„Nýjasti búningurinn minn er kjóll Önnu í Frozen, sem tók mig um 446 klukkustundir að hekla,“ upplýsir Jessica stolt um nýjustu viðbótina í heklsafnið.

Jessica segir þetta eingöngu áhugamál og að hún hekli búningana á sjálfa sig. „Ég er ekki að selja þá en ég bý einnig til uppskriftirnar af búningunum sem fólk getur nálgast ef það vill,“ segir hún.

Jessica í hekluðum kjól sem gerður er frá grunni eftir fyrirmynd Elsu prinsessu í Frozen.
Mynd/Aðsend

Fyrsti búningurinn sem Jessica gerði var Litla hafmeyjan og eru búningarnir flestir í anda Disney. „Ég vann meðal annars til verðlauna sem eftirlæti dómara í búningakeppni sem fór fram í Frakklandi og klæða þátttakendur sig upp sem persónur í kvikmyndum, myndasögum og sjónvarpsþáttum,“ segir Jessica stolt.

Jessica hreint glæsileg í hekluðum kjól Önnu, prinsessu úr Frozen.
Mynd/Martin Poloha

Jessica flutti til Íslands í maí í fyrra ásamt kærasta sínum og ketti. Hún kynntist Íslandi þegar hún var í starfsnámi hérlendis árið 2018 og heillaðist af landi og þjóð.

„Ég gat ekki beðið eftir að koma aftur að námi loknu,“ segir Jessica sem er yfir sig hrifin af Íslandi.

Jessica í eigin búningi Daphne úr Scooby Doo teiknimyndaþáttunum.

Hvergi nærri hætt

Nýjasti búningurinn frá Jessicu sem er í vinnslu er Skellibjalla úr kvikmyndinni Pétur Pan.

Aðrir búningar sem hún hefur gert eru kjólar Elsu og Önnu úr Frozen og Bangsímon.

Hægt er að skoða fleiri myndir á samfélagsmiðlum Jessicu undir nafninu Transatlantic Crochet