Gabríela var að útskrifast sem tölvunarfræðingur og er að vinna í nokkrum sprotafyrirtækjum þar á meðal sprotafyrirtækinu Atlas Primer. „Þar erum við að sérsníða lausn sem aðstoðar nemendur, sérstaklega lesblinda, við að læra með aðstoð talgervils. Mér finnst frábært tækifæri að fá að aðstoða fólk sem er að glíma við svipaðar hindranir og ég þurfti að fást við í minni skólagöngu.“ Gabríela tekur fram að það séu góðir hlutir að gerast núna í frumkvöðlaheiminum og margvísleg framþróun fyrirsjáanleg á næstunni sem muni hafa jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið.

Rúllukragabolir klæða Gabríelu einstaklega vel og gera hana virðulega. Rúllukragabolurinn er úr Lindex og buxurnar eru frá Levi’s.

Amma er fyrirmynd

Gabríela er einnig þekkt fyrir sína fáguðu framkomu og fatastíl og eftir henni er tekið.

Hefur þú ávallt haft skoðun á því hvernig fötum þú vilt klæðast?

„Nú ætla ég að vera algjörlega hreinskilin. Ég myndi ekki segja að ég hefði besta augað fyrir hönnun og tísku, ég get alveg oft verið svolítið púkalega klædd,“ segir Gabríela og hlær. „Mögulega var maður of mikill nörd. En ég hef alltaf verið heppin með hversu smart konurnar í mínu lífi hafa verið. Mamma hefur einstakt auga fyrir hönnun og ég fæ hana yfirleitt alltaf með í ráðin. Einnig á ég flottustu ömmu á Íslandi og hún og konan hennar eru mér fyrirmyndir í lífinu og klæðavali.“

Klæðir sig eftir skapi

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Breytilegum, ég klæði mig eftir skapi. Já og eftir því sem ég sá mömmu eða ömmu seinast í,“ segir hún og hlær. „Ég hef samt alltaf litið upp til einstaklinga sem klæðast ávallt eins fötum. Ég man sem táningur þegar ég las bókina um Steve Jobs og hvernig hann valdi að klæðast því sama alla daga til þess að minnka ákvarðanatöku og einfalda líf sitt. Þetta þykir mér aðlaðandi pæling en mér hefur ekki tekist enn að fylgja þessum lífsstíl. Ég réttlæti það með því að það auki möguleikana á að örva sköpunargáfuna að klæða sig ekki alltaf eins,“ segir Gabríela og bætir hlæjandi við að hún sé mögulega ekki að taka jafn margar og mikilvægar ákvarðanir og hann gerði á sínum tíma. Á einn rúllukragabol í hverjum lit Gabríela á sér sínar uppáhaldsflíkur og sumra þeirra gæti hún ekki verið án.

„Ég elska rúllukragaboli. Ef það er flík sem ég gæti ekki lifað án þá er það rúllukragabolur ég á einn í hverjum lit,“ segir hún og brosir. „Þeir eru þægilegir en smart og eru fullkomnir fyrir veðurfarið á íslandi.“

Buxur og rúllukragabolur úr Lindex, ullarkápa frá Zöru og Camper-skór.

Elskar lágbotna skó

Gabríela segist ekki eiga sér neinn uppáhaldshönnuð eða tískuvörumerki heldur velji hún það sem henni finnst fallegt og klæða sig vel. „Í rauninni á ég engan uppáhaldshönnuð eða -merki, ég klæðist bara því sem mér þykir fallegt og það er breytilegt. Þú ættir að spyrja mömmu eða ömmu kannski frekar,“ segir hún og hlær.

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Ég elska flotta, lágbotna skó. Amma er alltaf í geggjuðum skóm, og ég á það til að fara beint eftir að ég er búin að hitta hana og kaupa mér alveg eins. Hilda hennar ömmu vinnur hjá Steinari Waage og skórnir þar eru geggjaðir. Annars leyfi ég mér líka að ganga um á háum hælum þó ég sé hávaxin, alger óþarfi að láta normið halda aftur af sér.“

Gabríela í fallegri dragt frá Massimo Dutti og hælaskóm. „Mamma á allan heiðurinn af þessu lúkki,“ segir Gabríela. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Úr ómissandi fylgihlutur

Fylgihlutir setja gjarnan punktinn yfir klæðaburðinn og spila stórt hlutverk í heildarútlitinu.

Þegar þú velur þér fylgihluti hvað finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Úr, en aðallega bara svo maður sé ekki alltaf að kíkja á símann til þess að vita hvað tímanum líður. Var orðin hálfgerð þráhyggja að kíkja alltaf á símann svo ég hef verið að reyna að fækka þeim skiptum sem kalla á að ég dragi hann fram.“

Gabríela í pilsi frá Zöru með Guess-tösku og í Hunter-stígvélum, töffaraleg og smart. „Ég elska stígvélin, ég vona að stígvél verði tískan í sumar.“