Eyþór Ingi Eyþórsson, bróðir Siggu, Betu og Elínar, sem spilar á trommur í atriði systkinanna á Eurovision, hefur slegið rækilega í gegn meðal Eurovision aðdáenda.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fá Júróaðdáendur ekki nóg af þessum hávaxna íslenska manni.

Fréttablaðið ræddi við Maríönnu Pálsdóttur, förðunarfræðinginn í Íslandsteyminu og hún staðfestir þetta við Fréttablaðið.

„Hann er svo mikill töffari og er að heilla alla upp úr skónum með frábærum svörum. Ítalar og aðrir Eurovision ferðalangar eru bara slefandi yfir honum. Hann er algjörlega að slá í gegn í viðtölum,“ segir Maríanna.

„Fólk segir að hann sé sætasti strákurinn í Tórínó.“

Eyþór kallaði sig á fyrsta blaðamannafundi Íslands í Tórínó fjórðu systurina, svokallaðan „mister sister“.

Hann greindi frá því í viðtali hjá RÚV að hann hugsi stöðugt til fjölskyldu sinnar á Íslandi meðan hann er úti enda nýbúinn að eignast son.