Tvísýni er yfirskrift sýningar í Listamönnum Galleríi á Skúlagötu en þar sýna Hulda Vilhjálmsdóttir og Jón Magnússon olíu­portrett á striga.

Þau eru spurð af hverju þau hafi ákveðið að vinna saman að sýningu. „Við erum á svipuðum aldri og ég hef fylgst með Huldu í gegnum hennar langa feril,“ segir Jón. „Fyrir fjórum árum urðum við vinir en það sem bindur okkur sterkustu böndum er að fyrir tveimur árum ákváðum við að deila saman vinnustofu. Við unnum þetta verkefni saman og fengum fólk til að sitja fyrir. Hulda þekkir hálfan bæinn, þannig að það var auðvelt að fá fólk til að koma til okkar.“

Af hverju vildu þau vinna sýningu með portrettmyndum? „Það er gaman að spegla sig í öðru fólki og vera ekki alltaf að horfa á sjálfan sig. Það er þroskandi og hollt fyrir mann að kynnast öðru fólki,“ segir Hulda.

Expressjónismi og sterkir litir

Ólíkur stíll þeirra og mismunandi sjónarhorn endurspeglast mjög vel í nokkrum myndum þar sem þau máluðu bæði sömu fyrirmyndina. Í sýningarskrá segir Jón Proppé um stíl Huldu: „Hulda hefur sinn mótaða en persónulega stíl, örlítið expressjónsískan en fyrst og fremst tilfinningaríkan.“ Um stíl Jóns segir hann: „Hann leitast við að fanga svip og hollningu manneskjunnar með fáum, sterkum pensilstrokum og er óhræddur við að nota sterka liti til að túlka persónu og andrými.“

„Það sem er svo skemmtilegt við okkur sem myndlistarmenn er að við erum með svo ólíkan stíl og tjáningu. Þess vegna verða verkin svona skemmtilega ólík. Þetta væri ekki eins spennandi ef við myndum mála á sama hátt. Þá væri verkefnið eiginlega ekki þess virði að gera það, segir Jón.

Helga sig listinni

Hulda hefur átt afar farsælan feril. Hún segir ekki hafa komið annað til greina en að gera myndlistina að ævistarfi. „Um tíma bjó ég úti á landi og fann mjög sterka tengingu við náttúruna. Mér fannst ég þurfa að tjá mig í myndlist og ákvað að starfa sem myndlistarmaður.“ Hún lærði í Listaháskólanum og fór síðar í keramiknám. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Í fyrra hlaut hún Tilberann, verðlaun sem eru veitt þeim sem hafa sýnt útsjónarsemi, dugnað, hugrekki og staðfestu á sviði myndlistar. Hulda er fyrsti listamaðurinn til að fá Tilberann fyrir listsköpun en ekki önnur störf í þágu myndlistar.

Jón lærði myndskreytingar og myndlist í Parsons-listaháskólanum í París og útskrifaðist þaðan með BFA 1992. „Þegar ég kom heim var konseptið mjög sterkt í myndlistinni en ég fann mig ekki í því og fór að sinna grafískri hönnun og starfaði við hana en stundaði alltaf málverk og teikningu með. Árið 2016 var afdrifaríkt þegar ég ákvað að snúa mér alfarið að myndlist og fór í tveggja ára diplomanám í samtíma málverki hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Síðan hef ég unnið alfarið í myndlistinni. Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu,“ segir hann.

Sýning Huldu og Jóns stendur til 24. febrúar.