Jamie Spears, faðir poppstjörnunnar Britney Spears, er sagður hafa njósnað um dóttur sína árum saman á meðan hann var fjárráðamaður hennar. Þá er dró hann sér rúmar 6,3 milljónir Bandaríkjadala frá tekjum Britney, andvirði rúmra 810 milljóna íslenskra króna.
Jamie Spears var forræðismaður dóttur sinnar í rúm 13 ár og fór einnig með fjárræði yfir eignum hennar eftir að hún var svipt sjálfræði árið 2008 en Britney fékk aftur sjálfræði síðasta haust.
Dómsmál stendur enn yfir gegn Jamie þar sem ásakanir um njósnir hans komu fram. Fyrrum starfsmaður Bandarísku alríkislögreglunnar FBI, Sherine Ebadi, renndi stoðum undir ásakanirnar í yfirlýsingu sem lögð var fyrir dómara í Los Angeles.

Ebadi var ráðin til að rannsaka rekstur Jamie á búi Britney og birti lögmaður söngkonunnar, Mathew Rosengart, yfirlýsingu Ebadi sem hluta af dómsmálinu gegn föður hennar. Hún segist hafa yfirheyrt Alex Vlasov sem vann fyrir fyrirtækið Black Box Security sem var ráðið af Jamie Spears til að sjá um öryggismál Britney, og lýsti honum sem „mjög trúverðugu vitni“. Vlasov greindi fyrst frá því að Jamie Spears hefði látið njósna um Britney í heimildarmyndinni Controlling Britney Spears sem var framleidd á vegum New York Times.
Að sögn Vlasov var vinnuveitandi hans þegar byrjaður að fylgjast með Britney þegar hann hóf störf 2012, meðal annars með því að vakta síma hennar, sem var af gerðinni Blackberry. Þegar Britney skipti um síma og fékk sér iPhone næsta ár fékk Vlasov það verkefni að koma fyrir földum eftirlitsbúnaði í símanum svo hægt væri að fylgjast nánar með söngkonunni.
Að sögn Ebadi var Vlasov gert að fara yfir efnið sem var vaktað og áframsenda upplýsingarnar til Jamie í gegnum lífvörð Britney, Edan Yemini. Stundum hafði Vlasov þó bein samskipti við Jamie Spears.
Vlasov segir að Jamie Spears hafi stundum beðið um að fá að skoða persónuleg gögn frá dóttur sinni svo sem smáskilaboð eða gögn í tengslum við læknismeðferðir hennar, meira að segja eftir að hann steig tímabundið til hliðar sem forráðamaður hennar í september 2019. Þá samþykkti hann einnig að láta koma fyrir leynilegum hlerunarbúnaði í svefnherbergi Britney.
„Black Box bar upphaflega ábyrgð á því að stinga upp á því að leynilegum hlerunarbúnaði yrði komið fyrir í svefnherbergi Britney en Jamie „elskaði“ hugmyndina og samþykkti hana og gaf fyrirmæli um að uppsetningin myndi fara fram,“ segir í dómsyfirlýsingu Ebadi.
Starfsmaður Black Box kom hlerunarbúnaðinum fyrir í svefnherbergi Britney með því að líma hann bak við húsgagn úr augsýn og kom einnig fyrir auka rafhlöðu svo hægt væri að nota tækið langtímum saman.
Að sögn Vlasov var safnað saman hundruð klukkutímum af upptökum á milli 2016 og 2018 sem innihéldu meðal annars samtöl á milli Britney og þáverandi kærasta hennar sem og sona hennar, Sean Preston og Jayden James.