Myndlistarkonan María Dalberg er með einkasýningu í sal á efri hæð Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Sýningin ber heitið Suð og er þriggja rása vídeóinnsetning, ásamt prósa sem María skrifaði eftir ferð sína til Galapagoseyja og las inn á vídeóverkið.

„Þetta var í febrúar og það var brjálæðislega mikill snjór daginn sem ég kom heim, eitthvert mesta fannfergi sem hér hefur sést í mörg ár. Snjórinn náði upp í mitti. Og ég sem hafði verið að ganga eftir gylltum ströndum tveimur dögum áður. Svo í listaverkinu fór ég að reyna að endurskapa tilfinninguna fyrir hitanum, sólinni og birtunni,“ segir María og bætir við: „Þess vegna kann fólk svo vel að meta verkið. Ég færi sólina og ylinn inn í íslenskt haustveður!“

María lauk meistaranámi við Listaháskólann 2016 og var tekin inn á Moskvutvíæringinn mánuði eftir útskrift. Í framhaldi af því segir hún Listasafn Reykjavíkur hafa boðið henni að sýna en þess ber að geta að sýningartíminn er brátt á enda.