Alls munu nítján þjóðir taka þátt í fyrri undankeppni Eurovision sem fer fram í Lissabon í Portúgal annað kvöld. Fulltrúi Íslands, Ari Ólafsson, flytur lagið Our choice en hann verður annar á svið. Keppendur Aserbaídsjan fá þann heiður að opna keppnina í ár.

Söngvakeppnin hefst klukkan 19 að íslenskum tíma annað kvöld, þriðjudaginn 8. maí, og því tímabært að kynna sér keppinautana. Lög þeirra má finna hér fyrir neðan. Seinni undankeppnin fer fram fimmtudaginn 10. maí og sjálf úrslitin verða laugardaginn 12.maí. 

Aserbídsjan

Söngkonan Aisel stígur fyrst allra á svið í keppninni í ár en hún flytur lagið „X My Heart“. Söngkonan fæddist inn í mikla tónlistarfjölskyldu og hefur staðið á sviði frá unga aldri. Hún hefur gefið út fjölda laga sem njóta mikilla vinsælda í nágrannalöndum hennar og víðar í Evrópu.

Aserar hafa átt góðu gengi að fagna í keppninni en þeir tóku fyrst þátt árið 2008 og unnu árið 2011 með laginu „Running Scared“ í flutningi þeirra Ell og Nikki. Sviðsetning Asera er alltaf mikið sjónarspil og tilhlökkunarefni að sjá atriðið í ár.

Albanía

Fulltrúi Albana að þessu sinni er söngvarinn Eugent Bushepa sem flytur lagið „Mall“. Söngvarinn er engin nýgræðingur á tónlistarsviðinu en hann hefur unnið fjölda viðurkenninga í heimalandi sínu fyrir list sína. Hann er jafnframt höfundur lags og texta. Albanir tóku fyrst þátt í söngvakeppninni árið 2004 og hefur þeim gengið misjafnlega að hljóta náð fyrir evrópskum eyrum.

Tékkland

Tónlistarmaðurinn Mikolas Josef er fulltrúi Tékka í ár en framlag þeirra nefnist „Lie to me“. Mikolas er fæddur og uppalin í Prag en er nú búsettur í Vínarborg þar sem hann stundar list sína, en hann er jafnframt menntaður leikari frá leiklistarskóla í London. Hann hefur ekki enn hafið feril sinn sem leikari því tónlistin á hug hans allan. Þessi fjölhæfi ungi listamaður ólst upp í tónlistarfjölskyldu og byrjaði að leika á gítar einungis fimm ára gamall.

Litháen

Í ár mun söngkonan Ieva Zasimauskaitė stíga á svið fyrir hönd þjóðar sinnar og flytja lagið „When we‘re old“ en hún hefur áður tekið þátt á þessum vettvangi fyrir tíu árum síðan þá aðeins 14 ára. Hún var þá bakraddasöngkona í framlagi Litháa í ungliðakeppninni, Junior Eurovision Song Contest. Hún,líkt og margir keppendur í ár , hóf unga að nema tónlist og var einungis sex ára þegar að hún byrjaði í píanónámi. Litháar mættu fyrst til leiks árið 1994 en drógu sig svo úr keppni og sneru aftur árið 1999 og verið með síðan.

Ísrael

Framlag Ísraela í ár „Toy“ í flutningi tónlistarkonunnar Nettu hefur vakið gífurlega mikla eftirtekt og það langt út fyrir raðir Eurovision aðdáenda. Tónlistarkonan Netta er með tónlistarmenntun og er fjölhæf á því sviði. Raddbeiting hennar þykir einstök og leikur hún sér óspart með ýmis í hljóð í flutningi sínum. 

Sviðsgervi hennar og búningar minna nokkuð á Björk okkar Íslendinga en sumir Eurovision spekingar segja það sé henni til framdráttar. Ísraelar eru sigursælir á þessum vettvangi og hafa alls unnið þrisvar sinnum og eru nánast undantekningarlaust meðal efsta sæta ár hvert. Þjóðin hóf keppni í Eurovision árið 1973 og sigraði í fyrsta sinn árið 1978 með laginu A Ba Ni Bi, en lagið varð feykivinsælt um alla Evrópu.

Hvíta - Rússland

Að þessu sinni veðja Hvít-Rússar á hinn úkraínska Alekseev sem mun syngja lagið „Forever“. Söngvarinn Nikita Alekseev er fæddur og uppalinn í Kænugarði og ólst þar upp við kröpp kjör hjá einstæðri móður. 

Hans heitasta ósk er að hitta föður sinn sem hann hefur aldrei hitt því faðir hans yfirgaf fjölskylduna fyrir fæðingu sonarins. Nikita er á einlægu nótunum í þessu lagi og vonast hann til þess að Evrópubúar hlusti með hjartanu og opni á tilfinningar sínar og leyfi þeim að flæða um álfuna.

