Ein stærsta spurningin á vörum lands­manna fyrir komandi verslunar­manna­helgi er hvort að Þjóð­há­tíð í Eyjum verði af­lýst í ljósi fjölgandi smita líkt og í fyrra. Undir­búningur fyrir Þjóð­há­tíð er í nú há­punkti enda minna en tvær vikur í að gestir byrji að streyma í dalinn ef allt fer að óskum.

Berg­lind Sig­mars­dóttir rekur veitinga­staðinn GOTT í Vest­manna­eyjum á­samt manni sínum Sigurði Gísla­syni en hún segir undir­búninginn fyrir Þjóð­há­tíð vera kominn langt á veg.

„Við eigum von á fullt af fólki og þá þarf að plana með góðum fyrir­vara, það er búið að panta hrá­efni fyrir mikinn pening og gera vak­ta­plön og ráða fólk auka­lega á vaktir ofan af landi þannig þetta er alveg hellings skipu­lag.“

Berg­lind segir Verslunar­manna­helgina vera gríðar­lega stóra og mikil­væga fyrir GOTT og því sé mjög vont fyrir reksturinn þegar jafn stór helgi detti út eins og í fyrra.

„Það er bara rosa­lega vont eins og gerðist í fyrra þegar þessu var af­lýst alveg á síðustu stundu. Því þá er maður búinn að gera allar ráð­stafanir og það er svo erfitt að bakka með það. Hvað á maður að gera við allan matinn og allt sem maður er búinn að panta?“

Hvernig fór það hjá ykkur þegar Þjóð­há­tíð var af­lýst í fyrra?

„Við bara sátum uppi með þetta og reyndum að vinna úr þessu eins og hægt var en svo var maður með fólk líka á vak­ta­plani og maður getur ekkert hent þeim af því. Maður er með á­kveðnar skyldur í þessu, það er mikið í húfi og ég vona að það fari að skýrast sem allra fyrst hvað á að gera. En auð­vitað vill maður bara að það verði haldin Þjóð­há­tíð.“

Að­spurð um hvort að Eyja­menn séu á því að halda ó­trauðir á­fram segist Berg­lind ekki geta talað fyrir hönd allra en hún telji að al­mennt sé stemning fyrir því að halda há­tíðina.

Er fólk ekkert hrætt við þessa aukningu í smitum?

„Jú, jú, auð­vitað er þetta kannski ekki alveg eins og maður myndi vilja hafa það en að sama skapi eru kannski ekki margir að veikjast eins og er. Veit ein­hver hversu mikla vörn þessi bólu­setning hefur? Ég held við séum eigin­lega bara öll að reyna að átta okkur á því.“

Þannig þið ætlið bara að halda á­fram undir­búningi þar til annað kemur í ljós?

„Já, við verðum að gera það því ef að af þessu verður þá höfum við líka á­kveðna á­byrgð á að fólk fái að borða. Við erum á eyju þannig það verður að vera til matur fyrir þetta fólk. Þú tekur ekki bát til Reykja­víkur til þess að fá þér að borða þannig það verður að vera allt til­búið,“ segir Berg­lind og bætir við að lokum hvort ekki væri hægt að koma upp skimunar­stöð fyrir utan Vest­manna­eyjar svo hægt væri að halda veirufría Þjóð­há­tíð.

Útvarpsmaðurinn Sighvatur Jónsson er Eyjamaður í húð og hár.
Mynd/Sighvatur Jónsson

Búinn að bóka stæði fyrir hvíta tjaldið

Út­varps­maðurinn góð­kunni og Eyja­maðurinn Sig­hvatur Jóns­son tekur í svipaðan streng en hann skrifaði færslu á Face­book síðu sinni þar sem hann sagðist vera búinn að plana allt fyrir ferð á Þjóð­há­tíð með fjöl­skyldu sinni fyrir löngu. Þau eiga bókaða ferð með Herjólfi næst­komandi þriðju­dag og eru meira að segja búin að bóka stæði fyrir hvíta tjaldið sem heima­menn dvelja í eins og frægt er.

Mikil um­ræða hefur myndast undir færslu Hvata, eins og hann er kallaður, og er ljóst að fjöl­margir Eyja­menn eru harð­á­kveðnir í því að halda eigi Þjóð­há­tíð.

„Ég var að rifja þetta upp bara núna áðan miðað við um­ræðuna í fyrra þá 14. júlí kom frétt um að Þjóð­há­tíð væri af­lýst, þannig núna erum við viku seinna og væntan­lega enn þá meira á­ríðandi að það sé slegin lína í þetta,“ segir Hvati.

Lóðhátíð í stað Þjóðhátíðar?

Hvati var sjálfur á vakt á Bylgjunni um síðustu verslunar­manna­helgi og var því ekki staddur í Eyjum þegar Þjóð­há­tíð var af­lýst. Hann var þó í sam­bandi við ýmsa Eyja­menn og segir marga hafa gert gott úr stöðunni með því að halda svo­kallaða Lóð­há­tíð, þar sem fjöl­skyldur tjölduðu ein­fald­lega hvítu tjöldunum úti í garði. Að­spurður um hvort hann muni fara til Eyja jafn­vel þótt Þjóð­há­tíð verði af­lýst segist Hvati ekki vera viss.

„Það er akkúrat það sem ég veit ekki hvað maður gerir. Við erum að vissu leyti á ná­kvæm­lega sama stað og í fyrra nema viku seinna, þá meina ég bara sam­fé­lagið. Fólk er að velta því fyrir sér ef Þjóð­há­tíð verður blásin af hvort það ætli samt að fara eða ekki,“ segir Hvati og rifjar upp að í fyrra var fólk hvatt til þess að fara ekki til Eyja til að forðast hópa­myndun.

Hvati segir það hafa verið á­kveðna huggun í því í fyrra að hann og Skapti Örn Ólafs­son voru til­búnir með heimildar­myndina Fólkið í dalnum sem var frum­sýnd 2019 og fjallar um sögu Þjóð­há­tíðar í gegnum árin.

„Þannig það var kannski sára­bót fyrir ein­hverja að geta horft á myndina í fyrra. En fyrst og síðast er þetta auð­vitað erfitt fyrir í­þrótta­fé­lagið af því þetta er gríðar­lega mikill tekju­póstur fyrir ÍBV. Þannig maður getur alveg sett sig í spor fé­lagsins og allra veitinga­staðanna og rekstrar­aðilanna í Eyjum að þetta hlýtur að vera mjög erfitt eins og fyrir alla aðra að ganga í gegnum þessa um­ræðu aftur,“ segir Hvati að lokum.