Vöru­hönnuðurinn Tinna Gunnars­dóttir opnaði ný­lega sýninguna Snert á lands­lagi – 66°05’35.2”N 18°49’34.1”W sem er fram­lag Hafnar­borgar til Hönnunar­Mars. Sýningin tengist yfir­standandi doktors­verk­efni Tinnu í menningar­fræði við Há­skóla Ís­lands þar sem hún rann­sakar hvort fagur­ferði­leg upp­lifun í lands­lagi geti verið afl til um­bóta á tímum mann­a­ldar og lofts­lags­breytinga.

„Að undir­strika að maðurinn sé hluti af náttúrunni, ekki að­skilinn, það er svona heim­speki­legi grunnurinn,“ segir Tinna. Höfundur hug­taksins fagur­ferði er Njörður Sigur­jóns­son, doktor í menningar­stjórnun við Há­skólann á Bif­röst. Spurð um hver sé munurinn á fagur­ferði og fagur­fræði segir Tinna:

„Þetta er svo skemmti­lega skrýtið hug­tak og hljómar alltaf eins og mis­mæli. En það er þannig að þegar maður talar um fagur­fræði­lega upp­lifun, til dæmis í lands­lagi, þá er í rauninni ekkert fræði­legt við þá upp­lifun heldur er hún fyrst og fremst til­finninga­leg.“

Á sýningunni má finna ýmsa hönnunarhluti frá löngum ferli Tinnu. Elsta verkið er frá árinu 1992 og þau nýjustu eru frá 2022.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Tinna setur þetta í sam­hengi við muninn á hug­tökunum sið­fræði og sið­ferði, þar sem fræði­greinin sið­fræði fjallar um mann­legt sið­ferði. Þannig mætti segja að fagur­fræðin fjalli um fagur­ferði­lega upp­lifun mannsins.

„Mér finnst líka svo á­huga­vert að fagur­fræði­hug­takið er svo rosa­lega vítt, það tengist ekki endi­lega fegurð, það spannar allan skalann frá ægi­fegurð til ljót­leika. Fagur­ferði­leg upp­lifun er það þegar eitt­hvað þarna úti snertir við þér og það þarf ekki að vera ein­hver klisja um full­kominn blóma­vasa eða eitt­hvað slíkt heldur bara að þú staldrir við og veitir því at­hygli að það er eitt­hvað sem gerist á milli þín og þess sem þú mætir, horfir á, eða snertir,“ segir Tinna.

Sýningin saman­stendur af alls konar hönnunar­hlutum frá löngum ferli Tinnu. Elsta verkið á sýningunni má rekja til BA-verk­efnis hennar frá Bret­landi árið 1992 og nýjustu verkin eru frá 2022. Tinna segir þó ekki um hefð­bundna yfir­lits­sýningu að ræða. Þunga­miðja sýningarinnar varð til í ára­langri til­viks­rann­sókn Tinnu í Héðins­firði á norðan­verðum Trölla­skaga sem fór úr byggð um miðja síðustu öld.

„Mig langaði að líta á sýninguna í safninu eins og lands­lag, ég er að búa til ein­hvers konar lands­lags­upp­lifun með mann­gerðum hlutum. Mér finnst svo á­huga­vert að hugsa um að allt sem dýr gera lítum við á sem náttúr­lega ferla en svo tölum við um mann­gerða ferla þegar við mann­fólkið eigum í hlut. Hver er munurinn? Jú, við náttúr­lega höfum meiri tækni og mann­gerð efni en í raun og veru kemur allt frá náttúrunni,“ segir Tinna.

Mig langaði að líta á sýninguna í safninu eins og landslag, ég er að búa til einhvers konar landslagsupplifun með manngerðum hlutum.

Sem dæmi um hluti sem finna má á sýningunni eru tveir Árstafir sem standa upp úr gras­þökum í sal Hafnar­borgar. Stafirnir eru fram­leiddir úr raf­húðuðu áli og ryð­fríu stáli og sér­hannaðir fyrir um­hverfi Héðins­fjarðar. Flestir hlutanna eru hannaðir með til­liti til nota­gildis en sumir þeirra eru þó á mörkum hönnunar og mynd­listar eins og til dæmis pinni sem ber heitið Mið­punktur og er eins konar stækkuð út­gáfa af kortapinna, nema hvað að þessi er hannaður til að standa í lands­lagi.

„Ég er mikið að velta fyrir mér nota­gildi og hvað skiptir máli í dag og ein­staka sinnum þá sleppi ég nota­gildinu, það gerist mjög sjaldan, oftar er það þannig að það er hluti af verkinu en ekki endi­lega aðal mark­miðið,“ segir Tinna.

Stór hluti af hug­mynda­fræði sýningarinnar snýst um að varpa ljósi á sam­band manns og náttúru á tímum mann­a­ldar. Að sögn Tinnu hefur verið lögð rík á­hersla innan hönnunar­geirans á undan­förnum árum á að fjalla um sam­fé­lags­legar á­skoranir á borð við lofts­lags­breytingar. Tinna er prófessor í vöru­hönnun við Lista­há­skóla Ís­lands og segist leggja mikla á­herslu á að miðla slíkri hugsun til nem­enda sinna.

„Mér finnst mikil­vægt í dag að skoða hvað vöru­hönnun getur gert til þess að taka þátt í þessu sam­tali og þessu stóra verk­efni sem við stöndum frammi fyrir. Hún getur líka gert það í sam­bandi við græna, um­hverfis­væna fjölda­fram­leiðslu en hún er ekki beint til staðar hérna á Ís­landi. Vöru­hönnun er ungt fag á heims­vísu og sér­stak­lega ungt á Ís­landi svo þetta er á­huga­vert við­fangs­efni sem er í stöðugri mótun,“ segir Tinna.