Eistland

Hin klassískt menntaða söngkona Elina Nechayeva flytur lagið „La Forza“ en hún er hámenntuð í söng og lauk námi frá tónlistarakademíunni í Eistlandi fyrir tveimur árum. 

Sem barn átti Elina sér þann draum heitastan að fljúga um ókannaðar lendur himingeimsins og uppgötva áður óþekktar reikistjörnur og sólir. En þess í stað leiddi lífið leiddi hana inn á svið söngsins þar sem hún kannar undraveröld nótna og tóna og markmiðið er að skína skærust allra stjarna á vetrarbraut óperunnar. 

Söngkonan unga er metnaðargjörn og stundar heilsurækt af miklum krafti til að viðhalda heilbrigði raddarinnar, en það stoppar hana ekki í því að gæða sér á dísætu súkkulaði sem hún segir allra meina bót.

Búlgaría

Að þessu sinni senda Búlgarar söngsveitina Equinox en hún var sérstaklega sett saman fyrir keppnina í ár. Framlag þeirra í ár heitir „Bones“ og fjalalr textinn um ástina og hennar dökku hliðar.

Sönghópurinn samanstendur af fimm söngvurum sem hafa fjölbreytta reynslu í tónlist og hafa unnið á því sviði bæði í heimalandinu og í Bandaríkjunum. Þau Zhana Bergendoff, Vlado Mihailov, Georgi Simeonov, Jhonny Manuel og Trey Campell lofa áhorfendum kröftugu lagi með texta sem á erindi við alla.

Búlgarir kepptu fyrst í Eurovision árið 2005 og hafa þrisvar sinnum komist áfram í lokakeppnina og þar verið tvisvar sinnum í efstu fimm sætunum. Nú er að sjá hvort að sönghópurinn Equinox leiki það eftir.

Makedónía

Þeir spila djarft í ár því Makedónar senda sína allra vinsælustu poppsveit til leiks í Lissabon. Hljómsveitin Eye Cue stígur á svið með lagið „Lost and found“ og freista þess að slá jafn rækilega í gegn í Evrópu allri líkt og þau hafa gert í heimalandinu.

Gítarleikarinn og söngvari hljómsveitarinnar Bojan Trajkovski og söngkona bandsins Marja Ivanovska verða fulltrúar sveitarinnar í keppninni í ár en trommarinn Mitkovski verður fjarri góðu gamni í þetta sinn.

Makedónar hafa sent lag til keppninnar frá árinu 1998 en ekki uppskorið ríkulega, en hver veit nema að dúóið í Eye Cue brjóti þau örlög á bak aftur.

Króatía

Laganeminn og söngkonan Franka er fulltrúi Króata í ár hún syngur lagið „Crazy“ sem fjallar um ást og ástríður. Franka hefur sungið frá barnsaldri en tónlistarlegt uppeldi hennar var að mestu í kirkjukórum og þar hóf snemma að syngja einsöng. Söngkonan er ekki einhöm því auk söngsins þá leikur hún hvoru tveggja á píanó og gítar og les lögfræði við háskólann í Zagreb.

Króatar hafa keppt í söngvakeppninni frá árinu 1993, þeirra besti árangur er fjórða sæti og því náðu þeir tvisvar árin 1996 og 1999. Hver veit nema að syngjandi laganeminn Franka fylgi því eftir með laginu „Crazy“ á sviðinu í Lissabon.

Austurríki

Austurríkismenn risu sem fuglinn fönix og fóru í hæstu hæðir í annað sinn þegar söngdívan Conchita Wurst keppti fyrir hönd þjóðarinnar með ofurballöðunni  „Rise lika a phoenix“  og tryggði þeim sigur árið 2014. 

Austurríkismenn voru með fyrstu þátttökuþjóðunum í söngvakeppninni en þeir gengu til leiks árið 1957 og hafa verið með æ síðan að undanskildum örfáum árum. Þeirra frægasta framlag er án efa lag dægurlagasöngvarans Udo Jürgens, Merci Chérie, en með því tryggði hann þeim sigur árið 1966.

Að þessu sinn er það söngvarinn Cesár Sampson sem freistar þess halda uppi heiðri forvera sinna og mætir til leiks vopnaður hugljúfu og taktföstu popplagi „Nobody but you“ sem er nútímalegur söngur um sígilt yrkisefni, ástina. 

Grikkland

Ung og upprennandi söngkona Yianna Terzi, flytur framlag Grikkja í ár. Þeir bregða ekki út af vana sínum í ár og syngja lagið á móðurmálinu. Lagið „Oniro mou“ eða „Draumur minn“ á íslensku er dramatísk ofurballaða sem fjallar um elskendur sem fórna sér fyrir ástina. Þetta framlag er verulega ólíkt því sem hefur verið hingað til.

Þeir grísku hafa verið þjóða duglegastir að senda dillandi fjöruga danssmelli í flutningi léttklæddra goðumlíkra karlmanna. Sú formúla hefur oftast nær gengið rækilega upp og lögin lifað keppnina á dansklúbbum víða í Evrópu og víðar.

