Forsvarsfólks EBU, samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva sem halda utan um Eurovision, hafa beðið keppendur í fyrri undankeppni afsökunar á mistökum í hljóðblöndun í dómararennslinu sem fór fram kvöldið 9. maí.

Dómararennslið var mikilvægt kvöld en líkt og Felix Bergsson sagði í samtali við Fréttablaðið í gær byggja dómararnir stigagjöf sína á frammistöðu keppenda í rennslinu.

Systkinin Sigga, Beta, Elín og Eyþór ásamt tónskáldinu Lovísu Elísabetu, fjölmiðlafulltrúanum Rúnari Frey og farastjóranum Felix Bergssyni.
EBU / CORINNE CUMMING

Bilunin varð í nokkrum lögum í gegnum dómararennslið, þar á meðal á sérstaklega mikilvægum stað í lagi Íslands þegar rödd Elínar Eyþórsdóttir hefði átt að fá að njóta sín, en þá féll hljóðið niður í salum.

Sömuleiðis áttu keppendur erfitt með að heyra í hver öðrum, meðal annars systurnar sem eru með raddaðan söng í laginu.

Bilunin heyrðist ekki í útsendingu

Svo virðist sem mistökin í hljóðblönduninni hafi ekki haft áhrif á útsendinguna sjálfa sem dómarar um alla Evrópu horfðu á. Mistökin höfðu einungis áhrif á hljóð í sal en ekki í sjónvarpi, sem skiptir mestu máli í þessu samhengi.

Undankeppnin fer fram kvöldið 10. maí. Íslensku keppendurnir leggja af stað upp í höllina um hádegisbil en um daginn verður rennsli og svo pása áður en keppnin sjálf hefst síðar um kvöldið.

Rúnar Freyr Gíslason, fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins, segir í samtali við RÚV að Systurnar hafi þegið auka æfingu, svokallað in-ear æfingu, í höllinni til að tryggja að allt gangi vel í undankeppninni.