Heitasta förðunartrendið þessa dagana eru svokallaðar sápubrúnir og það er alveg sérstaklega vinsælt meðal áhrifavalda.

Til að ná fram nokkurs konar lyftingu í augabrúnir er notað venjulegt sápustykki, það bleytt stuttlega og síðan er augnhárabursti notaður til að greiða hárin upp. Sápan gerir það að verkum að hárin haldast á þennan hátt. Gefur þetta þá ásýnd að augabrúnirnar séu mun þykkari en þær eru ella. Á síðasta ári sló þetta algjörlega í gegn og voru ófá myndböndin sem birtust á samfélagsmiðlinum TikTok sem sýndu aðferðina.

Áhrifavaldurinn og hlaðvarpsstjórnandinn Sunneva Einarsdóttir heldur mikið upp á þessa augabrúnasápu frá Ucanbe.
Sumar kjósa að fylla upp í eftir sápuaðferðina með augabrúnalit.

Ein vinsælasta meðferðin á snyrtistofum á síðasta ári var „brow-lamination“ eða augabrúnalyfting, sem felst í því að hárin haldast lyft í lengri tíma en hægt er að ná tímabundið sömu áferð með venjulegri handsápu. Það verður þó að fara varlega í málin og huga að ofnæmisvöldum, athuga hvort þetta henti þér. Mælt er með að nota milda sápu, helst lyktarlausa og án litarefna. Mikilvægt er að sápan innihaldi glyserín, svo hárin haldist á þennan hátt. Einnig er hægt að nota brúnasápu, sem er sérstaklega gerð fyrir augabrúnir.

Í kjölfar aukinna vinsælda sápubrúna hafa snyrtivörufyrirtæki stokkið á vagninn og komið með vörur á markaðinn sem líkja eftir áferð sápubrúna.

Sápustykkið frá Neutral er ilm- og litarefnalaust. Það fæst víða í matvörubúðum og apótekum hér á landi.
Það er líka hægt að ná fram klassískari útkomu með því að greiða hárin örlítið til hliðar en ekki beint upp.