Bryan Johnson, 45 ára bandarískur milljarðamæringur, segist eyða hátt í 300 milljónum króna á hverju ári til að halda líkama sínum eins unglegum og mögulegt er.
Bryan er hugbúnaðarsérfræðingur sem seldi fyrirtæki sitt, Braintree Payment Solutions, til eBay á sínum tíma fyrir 800 milljónir dollara, 115 milljarða króna á núverandi gengi.
Með heilan her af læknum í vinnu
Johnson var í áhugaverðu viðtali við Bloomberg News fyrir skemmstu þar sem hann varpaði ljósi á þessa ótrúlegu þrautseigju sína við að halda sér unglegum. Hann er með heilan her af læknum og öðrum sérfræðingum sem sjá um að gera mælingar á honum, ítarlegar blóðprufur til dæmis í hverjum mánuði.

Johnson segir að þessi vinna hafi nú þegar skilað góðum árangri. Hann sé með hjarta eins og 37 ára heilbrigður karlmaður, húð 28 ára karlmanns og lungun starfi eins og í 18 ára íþróttamanni. Er markmið hans að líkami hans; það er starfsemi heila, hjarta, nýrna, lifrar, húðar og meltingar verði eins og hjá 18 ára heilbrigðum einstaklingi.
Tæki telur hversu oft hann fær holdris
En hvað gerir Johnson til að ná þessu markmiði sínu?
Johnson er grænkeri og innbyrðir nákvæmlega 1.977 hitaeiningar á hverjum degi. Hann stundar líkamsrækt á hverjum degi, fer að sofa á sama tíma á hverju einasta kvöldi og vaknar alla morgna klukkan fimm. Eftir að hann vaknar innbyrðir hann allskonar fæðubótarefni og vítamín, stundar líkamsrækt í klukkustund og drekkur grænan safa sem inniheldur meðal annars kreatín og kollagen. Þá hreinsar hann tennurnar vandlega og ber á sig krem sem innihalda andoxunarefni.
Og áður en hann fer að sofa setur hann á sig sérstök gleraugu sem sía út blátt ljós, en slík ljós geta blekkt líkamsklukkuna og skert svefngæði okkar. Í svefni er hann tengdur við ýmis tæki sem telja meðal annars hversu oft hann fær holdris, en holdris í svefni er sagt vera merki um hreysti.
Í hverjum mánuði gengst hann svo undir ítarlega blóðprufu, ómskoðun, ristilskoðun og segulómun. Og að sjálfsögðu fylgist hann vel með líkamsþyngd sinni, fitumagni og blóðsykri svo eitthvað sé nefnt.
Var orðinn þunglyndur
Í samtali við Bloomberg segist Johnson hafa tekið U-beygju í lífi sínu eftir að hann seldi fyrirtæki sitt til eBay. Honum leið illa bæði andlega og líkamlega, var undir miklu álagi, orðinn of þungur og glímdi þar að auki við þunglyndi.
Oliver Zolman, einn af læknum Johnsons, segir að markmið hans sé að sanna að hægt sé að snúa lífsstíls- og aldurstengdri hrörnun við. Ef hann geti sýnt fram á að þetta sé hægt muni það kollvarpa hugmyndum um óhjákvæmilega og óafturkræfa hrörnun mannslíkamans.
Áhugasamir geta kynnt sér málið frekar hér að neðan: