Félagarnir Elías Helgi Kofoed Hansen, Atli Óskar Fjalarsson og Einar Egilsson standa að baki Reykjavik Creative Hub, sem er nokkurs konar miðstöð fyrir skapandi einstaklinga og listafólk í kvikmyndabransanum. Þeir standa fyrir reglulegum pallborðsumræðum í Bíó Paradís, en á morgun sitja leikararnir Ingvar E. Sigurðsson og Lára Hanna Jónsdóttir fyrir svörum. Elías sagði Fréttablaðinu stuttlega frá tilurð Reykjavík Creative Hub.

Læra af þeim reyndari

„Síðastliðin fimm ár bjó ég og besti vinur minn Atli Óskar Fjalarsson í Los Angeles þar sem alltaf er hægt að finna viðburði í þessum dúr og hægt að kynnast öðrum sem eru við jaðarinn á kvikmyndabransanum. Þegar við fluttum aftur til Íslands var það einmitt það sem okkur fannst vanta hvað mest hér,“ segir Elías.

Þegar þeir snéru svo aftur til Íslands segir Elías þá aðeins hafa misst þráðinn og tengslin við íslenska bransann.

„Við vorum þá búnir að vera út úr íslenska bransanum í þessi fimm ár og vildum kynnast þeim sem væru að brjótast í gegn í dag. Þess vegna stálum við einfaldlega hugmyndinni og gerðum slíkan vettvang hér, þá í samstarfi við vin okkar Einar Egilsson. En við viljum að fólk geti komið og lært af þeim reyndari og fengið tækifæri til að kynnast þeim sem munu gera það gott bransanum á næstu árum,“ segir hann.

Þakklátir Bíó Paradís

En hvernig ganga svona pallborðsumræður fyrir sig?

„Venjulega eru þær hrikalega skipulagðar til að eyða ekki of miklum tíma, en við erum rosalega íslensk í þessu og álítum þetta meira sem samtal en viðtal við viðkomandi. Atli Óskar er spyrillinn og hann er góður í að grafa í óþægilegustu mómentin hjá fólki, sem gerir samtölin alltaf jafn skemmtileg og þau eru fræðandi,“ segir Elías og bætir svo við að þeim félögum þyki mikilvægt að viðmælendur hafi jafn gaman af þessu og áhorfendurnir.

Upphaflega stefndu þeir á að byrja á verkefninu um leið og þeir flutti aftur til landsins.

„Ég flutti til Íslands síðasta haust og upphaflega stóð til að halda þetta í Iðnó, en okkur gekk erfiðlega að fá styrki til að geta haldið áfram að leigja af þeim salinn. Þótt Iðnó hafi mikið komið til móts við okkur stóð þetta einfaldlega ekki undir kostnaði hjá þeim, enda erum við að gera þetta frítt.“

Hann segir því mikinn létti þegar Bíó Paradís tók þeim opnum örmum.

„Ég vona bara að þeim mikla menningarstað verði ekki lokað svo við getum náð fótfestu sem fastur liður í íslenska kvikmyndabransanum.“

Ísinn brotinn

Elías segir það mjög gefandi að læra af þeim reyndari á þennan hátt. Áhorfendum gefst færi á í lokin að spyrja sjálfir gesti pallborðsumræðanna.

„Við fáum til okkar fólk úr mismunandi greinum kvikmyndabransans og því er alltaf eitthvað nýtt að læra. Í lok umræðunnar er áhorfendum velkomið að kynna sig fyrir öllum þeim sem eru að brjótast inn í bransann í dag. Ég mæli eindregið með að fólk geri það og gestirnir hafa verið duglegir við það hingað til. Það er góð leið til að brjóta ísinn áður en við kíkjum í happy hour beint eftir viðburðinn,“ segir Elías og hlær.

Hann segir það hafa gengið vel hingað til að fá kanónur úr bransanum til að mæta og deila visku sinni.

„Já svo virðist sem allir vilji einfaldlega gefa til baka. Það er einmitt það fallega við Ísland, hvað það er auðvelt að ná tali af hverjum sem er.“

Það stendur ekki á svörum þegar Elías er inntur eftir því hverjir væru hans draumagestir í pallborðsumræðurnar.

„Nú, að fá að tala um gerð kvikmyndatónlistar með Ólafi Arnalds og Hildi Guðnadóttur, að sjálfsögðu,“ segir hann.

Pallborðsumræðurnar hefjast í Bíó Paradís á morgun klukkan 16.00 og það er frítt inn. Einnig halda þeir félagarnir úti hlaðvarpi sem fjallar um ýmsar hliðar kvikmyndabransans, en það heitir einfaldlega Atli & Elías.