Rit­höfunda­hjónin Gunnar Theo­dór Eggerts­son og Yrsa Þöll Gylfa­dóttir eru bæði með bækur í jóla­bóka­flóðinu þetta árið. Þau eru einkar sam­heldin og eru með sam­eigin­lega skrif­stofu þar sem þau skrifa bækur fyrir fólk á öllum aldri.

„Já, það var ekki nóg fyrir okkur að deila heimili og eiga saman þrjú börn og kött. Okkur vantaði enn fleiri sam­veru­stundir!“ segir Yrsa um sam­lífið.

Sjö nýjar bækur í ár

Yrsa er bæði skáld­sagna- og barna­bóka­höfundur, en í ár komu út þrjár nýjar bækur í bóka­röðinni Bekkurinn minn og fjórar létt­lestrar­út­gáfur af fyrri bókum, sem hún vinnur í sam­starfi við teiknarann Iðunni Örnu.

Nýjasta bókin er sú sjötta í seríunni og heitir Jóla­leik­ritið en þar segir frá Unni Leu sem skrifar jóla­leik­ritið í bekknum sínum, leik­stýrir því og leikur aðal­hlut­verkið.

„Hún er leikara­barn, alin upp í leik­húsinu og býst við því að leik­ritið hennar verði á pari við allt það sem hún hefur séð, er með gífur­legar væntingar og kröfur á alla í kringum sig. En að sjálf­sögðu fer ekki allt að óskum.“

Bekkurinn minn 6: Jólaleikritið er nýjasta bók Yrsu Þallar Gylfadóttur.
Kápa/Bókabeitan

Bjó til heim frá grunni

Gunnar Theo­dór sendi ný­lega frá sér bókina Nætur­frost sem er önnur bókin í bóka­röðinni Furðu­fjall, spennandi og ríku­lega mynd­skreyttri ævin­týra­seríu fyrir börn og ung­linga. Gunnar hefur skrifað fjölda ævin­týra­bóka fyrir börn og ung­menni en þetta er í fyrsta skipti sem hann skapar nýjan ævin­týra­heim alveg frá grunni.

„Ég hef aldrei búið til heim frá grunni áður, þó að ég náttúr­lega byggi hann að miklu leyti á okkar heims­sögu og sam­tíma. Þetta er líka í fyrsta skiptið sem ég hef getað unnið ævin­týra­bók í sam­starfi við teiknara, við lista­konu sem heitir Fífa Finns­dóttir. Um leið og hún byrjaði að skissa á­kveðnar per­sónur í fyrstu bókinni bætti hún við frá sjálfri sér á­kveðnum hlutum inn á myndina sem síðan urðu að stórum plott­punktum í bókinni af því mér fannst það svo heillandi,“ segir hann.

Gunnar bætir því við að það hafi verið einkar skemmti­legt að fá að gera bók með heims­korti fremst eins og finna má í flestum góðum fantasíu­bókum.

„Loksins fékk ég að hafa kort! Það var svo gaman að geta séð heiminn svona vel fyrir sér,“ segir hann.

Furðufjall: Næturfrost er nýjasta bók Gunnars Theodórs Eggertssonar.
Kápa/Vaka-Helgafell

Sitja þétt saman

Hjónin eru með sam­eigin­lega vinnu­stofu í Hafnar­húsinu og segjast þau vinna einkar vel saman.

„Hér sitjum við þétt saman,“ segir Gunnar.

Spurð um hvort þau fái ekkert leið hvort á öðru segir Gunnar svo ekki vera.

„Við erum vana­lega með þrjú börn í kringum okkur, þannig að við fáum ekkert oft að vera bara tvö. Og með þessu móti höldum við hvort öðru á­gæt­lega við efnið. Við erum samt lítið að skiptast á skoðunum og vitum yfir­leitt mjög lítið um hand­rit hvort annars fyrr en fyrsta upp­kast liggur fyrir.“

Yrsa tekur í sama streng. „Svo eru ó­tví­ræðir kostir við að deila skrif­stofu með Gunnari. Hann er til dæmis miklu dug­legri að standa upp og laga kaffi eða bjóða manni snarl, eitt­hvað sem ég gleymi alltaf að spá í.“

Við erum vana­lega með þrjú börn í kringum okkur, þannig að við fáum ekkert oft að vera bara tvö. Og með þessu móti höldum við hvort öðru á­gæt­lega við efnið. -Gunnar Theodór

Lásu upp fyrir heilan skóla

Gunnar og Yrsa eru bæði einkar af­kasta­mikil en Gunnar hefur sent frá sér tíu barna­bækur og eina skáld­sögu fyrir full­orðna. Yrsa hefur á skömmum tíma jafnað Gunnar með barna­bækurnar, auk þess sem hún hefur skrifað þrjár skáld­sögur fyrir full­orðna. Spurð hvort það örli á sam­keppni á heimilinu, segir Gunnar:

„Ég myndi nú ekki segja það. En báðir for­eldrar mínir eru rit­höfundar, pabbi var sagn­fræðingur og mamma skrifar bæði sagn­fræði og skáld­skap, þannig að kannski dróst ég ó­með­vitað að barna­bókunum, til að forðast sam­keppni.“

„En svo byrjaði ég að skrifa barna­bækur og eyði­lagði allt!“ segir Yrsa, en dregur svo úr. Að hennar sögn ríkir alls engin sam­keppni á milli þeirra, þau skrifa líka svo ó­líkar bækur og enn sem komið er fyrir ó­líkan aldur.

„Við höfum einu sinni farið í skóla þar sem ég gat lesið fyrir alla yngri bekkina og Gunnar fyrir þá eldri. Þá náðum við að dekka allt grunn­skóla­stigið.“

Við höfum einu sinni farið í skóla þar sem ég gat lesið fyrir alla yngri bekkina og Gunnar fyrir þá eldri. Þá náðum við að dekka allt grunn­skóla­stigið. -Yrsa Þöll

Hafa aldrei skrifað bók saman

Hafið þið ekkert pælt í því að skrifa bók saman?

„Jú, en ekki á sér­stak­lega al­var­legum nótum. Við höfum ekki sest niður og plottað neitt enn þá,“ segir Yrsa.

Gunnar segir það samt vel koma til greina. „Við skrifum auð­vitað mjög ó­líkar bækur, Yrsa er miklu meira í raun­sæinu og hvers­dags­leikanum og ég er meira í fantasíum og hryllingi. Það væri á­huga­vert að prófa að hræra þessu öllu saman.“

Hann bætir því við að sér hafi eitt sinn dottið í hug að skrifa bók með Yrsu í anda furðu­sagna­hjónanna C.L. Moor­e og Henry Kuttner sem skrifuðu fjölda bóka saman undir ýmsum dul­nefnum.

„Sagan segir að þau hafi verið með rit­vél á heimilinu og hafi bara skipst á að setjast niður. Hvorki þau né fræði­menn geta séð hver skrifaði hvað í sögunum sem þau gerðu saman, þau voru svo sam­stillt. Ég man eftir að hafa lesið þetta, stofnað eitt­hvert Goog­le Docs-skjal og sent þér hlekk.“

„Það er ó­hreyft af minni hálfu, þetta Goog­le Docs-skjal,“ segir Yrsa og hlær. „Kannski þurfum við bara að fá okkur rit­vél?“