Bry­an John­son, 45 ára banda­rískur milljarða­mæringur, segist eyða hátt í 300 milljónum króna á hverju ári til að halda líkama sínum eins ung­legum og mögu­legt er.

Bry­an er hug­búnaðar­sér­fræðingur sem seldi fyrir­tæki sitt, Braintree Pay­ment Solutions, til eBay á sínum tíma fyrir 800 milljónir dollara, 115 milljarða króna á nú­verandi gengi.

Með heilan her af læknum í vinnu

John­son var í á­huga­verðu við­tali við Bloom­berg News fyrir skemmstu þar sem hann varpaði ljósi á þessa ó­trú­legu þraut­seigju sína við að halda sér ung­legum. Hann er með heilan her af læknum og öðrum sér­fræðingum sem sjá um að gera mælingar á honum, ítar­legar blóð­prufur til dæmis í hverjum mánuði.

Bryan lætur fylgjast vel með öllu sem gerist í líkama sínum. Hér er hann í blóðprufu, einu sinni sem oftar.

John­son segir að þessi vinna hafi nú þegar skilað góðum árangri. Hann sé með hjarta eins og 37 ára heil­brigður karl­maður, húð 28 ára karl­manns og lungun starfi eins og í 18 ára í­þrótta­manni. Er mark­mið hans að líkami hans; það er starf­semi heila, hjarta, nýrna, lifrar, húðar og meltingar verði eins og hjá 18 ára heil­brigðum ein­stak­lingi.

Tæki telur hversu oft hann fær holdris

En hvað gerir John­son til að ná þessu mark­miði sínu?

John­son er græn­keri og inn­byrðir ná­kvæm­lega 1.977 hita­einingar á hverjum degi. Hann stundar líkams­rækt á hverjum degi, fer að sofa á sama tíma á hverju einasta kvöldi og vaknar alla morgna klukkan fimm. Eftir að hann vaknar inn­byrðir hann alls­konar fæðu­bótar­efni og víta­mín, stundar líkams­rækt í klukku­stund og drekkur grænan safa sem inni­heldur meðal annars kreatín og kolla­gen. Þá hreinsar hann tennurnar vand­lega og ber á sig krem sem inni­halda andoxunar­efni.

Og áður en hann fer að sofa setur hann á sig sér­stök gler­augu sem sía út blátt ljós, en slík ljós geta blekkt líkams­klukkuna og skert svefngæði okkar. Í svefni er hann tengdur við ýmis tæki sem telja meðal annars hversu oft hann fær holdris, en holdris í svefni er sagt vera merki um hreysti.

Í hverjum mánuði gengst hann svo undir ítar­lega blóð­prufu, óm­skoðun, ristil­skoðun og segul­ómun. Og að sjálf­sögðu fylgist hann vel með líkams­þyngd sinni, fitu­magni og blóð­sykri svo eitt­hvað sé nefnt.

Var orðinn þunglyndur

Í sam­tali við Bloom­berg segist John­son hafa tekið U-beygju í lífi sínu eftir að hann seldi fyrir­tæki sitt til eBay. Honum leið illa bæði and­lega og líkam­lega, var undir miklu á­lagi, orðinn of þungur og glímdi þar að auki við þung­lyndi.

Oli­ver Zol­man, einn af læknum John­sons, segir að mark­mið hans sé að sanna að hægt sé að snúa lífs­stíls- og aldurs­tengdri hrörnun við. Ef hann geti sýnt fram á að þetta sé hægt muni það koll­varpa hug­myndum um ó­hjá­kvæmi­lega og ó­aftur­kræfa hrörnun manns­líkamans.

Áhugasamir geta kynnt sér málið frekar hér að neðan: