Hið íslenzka reðasafn var upphaflega opnað í litlu húsnæði á Laugaveginum árið 1997, en var svo flutt norður á Húsavík árið 2004.

„Safnið nær að festa sig í sessi á Húsavík og byrjar að vekja heimsathygli. Fólk gerði sér sérferð þangað til að fara á Reðasafnið. Árið 2011 flytjum við svo á Laugaveginn á ný. Núna, níu árum síðar, vorum við einfaldlega búin að sprengja utan af okkur húsnæðið. Við höfum bætt við fleiri safngripum og okkur hafði lengi langað að hafa einhverjar veitingar og drykki. Gamla húsnæðið bauð einfaldlega ekki upp á það. Núna er safnið komið í þetta stóra og glæsilega húsnæði í kjallara Hafnartorgs,“ segir hann.

Safnið er nú opnað á ný við nokkuð breyttar aðstæður, í kjölfar COVID-19. Þórður segist þó hafa trú á að ferðamenn fari að láta sjá sig á nýjan leik.

„Svo höfum við líka trú á því að Íslendingar muni heimsækja safnið í mun meiri mæli. Þetta er í raun núna orðið allt annað safn og okkur hefur tekist að færa þetta á annað plan. Safnið er til dæmis orðið miklu aðgengilegra. En við treystum auðvitað líka á það að túristarnir fari að skila sér,“ segir Þórður léttur í bragði.

Stofnandi safnsins er Sigurður Hjartarson.

„Hann er núna sestur í helgan stein og sonur hans Hjörtur tók við af honum sem reðurstofustjóri árið 2011 og hefur stýrt þessu síðan þá. Ég starfa sem framkvæmdastjóri og giftist í raun inn í fjölskylduna, Sigurður er tengdafaðir minn. Ég kom á fullt inn í starfsemina árið 2016,“ segir Þórður.

Að hluta til er starfsheiti Þórðar reðurfræðingur.

„Reðurfræði hafa óbeint verið stunduð öldum saman, þó að Sigurður hafi komið með þetta orð og gert reðurfræðina að því sem hún er í dag. Ég tek við allri rannsóknavinnu þarna árið 2016 og að halda utan um þetta allt. Við höfum haldið áfram að rannsaka og uppgötvað mjög margt. Þetta er verðug fræðigrein, sem nær mjög vítt og er gaman að stunda.“

Á safninu er reður eins Íslendings, Páls Arasonar. Þórður segir það algengt að túristar ánafni safninu lim sinn.

„Það gerist eiginlega oftar en við viljum, enda vitum við kannski ekki hversu mikið er að baki því. Við höfum verið að fá alls konar furðulegan tölvupóst. Svo er eitthvað um að ungir strákar sendi myndir af eigin reðri og vilji vita hvort stærðin sé í lagi. Við fáum alveg okkar skammt af typpamyndum,“ segir Þórður og hlær.

Hann segir að það sé þó hugsjón þeirra að halda framsetningunni smekklegri.

„Við erum fjölskylduvænt safn. Það er ekkert klúrt hérna. Við erum að reyna að setja allt fram á fræðilegan máta og eins smekklega og við getum. Þetta á að vera skemmtun og fræðandi á sama tíma.“

Safnið er staðsett á Hafnartorgi og verður loks opnað gestum aftur á mánudaginn.

Á safninu er hægt að sjá reðra af hinum ýmsu dýrategundum. ?Fréttablaðið/Valli