grafa eitthvað upp, sérstaklega í útlöndum, og tel mig hafa ágætt auga fyrir fjársjóðum,“ segir Ninna. „Ég er mikill jakkasafnari og fann til dæmis geggjaða kápu í París í sumar sem er strax í miklu uppáhaldi. Mér þykir líka mjög vænt um lopapeysu sem ég keypti frá litlu spænsku merki sem heitir Paloma Wool.

Mér finnst gaman að eiga flíkur sem standast tímans tönn, en ég klæði mig yfirleitt bara mjög þægilega þó að mér finnist líka gaman að klæða mig upp á við rétt tilefni og nota látlausa skartgripi eins og fallega eyrnalokka,“ segir Ninna. „Almennt er ég bara í þægilegum fötum og eiginlega alltaf í náttúrutónum.

Mér finnst geggjað að fara í verslunina Beacon’s Closet í New York en hérna heima eru Waste­land og Hringekjan í uppáhaldi,“ segir Ninna. „Paloma Wool er líka í miklu uppáhaldi þegar ég get leyft mér aðeins.“


Hægt er að kynna sér verk Ninnu betur á heimasíðu hennar: ninnapalma.com.