Margra grasa kennir á bókauppboði sem er hafið á vef Gallerís Foldar en því lýkur sunnudaginn 8. ágúst. Alls verða um 120 bækur eða bókapakkar boðnir upp að þessu sinni.

Nokkuð er af sérstæðum, fágætum og fallegum ljóðabókum. Fyrst ber að nefna eintak af bókinni Geislavirk tungl sem er fyrsta bók Jónasar Svafárs. Eintakið er prentað á nótnablöð og bókinni fylgir merkileg eigendasaga. Það sama á við um fleiri fágætar ljóðabækur sem eru boðnar upp. Tölusett eintak af Það blæðir úr morgunsárinu eftir Jónas, áritað af honum, er einnig boðið upp.

Þá má nefna verkið Óskiljanleg kúla en bókin er eftir Einar Melax. Tvær aðrar bækur Einars, gefnar út af Medúsu-hópnum, verða boðnar upp en þær eru sjaldséðar og eftirsóttar á fornbókamarkaði.

Þá má nefna fágætar bækur eftir Dag Sigurðarson; Hundabærinn eða Viðreisn efnahagslífsins og Drepa, drepa eftir þá Einar Ólafsson. Eins er vert að nefna Birting, hefti 1-2 frá 1957 sem nefnd hafa verið „Dieter Roth“-heftin en listamaðurinn sá um útlit og hönnun þess.

Grágás í frumútgáfu frá miðri 19. öld verður boðin upp ásamt fleiri lagabókum. Þá er tímaritið Verðandi, öll tölublöð innbundin í eina bók á uppboðinu, eins Rauðir pennar í heild sinni frá árunum 1935-8.

Af verkum kvenna má nefna Eldingu eftir Torfhildi Hólm og Hélublóm eftir Erlu sem er skáldanafn Guðfinnu Þorsteinsdóttur, Skjóna eftir Nínu Tryggvadóttur og Matreiðslubók. Leiðbeiningar handa almenningi eftir Fjólu Stefáns frá 1916.

Boðið er upp frumverk Þorvaldar Thoroddsen, Landfræðisaga Íslands, í vönduðu skinnbandi, allt verkið. Einnig Lýsing Íslands, frumútgáfa í skinnbandi.

Þá má nefna fyrstu útgáfur af verkum Halldórs Laxness, meðal annars Gerska ævintýrið.

Einnig má nefna ýmsar fræðibækur, forn fræði og alls konar áhugaverðar útgáfur.

Bækurnar eru til sýnis í Galleríi Fold og verða allan uppboðstímann. ■

Fágæt ljóðabók.