Eyjólfur Kristjáns­son, texta- og laga­höfundur lagsins Draumur um Nínu, segist geysi­lega sáttur við nýja út­gáfu tón­listar­mannsins Flona af laginu, sem hann flutti sem skemmti­at­riði á annarri undan­­keppni Söngva­­keppninnar í gær­­kvöldi.


Margir voru afar ó­sáttir við út­gáfuna og skapaðist heit um­ræða um málið á Twitter það sem ein­hverjir gengu svo langt að lýsa því yfir að „Nína hefði verið myrt uppi á sviði“. Þá fór notkun Flona á autotu­ne-græju við flutninginn fyrir brjóstið á mörgum.

Eyjólfur, eða Eyfi eins og hann er betur þekktur, er höfundur lagsins og textans sem hann flutti á­samt Stefáni Hilmarssyni í Euro­vision árið 1991. Lagið lenti í 15. sæti af 22 og er eitt­hvert vin­sælasta Euro­vision­lag Ís­lendinga.


Hann sendi frá sér yfir­lýsingu um flutning Flona á laginu á Twitter rétt í þessu. „Vegna um­ræðu um flutning Flóna á “Draumur um Nínu” í gær, þá vildi ég bara segja sem höfundur lags og texta að ég er geysi­lega sáttur við þessa frum­legu út­gáfu, vel gert,“ segir hann.

Margir höfðu velt fyrir sér hvernig Stefán og Eyfi myndu taka í út­gáfuna en þarna höfum við það. Páll Óskar tók sig einnig til og hrósaði Flona fyrir út­gáfuna í gær á Face­book. „Mér finnst þetta ger­­sam­­lega geð­veik lag­lína og töff pródú­­serað lag við þennan þekkta texta,“ sagði hann og deildi mynd­bandi af flutningi Flona. „Þessi angur­væra lag­lína þjónar nefni­­lega textanum, skilur inn­­tak hans og dregur fram hvað textinn er í raun sorg­­legur. Súper­hittari er fæddur.“

Flóni - Nína

Flóni flutti eigin útgáfu af stórsmellinum Nína í Söngvakeppninni.

Posted by RÚV on Saturday, February 15, 2020