James Spears, faðir söng­konunnar Brit­n­ey Spears, hyggst stíga til hliðar sem lög­ráða­maður hennar. Þetta kemur fram í gögnum sem lög­menn hans lögðu fyrir dómara í Los Angeles í dag. Þeir segja þó „engin rök fyrir því“ að hann hætti sem lög­ráða­maður hennar. Hann muni þó vinna með dómara við að tryggja að það gerist með skipu­lögðum hætti.

Ekki kemur fram í gögnunum hve­nær gera mætti ráð fyrir því að James stigi til hliðar og segir þar að hann hafi „bjargað Spears frá hörmungum, stutt við bakið á henni er hún þurfti á því að halda, verndað hana og orð­spor hennar og að­stoðað hana við að endur­reisa ferill sinn.“

Tals­maður Brit­n­ey, lög­maðurinn Mat­hew S. Ros­engart, segir þetta gleði­tíðindi. „Við hlökkum til rann­sóknar á hegðun herra Spears, og annarra, á undan­gengnum þrettán árum, á meðan hann hagnaðist um milljónir dollara frá búi dóttur sinnar og ég hlakka til að taka svarin vitnis­burð af honum,“ segir Ros­engart. Hann vill auk þess að Spears „stígi til hliðar án tafar.“