Brynjólfur Þorsteinsson er skáld og rithöfundur frá Hvolsvelli. Hann hefur sent frá sér tvær ljóðabækur, Þetta er ekki bílastæði 2019 og Son grafarans 2020. Snuð er hans fyrsta skáldsaga en bókin á sér nokkuð sérstakan aðdraganda.
„Bókin byrjaði sem tíst, eitthvað um að það væri svo leiðinlegt að vera kominn alla leið í vinnuna og fatta að maður gleymdi snuðinu sínu heima. Á sama tíma var ég að lesa bók eftir Milan Kundera sem heitir Tjöldin, þar talar hann um skáldskap sem kafar ofan í hyldýpi brandarans. Sem er að halda áfram eftir pönslænið þar til það er ekkert fyndið lengur. Ég tók bara skyndiákvörðun um að helga líf mitt næstu árin þessum hálfgildings brandara á Twitter,“ segir hann.
Í kjölfarið kveðst Brynjólfur hafa tekið ákvörðun um að hætta á Twitter.
„Ég tók ákvörðun um að eyða aðganginum mínum og beina öllu bjánalega dótinu sem ég gerði þarna á Twitter inn í skáldskapinn. Hún er ansi hress á köflum, bókin.“

Dagur í lífi Lárusar
Hvað fjallar Snuð um?
„Bókin gerist á einum degi í lífi fjölskyldu. Það er hann Lárus sem er að byrja sinn fyrsta vinnudag hjá S:lausnum, sem er dularfullt tæknifyrirtæki með vísindaskáldsöguívafi og er meðal annars að þróa veruleikahermi í þeim tilgangi að kortleggja mannssálina svo það sé hægt að ráðskast með hana. Hann er að byrja að vinna í þessum veruleikahermi þegar hann áttar sig á því að hann gleymdi snuðinu sínu heima.“
Spurður um hvaðan snuðþörf Lárusar stafi segir Brynjólfur:
„Lárus er háður snuði eins og aðrir sígarettum eða kaffi, notar það til að friða tómið innra og til að þrauka. Það kemur honum í talsverðan bobba að hafa gleymt því heima og hefur mjög neikvæð áhrif á fyrsta vinnudaginn.“
Er þetta eitthvað sem þú kannast við persónulega?
„Nei, ég hætti á snuði á réttum tíma, sem betur fer, en maður þarf oft einhvers konar snuð til að komast í gegnum daginn. Kexið til dæmis, ég er mikið í kexinu.“
Lárus er háður snuði eins og aðrir sígarettum eða kaffi, notar það til að friða tómið innra og til að þrauka.

Finnst börn óhugnanleg
Natan, sonur Lárusar, er mjög sérstök persóna. Hann stefnir á að verða tannlæknir sem fullorðinn og til að undirbúa sig fyrir það starf safnar hann tönnum annarra barna.
„Barnæskan er óhugnanlegur staður og börn eru óhugnanleg, finnst mér. Ég er kannski einn um þá skoðun, það er yfirleitt talað um þau sem frekar æðisleg, en þau eru illkvittin. Þetta var mér svolítið hugleikið. Hann kom til mín bara sem rödd og ég setti mér þá reglu að skrifa kaflana hans í einni atrennu og ef ég náði því ekki þá var kaflinn ekki nógu góður. Þannig að ég var lengi að koma honum í gagnið,“ segir Brynjólfur og bætir því við að Natan hafi líklega verið erfiðasta persónan að skrifa.
Önnur aðalpersóna bókarinnar er Þrúður, eiginkona Lárusar, sem er á leiðinni á prestastefnu án þess þó að vera prestur.
„Hún er menntaður djákni en starfar samt ekki við það. Djáknar mega mæta á prestastefnu og þetta er fyrsta prestastefnan eftir embættistöku nýs biskups, Friðriku, sem er eins konar auglýsingastofubiskup. Þjóðkirkjan hefur tekið Framsókn til fyrirmyndar í bókinni og reynt að endurskilgreina sig fyrir nýja tíma. Þrúður er haldin ákveðinni þráhyggju fyrir þessum nýja biskupi,“ segir Brynjólfur.
Gervigreind sálarlaust fyrirbæri
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Brynjólfur skrifar um trúarleg efni, en í síðustu ljóðabók hans, Syni grafarans, stigu meðal annars fram grafari og hundruð kirkjugarðsdrauga. Afi Brynjólfs var prestur en hann segist þó ekki vera trúaður sjálfur.
Er trú þér hugleikin í þínum skrifum?
„Já, hún er það og Guð. Ég er nú ekki trúaður maður samt en það er eitthvað við skrifin, að maður færist einhvern veginn nær Guði með hverri bók.“
Á kólófón-síðu bókarinnar kemur fram að tveir kaflar í Snuði hafi verið skrifaðir með hjálp gervigreindar. Spurður hvort um sé að ræða grín þvertekur Brynjólfur fyrir það.
„Þetta er satt. Það er hægt að ná sér í gervigreind sem hjálpar manni með skrifin. Þeir kaflar eru skrifaðir út frá veruleikaheiminum í S:lausnum þannig að það er í rauninni gervigreind sem skrifar þá í söguheiminum líka, þannig séð. Mér fannst bara athyglisvert að prófa þetta og reyna. Það eru höfundar úti í heimi sem nota þetta mikið við að dæla út bókum. Ég myndi nú ekki mæla með því endilega, en það er samt óhugnanlegt hvað þessi gervigreind er fær um að skrifa fínan prósa.“
Brynjólfur kveðst þó ekki hafa áhyggjur af því að gervigreind muni taka af honum lífsviðurværið.
„Ég er ekki sammála því að gervigreind geti gert listaverk betur en við. List er mannlegur hlutur á meðan gervigreind er sálarlaust fyrirbæri.“
Ég er nú ekki trúaður maður samt en það er eitthvað við skrifin, að maður færist einhvern veginn nær Guði með hverri bók.