Kolbrún Ýr segir að fleiri upplifi þörf á andlegri aðstoð eftir hátíðirnar en aðra tíma ársins. „Mín upplifun er sú að fólk þarf á andlegri einkaþjálfun að halda á mismunandi tímaskeiðum í lífi sínu. Hátíðirnar eru ímynd gleði, hamingju, kærleika, gjafmildi og fegurðar. En staðreyndin er sú að of margir upplifa hátíðirnar því miður ekki á þann hátt. Stór hópur fólks upplifir sorg, erfið samskipti, vanmátt, einmanaleika, kvíða og stress.

Flest berum við okkur ákaft saman við aðra. Við leitum eftir samþykki í augum annarra og krefjumst þess af sjálfum okkur að við séum jafnmikið með þetta og allir hinir. Þegar samfélagið ætlast til þess að þú sért í bullandi hamingju og flestir sýna þá hlið af sér út á við, þá finnst mörgum þeir vera sviknir í lífinu, og hugsa: Af hverju er ég ekki að upplifa þessa hamingju? Af hverju er ég alltaf í vandræðum? og þannig mætti lengi halda áfram,“ segir Kolbrún.

Hvað er andlegur einkaþjálfari?

„Það er kannski auðveldast að líkja því sem ég geri við einkaþjálfara sem hjálpar þér að ná árangri með líkama þinn, nema andlegur einkaþjálfi hjálpar þér við að þjálfa hugann og sjá hver þú ert í betra og áhrifaríkara ljósi en áður. Andleg einkaþjálfun hjá mér er 12 mánaða þjálfun sem byggir á sjálfstyrkingu, hugarfarsbreytingu, núvitund, bættum samskiptum, aukinni gleði og ánægju með lífið. Námskeiðið er fullt af fróðleik, verkefnum og æfingum sem hjálpa fólki að verða besta útgáfan af sér,“ segir Kolbrún. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu og samfélagsmiðlum: Lifðu betur með þér.

Það þarf ekki allt að vera á hvolfi

Kolbrún hvetur fólk til þess að skoða hvar fókusinn þeirra er. „Við eigum það til að einblína á það sem gengur ekki nógu vel. Við erum mörg hver svo góð í því, að það verður hreinlega erfitt að koma auga á hvað gengur eiginlega vel. Það er gott að spyrja sjálfan sig reglulega: Hvað er að ganga vel? Hverjir eru styrkleikar mínir? Hefur fortíðin eitthvað nýtt að segja mér? Hvað get ég lært af henni? Hverju þarf ég að sleppa tökunum á?

Ég hvet fólk líka til þess að skoða sína rútínu og mögulega gera breytingar þar á. Þá er mikilvægt að spyrja sig sjálfan: Er vaninn þinn að hjálpa þér? Ég myndi vilja að allir lifðu meira í núinu, færu meira í núvitundina og nytu augnabliksins af einlægni, en hugsuðu ekki bara um það sem gott slagorð. Það er eins með andlegu heilsuna og þá líkamlegu, það þarf ekki allt að vera á hvolfi til þess að maður leiti sér aðstoðar með að gera betur. Ef þig langar að líða vel andlega þá þarftu að setja þig og þinn huga í forgang. Það er aldrei of snemmt eða of seint, þú ert ekki of ungt eða gamalt til að byrja að leyfa þér að líða vel.“

Við eigum alltaf að setja okkur markmið, bæði stór og smá, en þau þurfa ekki endilega að einskorðast við áramót. Ef það hjálpar fólki að muna eftir að setja sér markmið um áramót, þá er það bara frábært.

Áramótin eru tímamót

Áramótaheit eru orðin árlegur gestur hjá mörgum fjölskyldum og margir strengja þau við hátíðlega athöfn í viðurvist vitna. Það skal fara oftar í ræktina á nýju ári, missa svo og svo mörg kíló, hætta að borða sætindi, klífa fimmtíu fjöll og svo margt fleira. „Við stöndum á tímamótum við áramót. Okkur langar að huga betur að okkur og setja okkur markmið. Fókusinn hefur í áratugi verið á líkamlegu heilsuna en núna er blessunarlega vakning hjá fólki varðandi mikilvægi þess að andlega heilsan sé líka upp á sitt besta.

