Brynjólfur Þor­steins­son er skáld og rit­höfundur frá Hvols­velli. Hann hefur sent frá sér tvær ljóða­bækur, Þetta er ekki bíla­stæði 2019 og Son grafarans 2020. Snuð er hans fyrsta skáld­saga en bókin á sér nokkuð sér­stakan að­draganda.

„Bókin byrjaði sem tíst, eitt­hvað um að það væri svo leiðin­legt að vera kominn alla leið í vinnuna og fatta að maður gleymdi snuðinu sínu heima. Á sama tíma var ég að lesa bók eftir Milan Kundera sem heitir Tjöldin, þar talar hann um skáld­skap sem kafar ofan í hyl­dýpi brandarans. Sem er að halda á­fram eftir pönslænið þar til það er ekkert fyndið lengur. Ég tók bara skyndi­á­kvörðun um að helga líf mitt næstu árin þessum hálf­gildings brandara á Twitter,“ segir hann.

Í kjöl­farið kveðst Brynjólfur hafa tekið á­kvörðun um að hætta á Twitter.

„Ég tók á­kvörðun um að eyða að­ganginum mínum og beina öllu bjána­lega dótinu sem ég gerði þarna á Twitter inn í skáld­skapinn. Hún er ansi hress á köflum, bókin.“

Brynjólfur segist ekki nota snuð sjálfur en kveðst þó vera mikið í kexinu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Dagur í lífi Lárusar

Hvað fjallar Snuð um?

„Bókin gerist á einum degi í lífi fjöl­skyldu. Það er hann Lárus sem er að byrja sinn fyrsta vinnu­dag hjá S:lausnum, sem er dular­fullt tækni­fyrir­tæki með vísinda­skáld­sögu­í­vafi og er meðal annars að þróa veru­leika­hermi í þeim til­gangi að kort­leggja manns­sálina svo það sé hægt að ráðskast með hana. Hann er að byrja að vinna í þessum veru­leika­hermi þegar hann áttar sig á því að hann gleymdi snuðinu sínu heima.“

Spurður um hvaðan snuð­þörf Lárusar stafi segir Brynjólfur:

„Lárus er háður snuði eins og aðrir sígarettum eða kaffi, notar það til að friða tómið innra og til að þrauka. Það kemur honum í tals­verðan bobba að hafa gleymt því heima og hefur mjög nei­kvæð á­hrif á fyrsta vinnu­daginn.“

Er þetta eitt­hvað sem þú kannast við per­sónu­lega?

„Nei, ég hætti á snuði á réttum tíma, sem betur fer, en maður þarf oft ein­hvers konar snuð til að komast í gegnum daginn. Kexið til dæmis, ég er mikið í kexinu.“

Lárus er háður snuði eins og aðrir sígarettum eða kaffi, notar það til að friða tómið innra og til að þrauka.

Snuð er fyrsta skáldsaga Brynjólfs Þorsteinssonar.
Kápa/Þórdís Erla Zöega

Finnst börn ó­hugnan­leg

Natan, sonur Lárusar, er mjög sér­stök per­sóna. Hann stefnir á að verða tann­læknir sem full­orðinn og til að undir­búa sig fyrir það starf safnar hann tönnum annarra barna.

„Barn­æskan er ó­hugnan­legur staður og börn eru ó­hugnan­leg, finnst mér. Ég er kannski einn um þá skoðun, það er yfir­leitt talað um þau sem frekar æðis­leg, en þau eru ill­kvittin. Þetta var mér svo­lítið hug­leikið. Hann kom til mín bara sem rödd og ég setti mér þá reglu að skrifa kaflana hans í einni at­rennu og ef ég náði því ekki þá var kaflinn ekki nógu góður. Þannig að ég var lengi að koma honum í gagnið,“ segir Brynjólfur og bætir því við að Natan hafi lík­lega verið erfiðasta per­sónan að skrifa.

Önnur aðal­per­sóna bókarinnar er Þrúður, eigin­kona Lárusar, sem er á leiðinni á presta­stefnu án þess þó að vera prestur.

„Hún er menntaður djákni en starfar samt ekki við það. Djáknar mega mæta á presta­stefnu og þetta er fyrsta presta­stefnan eftir em­bættis­töku nýs biskups, Frið­riku, sem er eins konar aug­lýsinga­stofu­biskup. Þjóð­kirkjan hefur tekið Fram­sókn til fyrir­myndar í bókinni og reynt að endur­skil­greina sig fyrir nýja tíma. Þrúður er haldin á­kveðinni þrá­hyggju fyrir þessum nýja biskupi,“ segir Brynjólfur.

Gervi­greind sálar­laust fyrir­bæri

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Brynjólfur skrifar um trúar­leg efni, en í síðustu ljóða­bók hans, Syni grafarans, stigu meðal annars fram grafari og hundruð kirkju­garðs­drauga. Afi Brynjólfs var prestur en hann segist þó ekki vera trúaður sjálfur.

Er trú þér hug­leikin í þínum skrifum?

„Já, hún er það og Guð. Ég er nú ekki trúaður maður samt en það er eitt­hvað við skrifin, að maður færist ein­hvern veginn nær Guði með hverri bók.“

Á kóló­fón-síðu bókarinnar kemur fram að tveir kaflar í Snuði hafi verið skrifaðir með hjálp gervi­greindar. Spurður hvort um sé að ræða grín þver­tekur Brynjólfur fyrir það.

„Þetta er satt. Það er hægt að ná sér í gervi­greind sem hjálpar manni með skrifin. Þeir kaflar eru skrifaðir út frá veru­leika­heiminum í S:lausnum þannig að það er í rauninni gervi­greind sem skrifar þá í sögu­heiminum líka, þannig séð. Mér fannst bara at­hyglis­vert að prófa þetta og reyna. Það eru höfundar úti í heimi sem nota þetta mikið við að dæla út bókum. Ég myndi nú ekki mæla með því endi­lega, en það er samt ó­hugnan­legt hvað þessi gervi­greind er fær um að skrifa fínan prósa.“

Brynjólfur kveðst þó ekki hafa á­hyggjur af því að gervi­greind muni taka af honum lífs­viður­værið.

„Ég er ekki sam­mála því að gervi­greind geti gert lista­verk betur en við. List er mann­legur hlutur á meðan gervi­greind er sálar­laust fyrir­bæri.“

Ég er nú ekki trúaður maður samt en það er eitt­hvað við skrifin, að maður færist ein­hvern veginn nær Guði með hverri bók.