Söngkonan Yianna býr nú í Bandaríkjunum þar sem að hún haslar sér völl þar og ætlar sér stóra sneið af þeirri tónlistarköku.

Grikkir tóku fyrst þátt í keppninni árið 1974 en uppskáru ekki sigur fyrr en árið 2005 þegar söngkonan Helena Paparizou sló í gegn með laginu „My number one“  en það fór sem sinueldur um dansklúbba heimsins og glæðurnar lifa enn víða.

Grikkir hafa fimm sinnum verið í fjórum efstu sætunum og státa af því að hafa aldrei lent í neðsta sæti.

Finnland

Skrímslasveitin Lordi þrykkti Finnum rækilega á Eurovisonkortið árið 2006 þegar rokkslagarinn „Hard rock hallelujah“ bar sigur úr býtum. Metnaður þeirra fyrir kepnninni hefur aukist frekar en hitt og í ár tefla þeir fram stórstjörnunni Saara Aalto en hún er vinsælasta söngkonan þar í landi í dag.

 Saara sem söng sig inn í hjarta Simon Cowell í breska sjónvarpsþættinum X Factor UK  2016 mun flytja lagið „Monsters“ og veðjar á jákvæð áhrif skrímsla á áhorfendur Eurovison.

Söngkonan samdi lagið í samstarfi við höfunda sænska vinningslagsins  Heroes sem Mans Zelmerlöw flutti svo eftirminnilega hvort það tryggi henni sigur verður að koma í ljós. 

Saara ætlar sér að syngja til sigurs og uppskera sömu upphrópun frá evrópskum sjónvarpsáhorfendum og hún fékk frá sjónvarpsrefnum Simon Cowell þegar að hann stóð upp fyrir henni að loknum flutningi hennar í sjónvarpsþættinum X Factor UK.

Armenía

Söngvakeppnin er vinsæl í Armeníu og í ár er það söngvarinn og lagahöfundurinn Sevak Khanagyan sem reynir fyrir sér með laginu „Quami“ sem er óður til horfinna minninga. Sevak mun flytja lagið á móðurmálinu. 

Armenar tóku fyrst þátt árið 2006 og uppskáru vel því að lagið þeirra „Without your love“ endaði í áttunda sæti á úrslitakvöldinu sem frábær árangur fyrir þjóð á fyrsta þátttökuári. 

Sviss

Tvíeykið ZiBBZ verða fulltrúar Sviss í ár og muna flytja lagið „Stones“, sem þau segja vera draumkennt indípopp. Meðlimir hljómsveitarinnar eru systkinin Coco og Stee þau segjast afar samrýmd og deila sambærilegri lífsspeki og viðhorfum. Texti lagsins fjallar um afleiðingar eineltis en málefnið varðar þau miklu og þau telja að  innihald hans eigi fullt erindi til áhorfenda Eurovision.

Svissneska ríkissjónvarpið hefur verið með í keppninni frá byrjun og er jafnframt frumkvöðull að stofnun hennar. Fyrsta keppnin fór fram árið 1956 og það var Lys Assia sem stóð uppi sem sigurvegari það ár eftir flutning sinn á laginu Refrain. Kanadíska stórstjarnan Céline Dion keppti sem fulltrúi Sviss árið 1988 sigur hennar markaði upphafið að ferli hennar en hún bræddi hjörtu heimsins með laginu „Ne partez pass ans moi“ hún lék sjálf undir á flygil.

Írland

Það kemst með litlu tá þar sem Írar eru með sína Eurovisionhæla, en þeir hafa verið fádæma sigursælir á þessum vettvangi hafa alls sigrað keppnina sjö sinnum. 

Í ár tefla þeir fram ungum manni, Ryan O’Shaughnessy, sem hefur verið viðloðandi söng frá barnsaldri líkt og fjölmargir aðrir keppendur í ár. Hann starfar einnig sem leikari í vinsælum sjónvarpsþáttum þar í landi en hefur nú sett tónlistarferilinn í forgang.   

Ryan flytur lagið „Together“ en það er hugljúf og rómantísk ballaða af mýkri gerðinni. 

Kýpur

Söngkonan Eleni Foueira er fulltrúi Kýpverja í ár. Lagið „Fuego“ er í ætt við þá tónlist sem má kenna við Beyoncé og Rihanna líkt og glöggt má sjá í tilkomu miklu myndbandi þar sem fjaðrir, kristalsljósakrónur og brennandi bifreiðar leika aðalhlutverkið ásamt hárprúðri söngkonunni.

Kýpur hóf þátttöku árið 1981 og hefur á þeim tíma aldrei komist hærra en í fimmta sæti, en það hefur gerst þrisvar. Hver veit nema að áhrif frá Queen -B muni breyta einhverju þar um.