Við eigum alltaf að setja okkur markmið, bæði stór og smá, en þau þurfa ekki endilega að einskorðast við áramót. Ef það hjálpar fólki að muna eftir að setja sér markmið um áramót, þá er það bara frábært. Enginn draumur er of stór, við eigum að vera spennt fyrir lífinu og lifa því lifandi og leyfa öllum okkar markmiðum að nást hvort sem það er fyrir mánuðinn, árið eða áratuginn. Það er gott að setja sér stór markmið en það þarf líka að muna eftir litlu sigrunum og litlu markmiðunum sem nást á leiðinni. Eitt er þó sérstaklega mikilvægt: Ekki bera þig saman við aðra, berðu þig heldur saman við þig. Þú hefur val og nýttu þér það með því að setja þér markmið sem færa þér vellíðan með þig og þitt líf.“

Finnur þú sjálf fyrir kvíða og stressi yfir hátíðirnar?

„Ég myndi ekki kalla það kvíða eða stress í dag, en ég upplifi eins og allar aðrar manneskjur krefjandi aðstæður og þarf eins og aðrir að minna mig á að vera meðvituð um að vera hér og nú. Ég hef ýmis verkfæri sem ég nýti mér á álagsstundum og þau virka fyrir mig bæði í desember sem og alla aðra mánuði ársins.

Ég upplifi kærleik og gleði í desember og mér finnst mjög gaman að finna gjafir handa þeim sem mér þykir vænt um. Það er alltaf mikið að gera hjá mér í jólamánuðinum þar sem ég er hálfgerður jólaálfur og bý til gjafir fyrir aðra þar sem ég er einnig skartgripahönnuður. Þá bara hreinlega finn ég hvað það er dásamlegt að fólk sé að leita að fallegum gjöfum fyrir ástvini og það vermir hjartað mitt enn meira. Ég þarf að skipuleggja mig vel og tæknin hjálpar mér auðvitað mikið við það. Ég og Google Calendar erum mestu mátar,“ segir Kolbrún og hlær.

Við erum oftast boðin og búin fyrir aðra, skilningsrík og þakklát en við gleymum oftast að snúa dæminu við og sýna okkur sjálfum skilning, þakklæti og gefa okkur klapp á bakið fyrir að vera betri í dag en í gær.

Hvað gerir þú þegar þú finnur fyrir stressi og kvíða?

„Mín verkfæri eru að skoða hugann minn vel. Er þetta gamalt mynstur sem ég er að bregðast við á þessari stundu af viðteknum vana? Hvað er á bak við þessa hugsun og líðan? Er ég að láta aðra valda mér hugarangri? Ef svo er, hvernig get ég breytt því og mínum viðbrögðum? Ég passa líka upp á svefninn minn og hugleiði á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag. Ég fæ orku frá því að hjálpa öðrum að sjá hvernig þau geta skoðað sitt mynstur. Ég hreyfi mig, fer í jóga og síðast en ekki síst fæ ég líka orkustíflulosun þegar ég fæ fólk til mín í Access Bars sem er meðferð sem miðar að því að jafna orkuna hjá okkur.“

Hvað er mikilvægt að huga að andlega yfir hátíðirnar?

„Það mikilvægasta í mínum huga er að hver og einn hugsi um sig, taki ábyrgð á sinni líðan og gefi sjálfum sér þá umhyggju og mildi sem það er vant að sýna öðrum. Við erum oftast boðin og búin fyrir aðra, skilningsrík og þakklát en við gleymum oftast að snúa dæminu við og sýna okkur sjálfum skilning, þakklæti og gefa okkur klapp á bakið fyrir að vera betri í dag en í gær. Það er mikilvægt að hlúa að sjálfum sér, tala fallega til sín og hrósa okkur sjálfum fyrir það sem við erum að gera vel. Það kemur dagur eftir þennan dag og hann býður alltaf upp á nýtt viðhorf og ný tækifæri ef við erum meðvituð um það.“

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðunni lifdubeturmedther.is.