Nýbakaðir foreldrar í Hafnarfirði hafa tekið hamingjuóskum og táknrænni gjöf frá bænum fagnandi enda þykir krúttkarfan svokallaða sem bærinn fagnar nýinnfæddum bæjarbúum með afskaplega vegleg.

„Ég var eiginlega hissa hvað þetta var veglegur pakki. Ég var búin að lesa um krúttkörfurnar en vissi ekki að þetta væri svona flott,“ segir Sunna Magnúsdóttir sem er nýbúin að sækja körfu dóttur sinnar, sem verður gefið nafn á sunnudaginn, á bókasafnið.

Hún segir það óneitanlega gaman að bæjarfélagið skuli á þennan hátt taka virkan þátt í gleðinni sem fylgir því að koma heim með nýtt barn.

„Algjörlega. Ég hef eignast tvö börn áður og þetta var ekki þá og það var skemmtilegt að sækja þetta á bókasafnið.“

Öll ný krútt fá kort

Bærinn hefur frá og með 1. janúar í fyrra sent hamingjuóskir og kort heim til allra nýfæddra Hafnfirðinga með skilaboðum um að þeirra bíði táknræn gjöf, svokölluð krútt­karfa, á barnadeildinni á Bókasafni Hafnarfjarðar.

Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í framtakið þar sem stór hluti foreldra hefur sótt gjöf til þeirra 347 barna sem hafa fengið kveðju frá bænum.

„Gjöfin er liður í því að efla Hafnarfjörð enn frekar sem fjölskylduvænt samfélag með fallegri gjöf og upplýsingum um þá þjónustu sem fjölskyldunni allri stendur til boða innan bæjarmarkanna,“ segir Árdís Ármannsdóttir upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.

Krúttgjöf Hafnarfjarðar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Karfan þykir, eins og Sunna bendir á, ákaflega vegleg en valið er í hana með notagildi, kynhlutleysi og umhverfissjónarmið í huga. Í körfunni er fatnaður fyrir barnið: heilgalli, húfa, sokkar og smekkur með áletruninni Halló Hafnarfjörður.

Og það er ekki allt. Síður en svo því í körfunni eru einnig krúttbangsi og tvær bækur, önnur hugsuð fyrir foreldrana en hin til lestrar fyrir barnið.

Aukin atvinnutækifæri

Geitungarnir, nýsköpunar- og starfsþjálfun fyrir fólk með fötlun, spila stórt hlutverk í kringum krúttkörfurnar. Geitungarnir taka á móti innihaldi gjafar, sjá um pökkun í gjafakassa og afhendingu á gjöfunum til bókasafnsins þar sem starfsfólk safnsins tekur við og annast afhendinguna til foreldra. Mánaðarlega keyrir svo þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar út lista með nýfæddum Hafnfirðingum, póstleggur kort og kemur að vinnslu kynningarefnis, innkaupum og öðrum ákvörðunum í samstarfi við fjölskyldu- og barnamálasvið og þjónustu- og þróunarsvið bæjarins.

Krúttkarfan kallar þannig á gott flæði og samstarf á milli að minnsta kosti fimm starfsstöðva innan bæjarins og hefur ekki bara glatt nýbakaða foreldra heldur einnig skapað Geitungunum aukið tækifæri til atvinnu og fjölbreyttra verkefna.